„Þetta eru jólin fyrir mér“

Eva Lilja Rúnarsdóttir er í annað skipti sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum á aðfangadagskvöld. Hún segist í raun taka þátt af sjálfselskum ástæðum þó aðrir njóti góðs af. Henni finnst þetta einfaldlega svo æðislegt og gefandi.

 

„Þegar ég þjónaði í fyrsta skipti upplifði ég mest gefandi jólahátíð sem ég hafði upplifað í langan tíma,“ segir Eva Lilja Rúnarsdóttir sem verður sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum á aðfangadagskvöld. Hún tók fyrst þátt í hittiðfyrra en hafði lengið hugsað að sig langaði að prófa, en þar sem hún var með lítil börn var það erfitt.

„Nú skiptum við foreldrarnir jólunum á milli okkar, enda búin að vera fráskilin í nokkur ár, og þá er annar hver aðfangadagur laus hjá mér. Í hittiðfyrra ákvað ég að stökkva á þetta og hafði samband. Ég vissi í raun ekkert hvað ég var að fara út í. Ég mætti bara og það myndaðist mjög sérstök en skemmtileg stemning. Það var mikil gleði og húmor í hópnum.“

Allir að gera gagn

Eva er því að taka þátt í annað skipti í ár og hlakkar mikið til. „Við erum þarna öll með það sama í huga, að gera eitthvert gagn. Ég hef sjálf aldrei verið jólabarn og skil ekki þetta stress. Ég hef alltaf litið á jólin sem hálfgerð kaupmannajól, en ef hugmyndafræðin er að hafa jólin sem kærleikshátíð, þá skiptir máli að gefa af sér. Sælla er að gefa en þiggja. Hugmyndafræðin verður að raunveruleika þegar maður virkilega tekur þátt, eins og hjá Hjálpræðishernum.“

Eva fór á fund með sjálboðaliðunum í byrjun mánaðarins þar sem einn sjálfboðaliði, sem er búinn að taka þátt í mörg ár, sagðist ekki vera að gera þetta af auðmýkt heldur af sjálfselskum ástæðum. Hann sagðist vera að gera þetta fyrir sig, því honum þætti þetta svo æðislegt. „Ég er alveg 100 prósent sammála því. Ég er að þessu því þetta gefur mér svo mikið og mér finnst þetta æðislegt. Þetta eru jólin fyrir mér. Að koma þarna, gefa af mér og vera til staðar fyrir þann sem hefur ekkert að gefa, líður illa eða er mjög blankur. Það er allskonar fólk sem kemur. Það eru öryrkjar, aldraðir, útigangsfólk, útlendingar og flóttafólk.“

Sumir hafa engan að tala við

Hópurinn sem sér um að þjóna er líka samsettur af allskonar fólki, sem vill taka þátt af hinum ýmsu ástæðum. „Síðast var þarna sjómaður sem var ekki með börnin hjá sér um jólin, einstæðingur sem átti enga fjölskyldu og vildi frekar gera þetta en að fara í matarboð hjá fjarskyldum frænda og ungur strákur sem vildi ekki vera heima hjá sér því það var drykkjuástand á heimilinu. Þetta er allskonar fólk sem kemur saman í þeim tilgangi að gleðja aðra.“

Eva segir fólk fá að velja hvaða starfi það vill sinna. Sumir vilja vera í eldhúsinu og uppvaskinu en aðrir þjóna til borðs. „Svo snýst þetta líka um að setjast hjá fólki og spjalla, því það eru margir þarna sem hafa engan til að tala við,“ útskýrir hún. Svo ganga allir saman í kringum jólatré, syngja jólasöngva og fá gjafir.

„Ég veit að ég mun gera þetta aftur og aftur og ég ætla að plata börnin mín til að taka þátt á næsta ári, þau eru orðin það stór. Þetta er rosalega gefandi og þarna sýnir maður kærleikann í verki. Jólin eiga að snúast um það að sýna náungakærleika og ég vil frekar gera þetta en að sitja á rassinum heima og belgja mig út af alltof miklum mat og fá svo samviskubit yfir því.“

Fer sæl að sofa

Gert er ráð fyrir að um 200 manns borði hjá Hjálpræðishernum á aðfangadagskvöld en Eva segir þá tölu hæglega geta hækkað. „Í hittiðfyrra þá kom töluvert af útlendingum inn af götunni sem höfðu ekki fundið opna veitingastaði í borginni og voru orðnir sársvangir.“

Hún segir matinn sem boðið er upp á vera æðislegan. „Það er kokkur frá Hereford sem hefur tekið þátt í mörg ár. Núna erum við með lambakjöt fyrir þá sem borða ekki svínakjöt þannig fólk sem aðhyllist mismunandi trúarbrögð getur borðað saman. Það er svo margt ótrúlega fallegt við þetta. Ég veit að ég á að eftir að fara sæl að sofa á aðfangadagskvöld.“

Mynd/Hari

 

Viðtalið birtist fyrst í Fréttatímanum.

SHARE