Allir hafa sína leið til að syrgja – Reynsla lesanda af sorginni

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

 

Sorg er óumflýjanlegt ferli sem allir þurfa að ganga í gegnum einhvern tímann á ævinni. Þetta er það persónulegasta sem þú gengur í gegnum og þú verður að ganga í gegnum ferlið einn.

Auðvitað hefurðu fólk í kringum þig til að hjálpa þér en á endanum þá veltur þetta bara á þér, þetta eru þínar tilfinningar og þú einn upplifir þínar tilfinningar. Sorgin er ekki mælanleg með neinni mælieiningu, það er ekki til neitt handrit að því hvernig þú ferð í gegnum hana eða hvað gæti hugsanlega komið næst.

Í þessu ferli þarftu að vera tilbúinn að horfast í augu við sjálfan þig vera tilbúinn að finna fyrir ótrúlegum sársauka, en málið er að þú ert samt ekki undirbúin fyrir þetta, tilfinningarnar eru í frjálsu falli og þú verður bara að leyfa þeim að koma, þú verður að skella á jörðina.

Sorgarviðbrögð eru ekki eins hjá öllum það bregst enginn eins við. Það er ekkert sem segir að þú eigir að gráta allar þínar vökustundir sorgin mælist ekkert í tárum. Fólk upplifir hluti á mismunandi hátt. Nú er ég búin að vera að ganga í gegnum sorg og er enn í þessu ferli, ég þarf að gera þetta á minn hátt fara mína leið leyfa þessu að koma á mínum hraða.

Ég hef þó heyrt utan frá mér að sumum finnist athugavert hvernig ég syrgi, ég grét víst ekkert svo mikið, knúsaði fólk lauslega og grét ekki í fangi á fólki. Ég fékk oft að heyra „þú þarft ekkert að vera sterk fyrir aðra“ eða „það er bara erfitt að horfa á fólk sem er að látast vera sterkt“.

Í mínu tilfelli var ég ekkert að því, ég grét í föðmum fólks sem ég treysti og þekkti 100% ég talaði mikið um mínar tilfinningar við fólk sem mér fannst þægilegt að tala við.
Þegar ég kom út á við í kringum fullt af fólki sem ég þekkti lítið fraus ég upp og leið óþægilega. Ég hélt aldrei aftur af mér, lengi vel var sjokkið bara svo mikið að ég fann ekkert en fólk upplifði mig sem „kalda“ ég gat bara ekkert að þessu gert ég var bara trú mínum tilfinningum. Þessar athugasemdir voru mjög særandi og voru ekki að bæta mína líðan.

Þannig að ef einhver er að syrgja eða þið sjálf aldrei hugsa að þetta sé óeðlilegt hvernig manneskjan er að bregðast við, ekki vera að setja út á eða gagnrýna hvernig fólk syrgir. Það gerir engum gott að vera í þessu ferli að þurfa að vera efast um sjálfan sig á sama tíma og finnast vera eitthvað að því. Sumir þurfa vissulega hjálp við þetta en þeir verða að gera sér grein fyrir því sjálfir ef þeir eru fastir.
Enginn getur skilið þínar tilfinningar betur en þú sjálfur og það er ekki annarra að áætla hvernig þú átt að upplifa þær og vinnur úr þeim.

Þetta er ferli sem er erfitt og tekur tíma en þegar á endann er komið þá er þetta svo nauðsynlegt til að verða heill á ný.

SHARE