Myrra Rós í útgáfusporum: Teningunum kastað á Musicraiser

Fleiri mættu taka sér til fyrirmyndar og nýta möguleika þá sem netið hefur upp á að bjóða í dag, en liðnir eru langir dagar sem fóru áður í að bíða svara útgefenda og hljómplötufyrirtækja, sem höfðu á sínum tíma óskipt völd í hendi sér þegar að vali á útgáfu verka hæfileikafólks kom.

Myrra Rós Þrastardóttir, söngkona og lagahöfundur, sem áður gaf út plötuna Kveldúlfur, hefur þannig hrundið af stað sérstæðri og skapandi söfnun fyrir útgáfu nýrrar breiðskífu sem – ef fjármagn gefst – verður tekin upp í byrjun næsta árs og er útgáfa áætluð í apríl 2015.

Og Myrra, sem einnig er að læra grafíska hönnun við Listaháskólann á Íslandi, samhliða tónlistarferlinum, hefur sett upp upplýsingasíðu á vefmiðlinum MUSICRAISER  þar sem hún útskýrir verkefnið til hlítar:

[youtube width=”600″ height=”320″ video_id=”rNveHsg_Zio”]

 

Hrífandi framtak sem vert er að beina athygli að, en hægt er að styrkja Myrru um allt frá 6 evrum, sem felur í sér niðurhal á nýútkominni breiðskífu sem væntanleg er á næsta ári, gangi allt að óskum og til 400 evra – en verði einhver við slíkum styrk mun Myrra Rós halda einkatónleika fyrir viðkomandi í heimahúsi ásamt hljómsveit sinni í þakklætis- og virðingarskyni við veitta aðstoð við útgáfu nýrrar breiðskífu.

Hér má sjá töfrandi setustofutónleika sem Myrra Rós hélt og býður ákveðnum styrktaraðilum að njóta, verði útgáfa annarrar breiðskífu hennar að veruleika næstkomandi vor, eða í apríl 2015:

 

 

[youtube width=”600″ height=”320″ video_id=”oM3WbQjejRU”]

 

Verkefni sem vert er að huga að og jafnvel leggja lið, ef ekki væri fyrir annað en þá staðreynd að af er það sem áður var, þegar útgefendur og forkólfar stóru tónlistarrisanna héldu um framtíð þeirra skapandi einstaklinga sem höfðu frambærilegt efni í höndum.

 

Við óskum Myrru Rós og félögum alls hins besta á komandi misserum og vonum að fleiri taki sér framtakið til fyrirmyndar; kasti teningunum og ráðist í sambærilega söfnun og hér er fjallað um, sé skapandi hugmynd á borðum fyrir það fyrsta.

 

Upplýsingar um vefsetur Myrru Rós á síðunni Musicraiser.com má nálgast HÉR

SHARE