Hvers konar foreldri ert þú? – 4 týpur uppalenda

Uppeldisaðferðir þínar hafa áhrif á sjálfsmynd barnsins þíns og líkamlega heilsu og hvernig barnið tengist öðrum.

Það er mikilvægt að passa að uppeldisaðferð þín styðji við barnið þitt svo það þroskist eðlilega, því það, hvernig samskipti þín eru við barnið þitt og hvernig þú agar það hefur áhrif á það til æviloka.

Vísindamenn hafa beint sjónum að 4 uppeldisaðferðum sem eru ráðandi og þær eru:

  • Yfirvaldsaðferðin (Authoritarian)
  • Regluaðferðin (Authoritative)
  • Frjálslyndisaðferðin (Permissive)
  • Afskiptalausa aðferðin (Uninvolved)

Hver aðferð hefur mismunandi nálgun að uppeldi barna, hefur sína kosti og galla og hefur marga mismunandi eiginleika. Fólk vill oft vita hvaða uppeldisaðferð það er að nota og hvaða aðferð sé best. Sannleikurinn er sá að það er engin ein leið til að ala upp barn en sú sem flest fagfólk mælir með er Regluaðferðin.

En skoðum aðeins hvað hver aðferð hefur upp á að bjóða, kosti og galla.

Yfirvaldsaðferðin (Authoritarian)

Hljóma einhverjar af þessum staðhæfingum eins og þær eigi við um þig?

  • Þér finnst að það megi horfa á krakka, en alls ekki að hlusta á þau.
  • Þegar kemur að reglum trúir þú að það eina sem virkar sé „það er bara mín aðferð eða ekkert“.
  • Þú tekur tilfinningar barnsins þíns ekki inn í jöfnuna.

Ef þú tengir við eitthvað af þessum staðhæfingum getur verið að þín uppeldisaðferð sé Yfirvaldsaðferðin. Foreldrar sem falla í þennan hóp trúa því að börn eigi að fylgja öllum reglum án undantekninga.

Foreldrar sem beita þessari aðferð eru þekktir fyrir að segja, „Af því að ég segi það,“ þegar barn maldar í móinn um ástæðurnar á bak við reglu. Þeir hafa ekki áhuga á að semja og áhersla þeirra er á að barnið hlýði. Þeir hafa heldur ekki áhuga að semja um leiðir til að leysa vandamál eða komast yfir hindranir. Þess í stað setja þeir reglur og refsingar sem taka lítið tillit þess hvað barninu finnst.

Foreldrar sem beita Yfirvaldsaðferðinni beita frekar refsingum en aga. Þannig að í staðinn fyrir að kenna barni hvernig á að taka betri ákvarðanir, eru þeir mest uppteknir af því að láta barnið sjá eftir mistökum sínum. Börn sem eru alin upp af svona foreldrum eru vissulega góð í að fylgja reglum en það getur haft afleiðingar í för með sér.

Börn sem alast upp hjá foreldrum sem nota Yfirvaldsaðferðina eru líklegri til að þróa með sér lágt sjálfstraust af því að þeirra skoðanir eru aldrei teknar til greina.

Þau eiga það líka til að vera óvinveitt og ofstopafull. Í stað þess að hugsa hvað þau geta gert betur í framtíðinni, þá fer athyglin frekar í að vera reið við foreldra sína og jafnvel sig sjálf fyrir að vera ekki að standast væntingar foreldranna. Þessi börn alast líka upp við að verða góðir lygarar því þau læra að nota lygar til að forðast refsingar.

Regluaðferðin (Authoritative)

Hljóma einhverjar af þessum staðhæfingum eins og þær eigi við um þig?

  • Þú leggur mikið upp úr því að skapa og viðhalda jákvæðu sambandi við barnið þitt.
  • Þú útskýrir ástæðuna fyrir reglunum þínum.
  • Þú setur reglur og framfylgir þeim og það eru afleiðingar fyrir að fylgja þeim ekki, en þú tekur tillit til tilfinninga barnsins þíns.

Ef þú tengir við eitthvað af þessum staðhæfingum getur verið að þín uppeldisaðferð sé Regluaðferðin. Það eru til staðar reglur og þú framfylgir þeim en það eru líka afleiðingar ef barnið fylgir ekki reglunum. Þú tekur tillit til barnsins og skoðana þess en lætur það vita að þegar upp er staðið er það fullorðna fólkið sem ræður. Þessi aðferð er talin sú besta og árangursríkasta af sérfræðingum um uppeldi.

Foreldrar sem nota þess að ferð nota tíma og orku í að koma í veg fyrir hegðunarvanda áður en hann á sér stað. Þeir nota líka jákvæðan aga til að ýta undir góða hegðun, eins og hrós og verðlauna kerfi.

Vísindamenn hafa komist að því að börn alast upp við þessa aðferð eru líklegust til að verða ábyrgir fullorðnir einstaklingar sem standa með sjálfum sér og tjá skoðanir sínar og tilfinningar.

Börn sem alast upp við Regluaðferðina eru frekar hamingjusöm og farsæl. Þau eru líka líklegri til að taka yfirvegaðar ákvarðanir og meta áhættur upp á eigin spýtur.

Frjálslyndisaðferðin (Permissive)

Hljóma einhverjar af þessum staðhæfingum eins og þær eigi við um þig?

  • Þú setur reglur en framfylgir þeim sjaldnast.
  • Það eru sjaldan afleiðingar af því að brjóta reglurnar.
  • Þú heldur að barnið þitt læri mest með litlum afskiptum frá þér.

Ef þú tengir við eitthvað af þessum staðhæfingum getur verið að þín uppeldisaðferð sé Frjálslyndisaðferðin. Foreldrar sem nota þessa aðferð eru oft mjög mjúkir og stíga ekki inn í aðstæður nema eitthvað alvarlegt sé á seyði.

Þeir fyrirgefa flest og hafa tileinkað sér viðhorfið „börn verða börn“. Ef þeir beita refsingum er ekki alveg öruggt að þeir muni standa við þær. Ef þau taka til dæmis símann af barni, gæti verið að þau láti barnið fá símann aftur, fyrr en áætlað var.

Foreldrar sem beita Frjálslyndisaðferðinni eru líklegri til að vilja vera „vinir“ barnanna sinna en foreldrar. Þeir hvetja börnin sín til að leita til sín ef eitthvað er að en eru ekki mikið að segja þeim hvað þau hefðu mátt gera betur í ákveðnum aðstæðum.

Börn sem eru alin upp með Frjálslyndisaðferðinni eru líklegri til að eiga við námsörðugleika að stríða.

Börnin kunna að vera með meiri hegðunarvandamál þar sem þau eiga erfitt með reglur og að leyfa öðrum að segja sér fyrir verkum. Þau hafa oft lítið sjálfsálit og upplifa gjarnan depurð. Þau geta verið í hættu á að þurfa að takast á við heilsufarsvandamál eins og offitu vegna þess að foreldrarnir eru eftirlátssamir og eiga erfitt með neita þeim um hluti. Einnig eiga foreldrarnir erfitt með að skikka börnin í reglulega hreyfingu eða heilbrigðar svefnvenjur.

Afskiptalausa aðferðin

Hljóma einhverjar af þessum staðhæfingum eins og þær eigi við um þig?

  • Þú spyrð barnið þitt ekki um skólann eða heimanámið.
  • Þú veist sjaldan hvar barnið þitt er eða með hverjum það er.
  • Þú eyðir ekki miklum tíma með barninu þínu.

Ef þú tengir við eitthvað af þessum staðhæfingum getur verið að þín uppeldisaðferð sé Afskiptalausa aðferðin. Foreldrar sem beita þessari aðferð hafa ekki mikla þekkingu á því sem börnin þeirra eru að gera. Það eru yfirleitt fáar reglur á heimilinu. Börnin fá kannski ekki mikla leiðsögn, ræktun og athygli foreldra. Foreldrar sem nota þessa aðferð ætlast til þess að börn ali sig sjálf upp. Þeir eyða ekki miklum tíma eða orku í að mæta grunnþörfum barna. Þetta virkar eins og vanræksla en er það ekki endilega með vilja gert. Foreldri með geðheilbrigðisvandamál eða vímuefnavanda, til dæmis, gæti ekki sinnt líkamlegum eða tilfinningalegum þörfum barns á stöðugan hátt. Í öðrum tilfellum getur verið að foreldri skorti þekkingu á þroska barna og þeir trúa því að barninu muni vegna betur án þess að fylgst sé með því. Stundum eru þeir svo bara of gagnteknir af öðrum vandamálum, eins og vinnu, reikningum og að sjá um heimilið.

Börn sem eiga foreldra sem nota Afskiptalausu aðferðina eru líklegri til að glíma við lágt sjálfsmat.

Þeim gengur ekki sem best í skólanum, eru með hegðunarvandamál og ekki jafn hamingjusöm og aðrir krakkar.

Það er ekkert til sem heitir fullkomið uppeldi. Stundum passa foreldrar ekki bara í einn af þessum flokkum hér að ofan. Ekki vera með sektarkennd vegna uppeldisaðferða þinna. Með metnaði og skuldbindingu geturðu orðið það foreldri sem þú vilt vera.

Heimildir: verywellfamily.com

SHARE