Millirifjagigt: Einkenni koma oft fram hjá kyrrsetufólki

Millirifjagigt getur verið af ýmsum toga en um er að ræða verki í síðu eða brjóstkassa sem versnar við djúpa öndun eða aðrar hreyfingar. Oftast er um að ræða festumein í festingum millirifjavöðva en festumein er bólga á staðnum þar sem sin festist við bein. Svipuð einkenni og við festumein geta einnig stafað af stirðleika í liðamótum þar sem rifbeinin tengjast hryggnum, við þursabit eða brjósklos í brjóst- eða hálshrygg. Einkennin koma oftar fram hjá kyrrsetufólki og gjarnan í vinstri síðu hjá rétthendum og er ástæðan sú að meiri hreyfing og liðleiki er á hægri hluta bolsins hjá rétthendum og myndast minni spenna og stirðleiki þeim megin.

Öndun er af tvennum toga, kviðöndun sem stjórnast af þindinni og brjóstöndun sem stjórnast af millirifjavöðvum. Við millirifjagigt getur brjóstöndun orðið svo sársaukafull að viðkomandi grípur til kviðöndunar eingöngu. Hægt er að villast á millirifjagigt og ýmsum öðrum verkjum og má þar nefna hjartaöng vegna kransæðasjúkdóms, vélindabakflæði eða aðra sjúkdóma í vélinda, gollurhúsbólgu og brjósthimnubólgu. Mikilvægt er að fá rétta sjúkdómsgreiningu til að hægt sé að beita viðeigandi meðferð. Ef um festumein eða stirðleika er að ræða getur hiti og nudd hjálpað. Stundum hjálpar að sprauta í verkjasvæðið.

Tengsl við vefjagigt

Eins og áður segir er festumein algengasta ástæðan fyrir millirifjagigt en um sömu eða náskyld fyrirbæri hafa verið notuð heitin vöðvabólga, vöðvagigt og upp á síðkastið er algengast að kalla þetta vefjagigt.

Sjá einnig: Vefjagigt, hvað er nú það?

Vefjagigt

Vefjagigt (fibromyalgia) er náskyld síþreytu (chronic fatigue syndrome) og oft er erfitt að greina þar á milli. Um orsakir vefjagigtar og síþreytu er lítið vitað, sundum kemur þetta í kjölfar veikinda eins og veirusýkinga, stundum eru til staðar langvarandi truflanir á svefni og stundum byrjar þetta eftir slys. Sumir telja að vefjagigt og síþreyta séu bandvefssjúkdómar en aðrir að þetta sé af sálrænum toga.

Meðferð við vefjagigt

Þegar búið er að útiloka aðra sjúkdóma er fyrsta skrefið í meðferð að fræða sjúklinginn um sjúkdóminn, útskýra að ekki sé um hættulegan eða illkynja sjúkdóm að ræða, að þetta sé ekki tóm ímyndun og að margir aðrir séu haldnir þessum kvilla.

Meðferðin við vefjagigt er einstaklingsbundin og oftast þarf að prófa sig áfram til að finna það sem hentar hverjum og einum. Stundum þarf að taka á atriðum í lífi sjúklingsins eins og reykingum, óhóflegri áfengisneyslu, slæmum matarvenjum, miklu vinnuálagi og slæmum svefnvenjum. Þeim sem reykja getur batnað mikið við að hætta. Verkjalyf gagnast venjulega lítið en þunglyndislyf og jafnvel svefnlyf í stuttan tíma gera stundum verulegt gagn. Slökun er alltaf til góðs og nudd og hitameðferð geta oft gert gagn.

Rannsóknir hafa sýnt ótvírætt gagn af líkamsþjálfun hjá sjúklingum með vefjagigt eða síþreytu. Hæfileg líkamsþjálfun með það að markmiði að auka líkamlegt þrek er því lykilatriði í meðferð. Mikilvægt er að fara sér ekki of geyst því að þá getur ástandið versnað. Gott er að byrja með sundi, léttum gönguferðum eða leikfimi og teygjuæfingum. Þetta þarf svo að auka hægt og rólega eins og hentar hverjum og einum. Langtímahorfur eru yfirleitt góðar og flestir geta losnað við óþægindin að miklu eða öllu leyti ef þeir fá viðeigandi meðferð.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE