Hvað þarftu að vita um lykkjuna?

Nafngiftin er svolítið villandi en hún er enn notuð um þennan litla plaststaf sem er í laginu eins og T eða skeifa og er komið fyrir uppi í leginu sem getnaðarvörn. Sumar fyrstu lykkjurnar voru reyndar gormlaga og þaðan er nafnið komið. Í dag er allt eins oft talað um „kopar-T“ eða „kopar-skeifu“ eða fagheitið „IUD“ sem er stytting á enska heitinu Intra-Uterine-Device.

Lykkjan hefur verið notuð í meira en 25 ár í núverandi mynd og hefur ætíð komið fast á hæla pillunnar, sem vinsælasta getnaðarvörnin fyrir konur. Lykkjan er af hæfilegri stærð til að fylla nákvæmlega út í legið án þess að valda óþægindum. Þegar henni hefur verið komið fyrir er hún á sínum stað þar til hún er fjarlægð. Konur geta verið með hana í 5 ár eða meira án þess að þurfa að skipta henni út.

Hvernig færðu lykkjuna?

Læknir setur lykkjuna í konur. Það er gert í tengslum við venjulega kvenlæknisfræðilega skoðun Það tekur augnablik að koma henni fyrir en ísetningunni getur fylgt skammvinn vanlíðan.

Sjá einnig: 6 alvarlegar aukaverkanir pillunnar

Besta tímasetningin fyrir ísetningu lykkju er í lok blæðinga eða fyrstu dagana eftir blæðingar en hægt er að gera það hvenær sem er nema ef þú ert barnshafandi.

Hvaða aukaverkanir fylgja?

Þegar búið er að koma lykjunni fyrir gerir hún strax sitt gagn – dag og nótt, ár eftir ár og án neins sérstaks eftirlits eða umsjónar. Konan finnur ef til vill fyrir tveim spottum sem liggja úr lykkjunni og enda efst í leggöngunum. Konan getur sjálf þreifað eftir þeim – læknirinn getur séð þá – og þannig fylgst með því að lykkjan sé ennþá á sínum stað og í lagi.

Sumar konur fá aðeins lengri og hugsanlega aðeins kraftmeiri blæðingar en áður. En það þarf að láta reyna á þetta – einnig með tilliti til óþæginda. Það er fullmikið bráðlæti að gefast upp á lykkjunni án þess að hafa haft hana í það minnsta um þriggja mánaða skeið.

Hversu örugg er lykkjan?

Á meðan getnaðarvarnapillur eru nánast 100% öruggar er lykkjan aðeins 97-99% örugg. Með öðrum orðum: ef kona er með lykkjuna frá kynþroskaaldri fram á breytingaskeið eru líkur á því að hún bregðist aðeins einu sinni á lífsleiðinni.

Hvers ber að gæta?

Konur sem eru með lykkjuna eiga að fylgjast vel með því ef líkami þeirra gefur til kynna að þungun gæti hafa átt sér stað. Í því samhengi verður að minnast á möguleikann á utanlegsþungun. Ef óregla verður á blæðingum eða þær falla niður verður að hafa samband við lækni.

Sjá einnig: 6 venjulegir hlutir sem auka líkur á brjóstakrabbameini

Konur með lykkjuna fá aðeins oftar móðurlífsbólgur en þær sem eru á pillunni. Lykkjan veldur ekki móðurlífsbólgum. Ef kona er með lykkju, sem er á sínum stað og veldur ekki óþægindum er engin ástæða – fyrst um sinn – að láta fjarlægja hana þó að konan sé svo óheppin að fá móðurlífsbólgur.

Hverjum hentar lykkjan best?

Flestar konur sem eru með lykkjuna eru ánægðar með hana. Yfirleitt eru það konur sem hafa gengið með og fætt börn. Lykkjan er þá í bestum skorðum. Aðeins er mælt með lykkjunni fyrir mjög ungar konur ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

SHARE