Mikilvægt er að þekkja ákveðin líkamleg einkenni og bregðast rétt við þeim verði þau viðvarandi. Ýmis einkenni svo sem hósti og þvagtregða benda ekki alltaf til alvarlegs sjúkdóms en geta þó verið einkenni um krabbamein. Því er nauðsynlegt að bregðast við einkennum því líkur á lækningu eru meiri því fyrr sem krabbamein greinist.
Sjá einnig: Vakin athygli á krabbameini í kvenlíffærum
Upplýsingum þessum er ætlað að auðvelda þér að greina og þekkja algeng einkenni krabbameina og hvetja þig til að bregðast við þeim á réttan hátt.
Þessi grein er hluti af upplýsingaherferð Evrópusambandsins sem nefnist „Evrópuvika gegn krabbameini“ og er skipulögð af Evrópusambandinu í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld og krabbameinsfélög. Hefur þú orðið var við eitthvert þessara einkenna? Ef svo er leitaðu læknis sem fyrst.
1. Langvarandi óþægindi í munni og koki
eða breyting á rödd (hæsi).
2. Þrálátur hósti.
3. Óþægindi frá maga eða ristli.
4. Blóð í þvagi.
5. Erfiðleikar við þvaglát.
6. Hnútur í eista/pung.
7. Einkennileg varta eða breyting á
fæðingarbletti á líkamanum.
8. Hnútar eða þykkildi á líkamanum.
1. „Ég finn fyrir óþægindum í munni eða hálsi og röddin hefur breyst“
Allir finna fyrir hæsi og særindum í munni öðru hverju. Hæsi án augljósrar ástæðu sem lagast ekki á tveim vikum getur verið einkenni um krabbamein í hálsi eða koki. Sár sem myndast á vör eða í munni og grær ekki getur verið einkenni um krabbamein. Krabbamein í munni og koki er algengast eftir fimmtugsaldur. Á Íslandi greinast árlega 5-10 karlar með krabbamein í vör, munni eða koki. Mikilvægt er að hreinsa munn og tennur vel og reykja ekki né neyta munn- og neftóbaks. Hikaðu ekki við að leita læknis ef þú verður var við breytingar eða einkenni sem valda þér óþægindum.
2. „Ég er með þrálátan hósta“
Hósti er algengt einkenni, einkum hjá reykingamönnum, sem oftast stafar af sýkingu. Með því að hósta hreinsast lungu og háls. Mikilvægt er að veita því eftirtekt hvort hóstinn er nýtilkominn eða hvort hósti sem þú hefur haft lengi hefur breyst. Nýtilkominn hósti getur verið þurr, breyttur hósti getur hafa versnað. Hann getur valdið verkjum eða hljómað á annan hátt. Blóð í uppgangi (hráka) og mæði ber að taka alvarlega. Þetta geta verið einkenni lungnakrabbameins.
Krabbamein í lungum er sjaldgæft fyrir fertugt hjá körlum. Meðalaldur við greiningu er um 68 ár. Árlega greinast um 50 karlar með lungnakrabbamein. Reykingar eru meginorsök lungnakrabbameins. Mikilvægast er að reykja ekki og hætta sem fyrst ef þú reykir.
Hafir þú hósta sem hefur breyst, byrjað án ástæðu eða staðið yfir lengur en tvær vikur skaltu leita læknis.
Hóstir þú blóði skaltu strax leita þér aðstoðar.
3. „Ég er með óþægindi í maga eða ristli“
Allir verða einhvern tímann varir við einkenni frá meltingarvegi, allt frá munni og vélinda til ristils og endaþarms. Eftirtalið eru einkenni sem þarf að taka alvarlega og bregðast við:
Erfiðleikar við að kyngja mat.
Meltingartruflanir.
Langvinn hægðatregða eða niðurgangur.
Hægðatregða og linar hægðir á víxl.
Stöðugur verkjaseiðingur eða loftóþægindi frá maga.
Tilfinning um að endaþarmurinn tæmist ekki að fullu við losun hægða.
Blóð í hægðum, tjörulitaðar hægðir.
Árlega greinist krabbamein í meltingarvegi hjá 120–130 íslenskum körlum.
Óþægindi frá meltingarvegi eru algeng. Verðir þú var við breytingar eða ný einkenni sem vara lengur en tvær vikur skaltu leita aðstoðar læknis sem fyrst.
4. „Ég hef orðið var við blóð í þvagi“
Blóð í þvagi getur verið einkenni um sýkingu í þvagvegum, nýrnasteina, eða komið í kjölfar áverka á nýru eða þvagblöðru. Stundum er það einkenni um krabbamein.
Ár hvert greinist krabbamein í þvagblöðru hjá 30–40 íslenskum körlum og krabbamein í nýrum hjá 20–30 körlum. Meðalaldur við greiningu er um 70 ár. Það er aldrei eðlilegt að hafa blóð í þvagi og slíkt krefst alltaf nánari rannsókna. Krabbamein í þvagblöðru og nýrum er auðveldast að meðhöndla greinist það snemma.
5. „Ég finn fyrir erfiðleikum við þvaglát“
Algengt er að þvagrennsli verði tregara og þvaglát tíðari eftir því sem karlmenn eldast. Oftast er orsökin góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli, en hann umlykur þvagrásina og getur því hindrað þvagrennsli.
Krabbamein í blöðruhálskirtli getur þó gefið samskonar einkenni.
Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein hjá körlum á Íslandi. Flestir greinast eftir sjötugsaldur og árlega greinast um 120–130 karlar.
Hafir þú þessi einkenni frá þvagfærum skaltu leita læknis. Meðferð ber betri árangur sé hún hafin áður en sjúkdómurinn breiðist út.
6. „Ég finn fyrir hnút eða þyngsla-tilfinningu í eista eða pung“
Hnútur eða verkur í eista/pung getur orsakast af sýking u, bólgu eða áverka, en getur líka verið einkenni um krabbamein.
Krabbamein í eistum er rúmlega 1% af öllum krabbameinum hjá körlum og er eitt algengasta krabbamein á aldrinum 20–50 ára. Árlega greinast um 10 karlar. Þreifaðu og skoðaðu eistun einu sinni í mánuði, t.d. í baði eða sturtu. Veittu athygli breytingum á lögun og stærð eistnanna. Verðir þú var við stækkun, hnút eða verk leitaðu læknis sem fyrst. Langflestir karlar læknast en árangurinn er betri því fyrr sem sjúkdómurinn greinist.
7. „Ég er með einkennilegan fæðingarblett eða sár á húð“
Með því að skoða útlit húðarinnar reglulega er auðveldara að taka eftir breytingum sem verða á henni. Blettur sem birtist skyndilega á húð eða breyting sem verður á fæðingarbletti getur verið einkenni um húðkrabbamein. Sortuæxli eru dökk að lit, þau geta valdið kláða og stundum blæðir úr þeim. Aðrar tegundir af húðkrabbameinum geta litið út eins og sár eða rauðir blettir sem stækka hægt og gróa ekki. Árlega greinast um 10-15 karlar með sortuæxli hér á landi og álíka margir með önnur krabbamein í húð. Karlar sem eru ljósir á hörund, ljóshærðir og sem hafa sólbrunnið eru í áhættuhópi.
Skoðaðu húð þína og hársvörð mánaðarlega. Verðir þú var við breytingar á fæðingarblettum eða færð sár sem gróa ekki skaltu leita læknis.
8. „Ég er með hnút eða þykkildi“
Algengt er að karlar finni fyrir bólgum og aumum hnútum við ýmiss konar sýkingar eða sár sem jafna sig á nokkrum vikum. Verðir þú hins vegar var við eymslalausan hnút á hálsi, í holhönd, nára eða annars staðar getur verið um eitilfrumukrabbamein að ræða. Önnur einkenni sem geta verið samfara eru nætursviti, þyngdartap, hitavella og þreyta. Eitilfrumukrabbamein getur myndast á öllum aldri. Árlega greinast um 15 karlar hér á landi með þennan sjúkdóm.
Verðir þú var við bólgu, hnút eða þykkildi sem á sér ekki þekkta orsök skaltu leita læknis. Þetta á einnig við ef þú megrast skyndilega eða svitnar óeðlilega mikið.
Stuðningsefni
Nokkur af fræðsluritum Krabbameinsfélagsins. Ritin fást hjá Krabbameinsfélaginu, á flestum heilsugæslustöðvum og í apótekum:
Húðkrabbamein.
Lungnakrabbamein.
Krabbamein í risli og endaþarmi.
Krabbamein í maga og vélindi.
Krabbamein í eistum.
Eitilfrumukrabbamein.
Greinar úr tímaritinu Heilbrigðismál:
Kvakl og krabbamein. 1/1991.
Reykingar auka hættu á meltingarsjúkdómum. 4/1991.
Viðbrögð við greiningu krabbameins. 2/1992.
Krabbameinslyf úr jurtaríkinu. 1/1993.
Nýrnakrabbamein. 4/1995.
Reykingar – upphaf og lok. 4/1996.
Krabbamein eftir landshlutum. 2/1998.
Úr heilsuboðorðum Krabbameinsfélagsins
Reykjum ekki og forðumst reyk frá öðrum.
Notum ekki neftóbak eða munntóbak.
Takmörkum notkun áfengra drykkja.
Vörumst óhófleg sólböð.
Fylgjum leiðbeiningum um meðferð efna og efnasambanda, sem sum eru krabbameinsvaldandi.
Borðum mikið af grænmeti, ávöxtum og trefjaríkri fæðu.
Drögum úr fituneyslu og forðumst offitu.
Leitum læknis ef við finnum hnút eða þykkildi eða tökum eftir að fæðingarblettur stækkar, breytir um lit eða verður að sári; einnig ef við verðum vör við óeðlilegar blæðingar.
Leitum læknis ef við fáum þrálátan hósta, hæsi eða meltingartruflanir eða léttumst að tilefnislausu.
Fræðslurit Krabbameinsfélagsins. Krabb.is
Lestu fleiri áhugaverðar greinar á