Að vetri

Ég set mér engin heit á sjálfum áramótunum. Ég er yfirleitt búin með of mörg glös af kampavíni þegar nýja árið gengur í garð til þess að geta mögulega sett mér raunhæf heit sem ekki detta upp fyrir tveimur dögum síðar.

Í stað þess sest ég niður í upphafi hverrar árstíðar og fer yfir hverju ég vil áorka næstu mánuði. Þetta þurfa ekki að vera flóknir hlutir, það er öllum hollt að hafa markmið – eitthvað til þess að stefna að. Líkt og fyrir nýafstaðið sumar setti ég mér meðal annars það markmið að halda fleiri matarboð. Og það gerði ég – bara af því að ég hafði sett það niður á blað og fannst ég því knúin til þess að standa við það. Sömu sögu er að vísu ekki að segja af útilegunni sem var á markmiðslistanum. Guði sé lof að hún fór forgörðum. Ég verð seint kölluð skáti og kýs að hvíla mín lúnu bein í hlýju og góðu rúmi. Með sæng. Og kodda. Og þak yfir höfuðið.

Það eru margir hlutir sem hægt er að einsetja sér að njóta að vetri til. Göngutúrar í kyrrð og brakandi snjó, kertaljós, heitt kakó og sjóðheitar súpur á köldum dögum. Veturinn er bara svo fallegur og friðsæll (á köflum). Hlý föt, hnausþykk teppi og húrrandi rómantík. Mér finnst alveg ákaflega mikilvægt að gera það besta úr því sem hver árstíð hefur að bjóða. Það verður svo miklu auðveldara að elska þær allar jafn heitt fyrir vikið.

Við eyðum alltof miklum tíma og orku í að bíða. Bíða eftir einhverju betra. Á mánudögum bíðum við eftir föstudögum, að hausti bíðum við eftir jólunum og að vori bíðum við óþreyjufull eftir sumrinu. Óþarflega oft fáum við áminningu um það hversu stuttan tíma við höfum til að njóta þess að vera til. Hversu mörgum dögum eyðum við samt í nákvæmlega ekki neitt?

Ég þjáist af krónískum ótta um að ég vakni einn daginn sextug á sófanum heima hjá mér. Í náttsloppnum. Hangandi á Facebook og horfandi á sjónvarpið með öðru auganu. Að öfundast út í líf annarra á Instagram. Ekki búin að afkasta neinu til að tala um af því ég ætlaði alltaf að henda því í framkvæmd á morgun. Aldrei búin að leyfa mér að njóta.

Ég hugsa stundum um að í raun hef ég lífið bara að láni og hef enga hugmynd um hvenær kemur að skiladegi. Það er þess vegna ágætt að minna sig reglulega á að enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

Ég hef ósjaldan lesið sögur af fólki sem komið er á sín efri ár þar sem það talar um sínar mestu eftirsjár í lífinu. Eftirsjáin snýst yfirleitt um einfalda hluti eins og að borða meira súkkulaði án samviskubits, að ferðast og sjá meira og eyða tíma með fólkinu sínu. Þetta hljómar svo einfalt en í amstri dagsins erum við alltof fljót að gleyma.

Þess vegna legg ég til að þú notist við mína aðferð. Sestu niður, gerðu lista, settu þér fáein markmið – sama hversu lítilfjörleg þau eru. Nú og ef maður ætlar á annað borð út í markmiðssetningu og listagerð, af hverju ekki að skella niður á blað 100 hlutum sem mann þyrstir í að gera í lífinu? Að hafa hluti á blaði stóreykur líkurnar á framkvæmd.

Ég lofa!

SHARE