Hjálpa eldri stúlkum sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður að sækja nám

 

Hjólreiðakeppnin Alvogen Midnight Time Trial verður haldin í fyrsta skiptið í miðborg Reykjavíkur næstkomandi fimmtudag. Aðalstyrktaraðili keppninar er lyfjafyrirtækið Alvogen og hefur það ákveðið að tileinka keppnina menntun barna. Fyrirtækið vill með því vekja athygli á þeirri staðreynd að allt of mörg börn í heiminum fara á mis við þau grundvallarréttindi sín að ganga í skóla.

„Gríðarlegur árangur hefur náðst á undanförnum árum við að koma fleiri börnum í skóla. Engu að síður fara 67 milljónir barna enn á mis við grundvallarmenntun. Á þessu viljum við vekja athygli. Við trúum því að að menntun sé réttur hvers barns,“ segir Róbert Wessman forstjóri Alvogen sem mun vera meðal þátttakenda á fimmtudaginn.

Myndarlegur stuðningur við starf UNICEF á Madagaskar

Alvogen hefur heitið að styrkja uppbyggingu menntunar í hinu fátæka eyríki Madagaskar á næstu þremur árum og mun hluti af þáttökugjöldum Alvogen Midnight Time Trial renna til verkefnis UNICEF í landinu en einnig munu þátttökugjöld renna til verkefna Rauða krossins í Síerra Leóne. Við þátttökugjöldin bætist myndarlegt framlag í gegnum góðgerðasjóð Alvogen, Better Planet, en að undanförnu hefur starfsfólk fyrirtækisins í 30 ríkjum staðið fyrir söfnun. Lokamarkmiðið í ár er að styrkja UNICEF um andvirði 63.000 bandaríkjadala eða sem nemur tæpum átta milljónum króna og verða þeir fjármunir afhentir að móti loknu.

Meðal markmiða verkefnisins sem Alvogen styrkir er að hjálpa eldri stúlkum sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður að sækja nám, til dæmis með því að bjóða þeim að vera á heimavist þegar þess er þörf, njóta stuðnings við heimanám og fá hjól til að komast í skólann þar sem vegalengdir eru miklar. Auk þess leggur UNICEF áherslu á að gera skóla á Madagaskar barnvænni og kenna nemendum lífsleikni en með því má meðal annars sporna gegn útbreiðslu margvíslegra sjúkdóma.

„Við gleðjumst yfir því að Alvogen kjósi að vekja athygli á menntun barna. Leiðarljósið í starfi UNICEF er sú bjargfasta trú að börn hafi ákveðin ófrávíkjanleg réttindi. Á meðal þeirra er rétturinn til menntunar. UNICEF treystir alfarið á frjáls framlög og því skiptir stuðningur eins og frá Alvogen mjög miklu máli,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Skráning á Alvogen Midnight Time Trial fer fram á www.hjolamot.is. 

Um UNICEF:

UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við berjumst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnum bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd. Við erum á vettvangi í yfir 190 löndum og leggjum áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.

Fylgist með okkur á www.unicef.is og www.facebook.com/unicefisland

Um Alvogen og Better Planet:

Alvogen er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með starfsemi í 30 löndum.  Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja sem flókin eru í þróun og framleiðslu. Markaðssvæði félagsins nær til Mið- og Austur Evrópu, Norður Ameríku og Asíu. Hjá félaginu starfa um 1.800 manns, þar af 40 á Íslandi. Á hverju ári standa starfsmenn Alvogen í 30 löndum fyrir söfnun í nafni samfélagssjóðs fyrirtækisins, Better Planet. Lykilmarkmið Better Planet er að gera heiminn að betri stað fyrir börn og er sjóðurinn meðal annars í langtímasamstarfi við bæði UNICEF og Rauða krossinn. Samtökin hafa nú þegar hlotið ríflega 20 milljónir í gegnum Better Planet en einnig hafa framlög runnið til ýmissa góðgerðamála á mörkuðum Alvogen.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here