Æðislegt brauð! – uppskrift

Það á að vera gaman að baka brauð – eins og líka að útbúa mat fyrir sig og sína!

Hér er ein góð uppskrift af æðislegu brauði.

Velgið 1 bolla af mjólk að líkamshita.

Setjið 1 bréf (12gr.) af þurrgeri út í ásamt skeið af (púður)sykri, hunangi eða hlynsýrópi- sem sagt eitthvert sætuefni til að koma gerinu af stað. Látið þetta standa um stund þar til gerið fer að lyfta sér og „gerja“.

Hellið mjólkinni í vel stóra skál og þá byrjar gamanið. Ég byrja með að láta ca. 3 bolla af  hveiti út, þá læt ég mjöl sem ég á til það og það skiptið, t.d. kím, heilhveiti, hirsi og þau fræ sem ég á til og dettur  í hug að nota, t.d. sólblómafræ, sesamfræ eða eitthvað annað. Hér getur manni ekki mistekist! Hrærið vel saman og bætið hveiti í þar til deigið verður vel stíft. Með þessu á ég við að þegar fingri er potað í kúluna kemur smádæld og hún réttir sig við. Þá er deigið tilbúið til að hefast. En ef til vill bæti ég einhverjum þurrkuðum ávöxtum, t.d. brytjuðum aprikóum, rúsínum eða trönuberjum út í. Það finnst mörgum mjög gott.

Látið skálina standa á hlýjum stað- ekki í gusti- og það er ágætt að breiða stykki eða plastpoka yfir skálina. Málið er að deigið hafi nógan tíma til að lyfta sér. Þegar deigið hefur þanist út um c.a. helming er kominn tími á að hnoða það til, skipta því í tvo helminga  og setja  þá í 2  vel smurð form.

Ég set formin inn í ofn sem er orðinn 200 gr. heitur og minnka hitann niður í 150. Eftir ca. 15 mín er komið þetta fína brauð.

Þá er að borða ilmandi, nýbakað brauð og njóta þess.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here