Af hverju er betra að borða reglulega?

Sýnt hefur verið fram á að þeir sem borða reglulega eru líklegri til þess að:

  1. Velja hollari mat. Við þekkjum það flest að þegar við erum mjög svöng heillar kók og prins eða sveitt pylsa með öllu frekar en epli og gulrót
  2. Borða frekar heimatilbúinn mat. Ef við erum mjög svöng megum við ekki vera að því að dunda við hálftíma eldamennsku, við viljum mat strax og þá er skyndibitinn fljótlegastur. Ef við erum hins vegar vön því að borða reglulega erum við líklegri til þess að vera búin að hugsa fram í tímann og skipuleggja næstu máltíð í tíma.
  3. Hafa stjórn á skammtastærðum. Þegar við verðum sársvöng er líklegra að við innbyrðum meira magn en við þurfum í raun og veru og áður en við vitum af er kexpakkinn búinn.
  4. Finna seddutilfinningu. Þegar við verðum of svöng borðum við hraðar og finnum seddutilfinninguna síðar. Eins innibyrðum við frekar “innantómar” hitaeiningar sem sitja stutt með okkur og við verðum fljótt svöng á ný

Með því að borða reglulega aukast líkur á að blóðsykur haldist stöðugri yfir daginn. Ef blóðsykurinn verður of lágur kviknar á hungurtilfinningunni og líkaminn fer að kalla á skyndiorku (innantómar hitaeiningar) sem hækkar blóðsykurinn hratt en hann lækkar líka hratt aftur þar sem við erum fljót að melta þann mat og verðum strax svöng á ný. Þannig verður til vítahringur af of miklum sveiflum í blóðsykri sem betra er að forðast.

Sjá einnig: Nokkur æðisleg ráð fyrir föndrara

Í maganum eru framleidd hormón sem kallast ghrelin en ganga í daglegu tali undir nafninu hungur hormón. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem borðar að minnsta kosti 3 máltíðir á dag mælast með minna magn af þessu hormóni og upplifa sig síður svanga yfir daginn. Að sama skapi virðast þeir sem borða að minnsta kosti 3 máltíðir á dag hafa hærra hlutfall af sumum “seddu” hormónunum.

Þannig eru rökin fyrir því að það sé okkur hollt að borða reglulega óumdeilanleg og þá er bara að koma því í framkvæmd, skipuleggja máltíðir dagsins og allar líkur á að við fáum betri heilsu og líðan

Höfundur greinar

Greinin birtist á Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra

SHARE