Í fréttum stöðvar 2 í gær var greint frá því að 9 daga íslensk stúlka veiktist alvarlega og var í lífshættu vegna sýkingar í fæðingarvegi móður.
Konur hér á landi eru ekki upplýstar af heilbrigðisyfirvöldum um hættuna
Móðir litlu stúlkunnar, Mattildu, Birna Harðardóttir var að eiga sitt fyrsta barn og var ekki meðvituð um að hún væri GBS beri. Talið er að um fjórðungur kvenna á barneignaraldri hér á landi séu GBS berar og eru því nýfædd börn þeirra í áhættuhópi. Fæstar konur eru meðvitaðar um smitið og eru ekki upplýstar um möguleikann á því að vera berar af heilbrigðisyfirvöldum. Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi skima ekki fyrir bakteríunni hjá óléttum konum en það er gert víða í öðrum löndum.
Í Bandaríkjunum eru allar konur skimaðar og fá fyrirbyggjandi sýklalyf í æð í fæðingu ef þær eru smitaðar. Það minnkar líkur á að barnið veikist.
Veiktist alvarlega – Sýking var komin í blóð og þvag
Mattilda veiktist alvarlega einungis nokkurra daga gömul vegna þess að móðir hennar bar streptókokka b, sem hún var ómeðvituð um í leggöngum.
Móðir Mattildu, Birna Harðardóttir mælist til þess að skimað verði fyrir þessu hjá öllum konum og að konur séu meðvitaðar um áhættuna. Dóttir hennar byrjaði að fá smá heita og foreldrar hennar fylgdust með henni og fóru snemma með hana upp á spítala, sem betur fer að sögn móður því barnið var orðið fárveikt og fékk strax breiðvirk sýklalyf í æð og sýking var komin í blóð og þvag.
Mattilda er heilsuhraust í dag og getur þakkað skjótum viðbrögðum foreldra sinna og starfsfólks spítalans þegar þangað var komið. Þau hefðu ekki mátt koma seinna að sögn móður þar sem algengt er að börn sem smitast fái heilahimnubólgu og afleiðingar geta orðið alvarlegar, jafnvel lífshættulegar.
15 ár síðan barn lést af völdum bakteríunnar hér á landi
15 ár eru síðan barn lést af völdum bakteríunnar hér á landi og að sögn Þórðar Þorkelssonar, yfirlæknis vökudeildar hafa rannsóknir sýnt fram á að dánartíðni er nokkuð há, eða 30-40% en sem betur fer ekki jafn há hér á landi.
Þórður talar með því að skima ætti allar konur hér á landi en það er ekki gert enn sem komið er.
Ath. Þær konur sem vilja láta skima fyrir þessu ættu að geta leitað til sinnar ljósmóður í mæðravernd og ræða um hvort ástæða sé til að athuga með GBS.
Þá er tekið sýni að neðan sem hjúkrunarfræðingur eða læknir gæti gert á heilsugæslunni eða á Landspítalanum.