Að deita múslima – Reynslusaga

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Við kynntumst er við bjuggum bæði erlendis og stunduðum nám við sama háskóla. Hann var hávaxinn myndarlegur og skarpgreindur. Ég tók strax eftir honum í tímum, hvernig hann bar sig og hvernig hann talaði. Alltaf öruggur með sig, vel að máli farinn með ótrúlega mikið innsæi.
Eftir að hafa gefið hvort öðru vísbendingar í 4-5 mánuði gerðist það loksins. Við urðum par. Ég var alsæl og hann líka, enda höfðum við einhvernvegin verið að bíða og vona að þetta myndi gerast, bæði óörugg með tilfinningar hins.

Í byrjun gekk allt ofboðslega vel, ég sveif um á bleiku skýi, svo ofboðslega ánægð með að hafa fundið mann sem var svona greindur, svo góður við mig, svo hlýr og svo skemmtilegur. Hann kom fram við mig af virðingu, sýndi mér og mínum áhugamálum áhuga, talaði fjálega um hvað hann væri stoltur af mér fyrir að leggja svona hart að mér í erfiðinu námi, hann vissi að það ætti eftir að borga sig. Við vorum ótrúlega ástfangin og allt var svo frábært, en það er líka oft sagt að ástin blindi mann. Auðvitað komu upp atvik þar sem að eitthvað fór úrskeiðis hjá okkur, sérstaklega í sambandi við menningarmismuninn á okkur, hann frá mjög öðruvísi landi í Suður Asíu og ég frá Íslandi. En við reyndum að komast í gegnum það með því að ræða málin, vera opin og hreinskilin og með því að hlæja mikið að því hvernig við túlkuðum mismunandi hluti. Ég hélt að ég hefði loksins fundið þann eina rétt, þann sem ég hafði beðið eftir alla mína ævi.

Þegar á leið sambandið, þá breyttist…. ekki neitt. Hann er enn frábær, hlýr og yndislegur. Hann er enn stoltur af mér og hann er enn góður við mig og ég held að ég hafi aldrei kynnst neinum sem ber jafn mikla virðingu fyrir mér og mínum skoðunum. Ég er enn yfir mig ástfangin af honum og get ekki séð að það breytist. Við verðum nánari með hverjum deginum. Ég elska hann og hann elskar mig. Það að hann trúi á Allah og ég trúi ekki á neitt kemur málinu mjög lítið við. Við höfum meira að segja rætt hvernig við myndum haga barnauppeldi okkar í framtíðinni og komist að samkomulagi um að börnin ættu sjálf að fá að velja á hvað þau trúa, sé það eitthvað yfir höfuð. Foreldrar hans eru mjög trúuð, en fyrir þau er það eina sem skiptir máli að ég sé góð manneskja, við séum góð hvort við annað og að við komum fram við hvort annað og aðra af virðingu og vinsemd. Þau sjá að ég geri hann hamingjusaman og fyrir þau er það fyrir öllu, trú mín eða trúleysi skiptir þau ekki máli.

Hættið að reyna að dæma fólk vegna útlits eða trúarbragaða, það skilar litlu að hafa fordóma, fólk er fyrst og fremst bara fólk, og það skilar litlu að ætla að dæma þau vegna einhverra smávægilegra utanaðkomandi atriða.

SHARE