Tanja Ýr vill vera þekkt sem sú persóna sem hún er, ekki vegna einhvers titils. Hún nýtti athyglina á jákvæðan hátt og stofnaði fyrirtækið Tanja Yr Cosmetics sem gengið hefur framar vonum.

„Það hvarflaði ekki að mér að þetta myndi ganga svona ótrúlega vel. Það er líka best að búast ekki við neinu, þá er maður glaðari ef vel gengur og vonbrigðin minni ef illa gengur,” segir Tanja Ýr Ástþórsdóttir, eigandi netverslunarinnar Tanja Yr Cosmetics. Fyrirtækið stofnaði hún fyrir rúmu ári og hefur fram að þessu sérhæft sig í gerviaugnhárum úr mannhári. Og eftirspurnin hefur verið mikil. Nú styttist hins vegar í nýjar vörur frá henni, en síðustu níu mánuði hefur hún verið að þróa línu af augnhárum úr minkahárum, sem samt eru „cruelty free“.

Vildi gera eins og pabbi

Hún er einmitt í óða önn við að skipuleggja kynningarpartí til að kynna augnhárin. Þá er hún líka með fleiri vörur í þróun, sem væntanlega munu líta dagsins ljós á næstu mánuðum. „Ég hannaði augnhárin sjálf frá grunni og þess vegna er þetta búið að taka svona langan tíma,“ útskýrir hún. Augnhárin eru framleidd í Kóreu og Bandaríkjunum, en Tanja fær reglulega send til sín prufueintök og lætur vita hvað þarf að bæta.

En hvað kom til að Tanja, sem er aðeins 24 ára gömul, ákvað að reyna fyrir sér í fyrirtækjarekstri? „Mig langaði alltaf að vera minn eiginn yfirmaður. Pabbi hefur alltaf verið í fyrirtækjabransanum og ég hef alltaf litið upp til hans. Mig langaði að gera eins og hann. Svo þegar ég vann Ungfrú Ísland árið 2013 þá sá ég hvað ég hafði mikil áhrif, greip strax tækifærið og fór að gera eitthvað í þessum málum,“ segir Tanja um hvað varð til þess að hún ákvað að feta þessa braut.

Fannst vanta betri augnhár

Hún ákvað að nýta athyglina á jákvæðan hátt og freista þess að láta drauma sína rætast. „Það skiptir svo miklu máli að vera með fylgjendur þegar maður er að byrja á svona verkefni, sérstaklega ef maður ætlar að setja nafnið sitt við það,“ útskýrir Tanja, en hún er í dag með 10000 fylgjendur á snapchat, heldur úti vinsælu bloggi og er með instagram síðu. „Í upphafi vissi ég samt ekki alveg hvað ég vildi gera. Ég var alltaf í förðun og myndatökum á þessum tíma, en var aldrei nógu ánægð með augnhárin sem sett voru á mig. Ég var alltaf að klippa þau til. Úrvalið af gerviaugnhárum á þeim tíma var mjög lítið, en í dag er markaðurinn alveg að springa. Það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara út í að gera augnhár.“

Strembið að fara af stað

Hún viðurkennir að það hafi verið ansi strembið að koma fyrirtækinu af stað. Hún lá yfir myndböndum á youtube, fletti upp óteljandi leitarorðum á google og las hinar og þessar greinar til að kynna sér markaðinn og hvað vantaði helst. „Svo er ég líka óhrædd við að spyrja fólk í kring um mig. Ég geng alveg upp að ókunnugri manneskju og spyr hana ef ég vil vita eitthvað. Þannig læri ég. Ég vil líka að fólk spyrji mig, því ég vil gjarnan deila minni reynslu.“

Hún gat svo leitað ráða hjá föður sínum varðandi það hvernig hún ætti að bera sig að við stofnun fyrirtækis. Erfiðast fannst henni að finna góðan framleiðanda á augnhárunum en það tókst á endanum. Fyrirtækið Tanja Yr Cosmetics leit svo dagsins ljós fyrir rúmu ári og hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt síðan.

Námið getur beðið

Frá því að Tanja tók þátt í Ungfrú Ísland á sínum tíma hefur hún tekið þátt í þremur öðrum keppnum, meðal annars Miss World. Hún segist hafa lært mikið af þátttöku í þessum keppnum, hafa stækkað tengslanet sitt mikið og eignast góðar vinkonur. Hún sér því svo sannarlega ekki eftir því að hafa tekið þátt í Ungfrú Ísland og þannig opnað dyrnar út í heim. „Það koma dagar þar sem ég hugsa hvað ég væri eiginlega að gera ef ég ekki stigið út fyrir þægindarammann með þessum hætti,“ segir Tanja en hún var mjög feimin og átti erfitt með að tala fyrir framan fólk. Eitthvað sem er ekkert mál fyrir hana í dag.

Tanja var í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík þegar hún hóf undirbúning fyrir Ungfrú Ísland, en skipti síðan yfir í hugbúnaðarverkfræði. Tækifærin á erlendri grundu hafa hins vegar verið svo mörg og spennandi og fyrirtækið stækkað hratt, þannig hún ákvað að gera hlé á náminu um óákveðinn tíma. „Það var bara orðið alltof mikið að gera hjá mér. Námið verður alltaf þarna en tækifærin ekki. Ég vil því reyna að nýta þau.“

Ekki hugsa of mikið um peninga

Tanja á fjölda áhugamála en hefur lítinn tíma til að sinna þeim út af vinnunni, sem tekur nánast allan hennar tíma, sérstaklega á álagstímum eins og núna. Hún er þó svo lánsöm að vinnan er eitt af áhugamálum hennar og hún nýtur þess að sinna fyrirtækinu með einum eða öðrum hætti. Skrifa færslur á bloggið sitt og tala við fylgjendur sína á snapchat. „Það skiptir svo miklu máli að hugsa um fyrirtæki með hjartanu. Ekki hugsa of mikið um peninga. Það skilar líka árangri,“ segir hún einlæg.

Stundum kjánalegt að vera þekkt

Þrátt fyrir að Tanja hafi fyrst komið fram á sjónsviðið sem Ungfrú Ísland, virðist titilinn ekki hafa fest við hana, eins og vill stundum gerast. „Ég hélt alltaf að fólk myndi tala um mig sem Tönju úr Ungfrú Ísland, að það myndi festast við mig, en eftir að ég byrjaði með snapchatið mitt: beautybytanja, er fólk miklu frekar að tengja mig við það. Ég er rosa ánægð með að ég sé ekki föst með þennan titil, heldur bara þekkt sem sú persóna sem ég er.”

Hún kippti sér þó lítið upp við athyglina sem hún fékk í kjölfar þess að vera kosin Ungfrú Ísland og fannst það til dæmis ekki frábrugðið því að vera í forsvari fyrir góðgerðanefnd sem hún stofnaði innan HR. „En þegar ég byrjaði með bloggið og snappið þá varð athyglin meiri og öðruvísi. Ég finn alveg fyrir því að það er horft á mig þegar ég fer til dæmis í búð með mömmu. Henni finnst það svolítið óþægilegt. Mér sjálfri finnst það ekki óþægilegt en kannski pínu kjánalegt stundum, því ég er líka bara venjuleg. En þetta er bara gaman,“ segir hún og brosir.

 

Mynd/Hari

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE