Í mörg ár nýtti ég mér fallega þjónustu Agnesar Ósk snyrtifræðings en þegar ég flutti úr Mosfellsbæ og alla leið í hafnafjörð þá kvaddi ég hana með mikilli eftirsjá og það tók mig þó nokkurn tíma að finna snyrtifræðing sem mér fannst komast með tærnar þar sem hún hefur hælana.

Agnes skrifaði pistil sem ég fékk leyfi til að birta hér á hun.is þar sem ég hef oft velt því fyrir mér hversvegna fagmennska stétta er ekki vernduð gegn fúski hér á landi.

Hér kemur pistill Agnesar:

Fyrir rétt um viku síðan afhenti ég ungum og upprennandi snyrtifræðingum sveinsbréf í iðninni. Fögur orð um virðingu fyrir iðngreininni, mikilvægi fagmennsku og gæða voru hornsteinn þess boðskapar sem fluttur var á þessari hátíðarstundu. Einstaklingar sem hafa lagt sig alla fram við að afla sér þekkingar og hæfni af viðurkenndri menntastofnun til að meðhöndla líkama, og þá ekki síst andlit, einstaklinga sem til þeirra leita. Því fylgir mikil ábyrgð enda tjónið mikið ef vinnubrögð eru röng.

Nýútskrifaðir snyrtifræðingar, ásamt öðrum iðnaðarmönnum, starfa á grunni gamalla laga sem hafa þó um árabil tryggt og hlúð að þeim iðngreinum sem lögin taka til. Grunntilgangur laganna er að vernda almenning gegn hvers konar fúski. Hinn almenni borgari getur treyst á að ef hann leitar til einstaklings með sveinspróf í tiltekinni iðn að viðkomandi hafi tilskylda menntun og þekkingu í faginu. Þannig gengur almenningur að fagmennsku vísri og vinnubrögðum sem hann getur verið viss um að valdi ekki skaða.

Innan snyrtifræðinnar hefur töluvert borið á að ófaglærðir einstaklingar veiti þjónustu, þar á meðal húðmeðferðir með sterkum efnum, án þess að þeir hafi menntun til verksins. Við hjá Félagi íslenskra snyrtifræðinga höfum leitað þeirra leiða sem í boði eru til að verjast slíkri starfsemi en án árangurs. Hvorki lögregla né þau stjórnvöld sem tryggja eiga rétt neytenda hafa eftirlit með þessari háttsemi.

Staðan er því einfaldlega sú að ekkert virkt eftirlit er með löggiltum iðngreinum og er ástæða til að hvetja stjórnvöld til að bæta sem allra fyrst úr því. Það er ávinningur bæði fyrir þá sem njóta þjónustunnar og fyrir þá sem vilja leggja stund á löggilt iðnnám.

Okkur ber skylda til að standa við þær fyrirætlanir okkar að efla veg og virðingu iðnmenntunar í landinu. Það mun bæði tryggja hag neytenda og stuðla að aukinni nýliðun í löggiltum iðngreinum.

Frábær ábending frá Agnesi og í óformlegu spjalli okkar kom fram að hún hefur áhyggjur af þeim varanlega skaða sem fúsk getur valdið manneskju.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here