ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Góðan og blessaðan daginn. Mér í hug að skrifa um reynslu mína af því að eignast barn sem síðar greindist með ADHD. Það er  kannski ekki merkilegt í dag, en var það á þessum tíma en drengurinn minn er með fyrstu börnunum sem greinast hér á Íslandi með þennan sjúkdóm.

Á þessum tíma þ.e.a.s árið 1982 fæddi ég það fallegasta barn sem að ég hafði nokkurn tíma séð, með svartan lubba og dökka húð. fæðingin var frekar erfið, verkirnir stóðu yfir í 3 sólarhringa, en í heiminn kom hann, þessi elska.

Hann var mjög erfiður á fyrsta árinu. Hann var bara 3 vikna þegar hann fékk alvarlega þvagrærasýkingu, sem lyf áttu erfitt með að vinna á, en tókst þó fyrir rest. Hann var með þessa sýkingu í 6 vikur en fór svo að braggast eftir það.

Grét upp úr svefni

Það kom þó fljótt í ljós að ekki var allt eins og það átti að vera. Hann svaf illa á næturnar og grét mikið upp úr svefni. Það voru margar næturnar sem ég sat með hann og reyndi að hugga hann en hann virtist ekki heyra í mér og bara grét sama hvað ég reyndi að gera fyrir hann.

Svona gekk þetta fyrstu árin.

Þegar fæðingarhárin fóru, varð hann alveg ljóshærður svo stirndi á hárið hans þegar að sólin skein á það og þá var eins og hann væri með geislabaug um höfuðið. Kannski var hann bara engill í mannsmynd, allavega engillinn minn. Augnliturinn hans breittist og hann varð móbrúnn með mógrænum lit, erfitt að lýsa þeim, en fallegri og yndislegri augu hef ég aldrei séð hvorki fyrr né síðar.

Mjög virkur frá því hann byrjaði að ganga

Þegar hann fór að hreyfa sig og ganga um þá var hann svo virkur að það þurfti hreinlega að vakta hann svo hann færi sér ekki að voða. Hann prílaði upp á stóla og borð og um 2 ára aldurinn var hann farinn að príla upp á efri skápana á eldhúsinnréttingunni.

Svona gekk þetta þar til hann byrjaði í skóla.

Við höfðum búið í Noregi í 4 ár með hann og alltaf var hann jafn ofvirkur, Ég man eftir að ef ég þurfti að fara með hann til læknis, þá kom læknirinn fram og tók hann í fangið og sat með hann þar til viðtalinu lauk. hann lenti nefnilega einu sinni í því að drengurinn minn, hljóp út af stofunni í miðjum viðtalstíma og ég á eftir honum, en hann var snjall og læsti lækninn inni á stofunni hljóp svo að glugganum og henti lyklinum út um gluggann. Hann hljóp svo sjálfur niður stigann, en við vorum á annari hæð og ég auðvitað á eftir honum. Hann hljóp út á bílastæði og skutlaði sér undir einn bílinn, til að reyna að fela sig.

Svona var þetta oft hjá okkur. Ég á margar svona sögur um þennan fallega engil. Hann virtist svo saklaus þegar á hann var horft.

Skólastjórinn tók hana ekki alvarlega

Víkur nú frásögnini að því þegar að ég skráði hann í skóla 1. bekk Brekkuskóla á Akureyri þegar við vorum nýflutt heim frá Noregi. Ég ákvað að fara spes ferð til að ræða við skólastjórann og tók að sjálfsögðu drenginn minn með, en hann settist í sófa og lét fara vel um sig.

Ég ræddi við skólastjórann og sagði honum að þessi drengur væri ofvirkur og líklega með ADHD. Seinna sagði skólastjórinn mér, að þegar að ég kom til að ræða við hann og hann sá drenginn þá var hann viss um að ég væri ein af þessum mömmum sem að væru bara að ýkja og tók ekkert mark á mér. Annað átti eftir að koma í ljós, enda fer ég ekki og ræði um mín börn nema að eitthvað sé að og eitthvað sé til í því sem að ég segi.

Stubburinn var búin að vera í skólanum í 3 daga þegar hringir síminn og á línunni var skólastjórinn. Hann segir að barnið mitt sé kolbrjálað og sé núna upp á þaki á skólanum og engin ráði við hann og ég verði bara að koma á stundinni. Ég sagði honum að ég hefði verið búin að segja honum þetta en hann ekki trúað mér en að núna sé komin tími á að taka á þessu máli.

Fór á lyf en var tekinn af þeim um sumarið

Stubburinn var sendur í allskonar rannsóknir, heilalínurit og fleira. Svo var haft samband við Stefán Hreiðarsson, sem sá svo um að fjarstýra lyfjagjöf fyrir strákinn minn en Geir Friðgeirsson sá um hann hér á Akureyri.

Ég var nú smeyk við þessa lyfjagjöf og bað um að drengurinn yrði lagður inn á spítala fyrstu dagana, til að fylgjast með hvernig hann brygðist við. Geir samþykkti það og á ég honum miklar þakkir skyldar fyrir frábæra umhyggju fyrir drengnum mínum.

Drengurinn fékk svo mann með sér þetta skólaár sem fylgdi honum í skólanum.

Svo kom sumarið og lyfin tekin af stráksa. Ekki veit ég af hverju það var gert en svoleiðis var það og þá um sumarið var mikið gengið á mig að samþykkja að hann færi í sér skóla, skóla sem átti að vera daggæsluskóli og þar myndi hann verða passaður og öruggur!!

Ég var nú samt efins um að ég ætti að samþykkja þetta, en eftir mikinn þrýsting frá 2 sálfræðingum, sem störfuðu á vegum skólanna á Akureyri, lét ég undan en þó með þeim orðum að mér finndist að hann ætti rétt á að vera í venjulegum skóla þar sem að ekki vantaði greindina hjá drengnum. Sálarnir gengu svo langt að heimsækja mig til að ræða þetta.

Var yngsti nemandi skólans

Svo byrjar hann í Bröttuhlíðarskóla og var yngsti nemandinn þar. Þessi skóli var rekin var fyrir börn með einhverskonar frávik og voru ekki æskileg á meðal annara barna. Þar var hann þennan vetur og sóttist námið vel og var farinn að gera verkefni fyrir 5. bekk þótt hann væri sjálfur bara að verða sjö ára.

Ekki fékk hann að lifa sjö ára afmælið sitt, því miður og þarna kom skýringin á því af hverju mér fannst ekki
rétt að setja hann í þennan skóla. Innsæið mitt starfaði fullkomlega rétt og hef ég passað upp á að gera aldrei neitt sem mér finnst ég ekki eiga að gera, sama hvað aðrir tuða eða röfla.

Fór í ratleik með skólabróður sínum sem myrti hann

Þann 2 .maí árið 1990 var drengurinn minn myrtur. Í þessum fína skóla var 12 ára drengur sem hafði skipulagt ratleik bara fyrir þá tvo. Hann bað um að þeir fengju að fara út í þennan leik, bara þeir tveir og eftirlitslausir fóru þeir.

Ratleikurinn miðaðist við að koma drengnum mínum að Gleránni og seinna sagði hann frá því að hann hefði tekið drenginn minn í fangið og kastað honum í ána. Árinu áður hafði þessi sami drengur hent öðrum litlum dreng út í ána og komst hann ekki lífs af. Að því atviki voru vitni. Litlir drengir. Hann hótaði þeim og sagði að þeir færu sömu leið ef þeir myndu kjafta frá, svo þeir sögðu ekkert fyrr en hann hafði kastað drengnum mínum í ána líka.

Minn boðskapur til ykkar elskurnar er: Það veit engin hvað átt hefur, fyrr en misst hefur og verið góð hvort við annað.

Kærleikur kostar ekkert og hægt að sýna hann á svo margan hátt.

SHARE