Mellubönd eða choker-bönd verða heitasta trendið í sumar. Lína Birgitta beið eftir tískubylgjunni með óþreyju. Hana langaði svo að geta notað falleg bönd frá ömmu sinni.

 

Hin svokölluðu mellubönd, eða choker-bönd, hafa hægt og rólega verið að komast aftur í tísku eftir smá hlé. En slík hálsmen voru mjög áberandi á hálsum ungra stúlkna í upphafi tíunda áratugarins. Líkt og nú voru þá ýmsar útfærslur í gangi, en sú einfaldasta var án að efa sundurklipptur nælonsokkur – sem margir kannast eflaust við að hafa sett um hálsinn.

Choker tískubylgjan virðist vera að ná hámarki núna og má búast við því að böndin verði heitasta trendið í sumar. Allir helstu tískubloggarar og -snapparar landsins virðast vera búnir að næla sér í að minnsta kosti eitt band og skarta við hvert tækifæri.

Fékk bönd frá ömmu

Lína Birgitta Camilla Sigurðardóttir, einkaþjálfari og lífsstílsbloggari, er hrifin af þessari tískubylgju og var búin að bíða óþreyjufull eftir því að choker bylgjan næði almennilega til Íslands. „Þetta er svolítið seint að koma til Íslands. Ég var alltaf að bíða eftir því að þetta kæmi í búðir hér og var farin að spá í að panta mér að utan. En um leið og böndin komu í búðir hérna þá voru allir komnir með þau,“ segir Lína sem á sjálf bönd af öllum stærðum og gerðum. Sum hefur hún keypt sér sjálf en önnur hefur amma hennar gefið henni.

„Amma mín er alltaf með choker og hefur verið með þannig síðan hún var ung. Ég á því fullt af choker-böndum frá henni sem eru mjög flott. Ég var alltaf að bíða eftir því að böndin kæmust aftur í tísku því þetta er svo nett. Og loksins gerðist það, þannig nú ég get notað böndin frá henni.“

„Það er bara sexí“

Lína segist nota böndin bæði hversdags og spari. Enda margar gerðir til sem henta mismunandi tilefnum. Sum böndin eru einföld á meðan önnur eru sett skrautsteinum eða perlum. „Þetta er alltaf flott og fer við hvað sem er. Þetta er skemmtilegur aukahlutur.“

Það fer auðvitað ekki á milli mála að choker-böndin líkjast ól og einhverjir hafa viljað meina að þau séu svolítið „kinky“ fylgihlutur. Slík umræða hefur til að mynda skapast inn á facebook-hópnum Beauty tips. „Þetta er auðvitað eins og ól og maður veit alveg hvað flestir hugsa þegar þeir sjá svona ól,“ segir Lína og hlær. „En það er bara sexí,“ bætir hún við.

Þær eldri eru feimnari

„Það er vinsælast núna að vera með þunn bönd úr flaueli en svo er hægt að fá þykkari bönd með meiri teygju. Maður þarf bara að passa að vera ekki með oft þykkt band, þá getur það ýtt undir að maður fái undirhöku. Stelpur þurfa bara að finna út hvað passar þeim best út frá andlitsfalli og öðru.“
Lína segist aðallega sjá yngri konur með choker-böndin á Íslandi. Það virðist því sem þær eldri séu feimnari við að skarta þeim. „Það er bara þannig með konur að þær eru oft feimnar við að fara út fyrir þægindarammann. Finnst þær of gamlar fyrir hitt og þetta. En maður á ekki að vera hræddur við að prófa eitthvað nýtt. Ef manni finnst eitthvað flott á maður bara að prófa það.“

Birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans

SHARE