8 hlutir sem þú ættir aldrei að sturta niður í klósettið

Í raun og veru á ekkert að fara í klósettið nema klósettpappír, kúkur og piss. Sumir eiga það samt til að nota klósettið sem ruslafötu og sturta niður hinu og þessu sem ætti aldrei að fara í lagnirnar á heimilinu. Hér eru 8 hlutir sem ættu aldrei að fara í klósettið og þetta á auðvitað við líka um vaska og önnur niðurföll.

Pappírsþurrkur

Pappírsþurrkur geta litið út eins og klósettpappír og verið svipaðir viðkomu en þær eru miklu þéttari sem gerir niðurbrotsferlið lengra. Þær eiga því til að festast í lögnunum og ættu bara að fara í næstu ruslafötu.

Blautþurrkur

Pappírsþurrkur eru lengi að leysast upp en blautþurrkur leysast bara alls ekki niður. Þær geta því valdið stórum stíflum í lögnum og eiga alls ekki heima í rotþróm. Þær eiga því líka að fara í ruslið en alls ekki í klósettið

Olíur

Hvort sem það eru matarolíur eða aðrar olíur þá eru þær líklegar til að storkna í lágum hita. Þær geta því valdið stórum stíflum í niðurföllum og lögnum. Ef þú ert með mikið af olíu t.d. eftir eldamennsku ættirðu að setja það í eitthvað ílát sem má fara í ruslið eins og t.d. pappamál, loka því með pappír eða endurvinnanlegu plast og henda því í ruslið.

Lyf, málning og kemísk leysiefni

Sum efni eru eitruð og geta leitt til efnamengunar í frárennslislögnum. Meðal þessarra efna eru lyf, málning, kemísk leysiefni, frostlögur og önnur efni.

Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga líka með klór, hann getur tært og skemmt rörin. Hann getur líka haft áhrif á önnur efni og það getur myndað eiturgufur sem annars yrðu ekki til. Öllum svona efnum þarf að farga á viðeigandi hátt og fara með á viðeigandi sorpvinnslustöðvar. Hægt er að fara með lyf í apótek og svo taka sorpvinnslustöðvar við flestum efnum, flokka þau og eyða.

Dömubindi, innlegg og túrtappar

Það á ALLS ekki að setja neitt af þessu í klósettið. Allar svona vörur eiga að fara í ruslafötur eingöngu, alveg eins og bleiur fyrir börn.

Kattarsandur

Ég skil ekki að þetta sé á þessum lista. Er fólk í alvöru að setja kattarsand í klósettið. Ég hef átt ketti og það hvarflaði ekki að mér að þetta mætti fara í klósettið.

Úrgangur úr köttum inniheldur bogfrymil (toxoplasma gondii) sem er sníkjudýr sem getur borist í fólk gegnum saur katta og valdið fósturskaða og jafnvel fósturdauða ef hann berst í ófrískar konur. Margar vatnshreinsistöðvar, geta ekki hreinsað öll efni úr vatni og þetta verður oft eftir. Kattasandur á að fara í poka og í ruslið.

Hár

Þó að hár sé náttúrulegt efni, þýðir það ekki að það geti ekki verið slæmt fyrir rörin og lagnirnar. Hárið getur flækst og orðið að risa hárbolta sem getur stíflað niðurföllin. Hendum því bara í ruslið. Það sama á auðvitað líka við um tannþráð. Hann á alls ekki að fara í klósettið.

Matarleifar

Rétt eins og hár eru matarleifar lífræn efni. Ég hef bara aldrei nokkurntímann sturtað niður mat í klósettið en mig minnir að ég hafi einhverntímann orðið vitni að því að sjá súpu hellt í klósettið. Man ekkert hvar eða hvenær en mér finnst eins og ég hafi séð það gert.

Það er ekki sniðugt að setja mat í klósettið því, ein og gefur að skilja, geta stórir bitar stíflað lagnirnar. Svo eru sterkjurík matvæli eins og hrísgrjón og kartöflumús ekki góð því sterkjan verður að hlaupi í vatni sem eykur líkurnar á stíflum.

Heimildir: Brightside.me

Sjá einnig:

SHARE