BUGL var hræðilegur staður að vera á fyrir mig – Héldu mér niðri og tóku úr mér blóð.

ATH. Í Þjóðarsálinni birtist efni sem okkur er sent, efnið þarf ekki að endurspegla okkar skoðun eða viðhorf. Hún.is

Eftirfarandi atburðir áttu sér stað fyrir 11 árum síðan, árið 2002.

Mig hefur lengi langað til að gera eitthvað í þessu máli en það er líklega lítið sem ég get gert svona mörgum árum eftir á enda vonandi og örugglega margt búið að breytast síðan þá. Þegar þessir atburðir áttu sér stað var ég enn barn og átti langt í land með að hafa einhverja burði til að geta haft áhrif á breytingar eða annað í þessum málum.

Þegar ég var barn leið mér ekkert alltaf vel eins og gengur og gerist hjá fólki. Ég var send stundum til lækna, þar sem foreldrar mínir virtust hafa verið sannfærð um að það væri rétta leiðin og man alltaf eftir því þegar ég fór í fyrsta skipti til sálfræðings, þá 6 ára og hann gerði greindarpróf á mér. Ég var alltaf hrædd við lækna og man að ég var alls ekki sátt við þetta viðtal og fannst maðurinn tala við mig eins og smábarn, ég þoldi aldrei þegar fólk talaði við mig eins og barnið sem ég var. Greindarprófið kom vel út, þar sem ég var mæld vel yfir meðalgreind. Ég veit ekki nákvæmlega hver ætlunin var með þessu greindarprófi önnur en sú að reyna að fá betri innsýn inn í hugarheim minn, 6 ára barnsins.

Árin og tíminn liðu og mér leið ekki alltaf vel. Ég til dæmis átti systkini sem lenti í einelti og tók það mjög nærri mér og fannst það mitt hlutverk að verja systkinið og það gerði ég, sama hversu margar skólastjóraheimsóknir það kostaði, að sjálfsögðu varði ég systkini mitt og notaði til þess ýmsar leiðir, hvort sem það voru líkamleg átök eða munnleg. Ég átti mína vini og við lékum okkur saman eins og venjulegir krakkar.

Ég stundaði íþróttir, fór mikið í sund, elskaði að gera prakkarastrik en fannst líka gaman að leika mér í barbie, helst svo enginn sæi! Ég efast um að fólk hafi litið á mig eins og nokkuð væri að mér, ég var bara krakki og eftir því sem margir segja mér, sniðugur krakki.

Mér fannst foreldrar mínir ekki alltaf sanngjarnir og það urðu oft hávaðarifrildi. Ég var þá orðin frekar slæm af OCD, sem er áráttu og þráhyggjuhegðun sem lýsir sér á ýmsan hátt, en ég get varla lýst því hvernig þetta kom út hjá mér því að það var orðið svo þróað í höfðinu á mér að erfitt er að lýsa þvi hvað fór í gegnum hugann. Þetta snýst mikið um það að ef þú gerir ekki eitthvað svona.. gerist þetta, oftast eitthvað hræðilegt fyrir þína nánustu. Ég náði að halda þessu í skefjum í skólanum og fyrir framan annað fólk en þegar ég kom heim þá braust þetta út. Þetta er ekki eins og tourette þar sem þú segir ákveðin orð eða kippist til, heldur er þetta meira rútína og þetta er frekar algengt á Íslandi. Ég t.d. vildi ekki drekka úr ákveðnum glösum, þurfti að snerta eitthvað þetta oft og á ákveðinn hátt og það gat tekið langan tíma að takast að gera það rétt, ó já! ég mátti heldur helst ekki snerta ákveðnar manneskjur, annars gat mér liðið illa í langan tíma. Þetta var svo orðið þannig að ég þurfti alltaf að sofa á ákveðinn hátt og þá fór mamma að hafa áhyggjur og talaði við sálfræðing á BUGL sem er barna og unglingageðdeild. Eftir það sá ég alltaf eftir því að hafa sagt mömmu frá erfiðleikum mínum, mér fannst ég illa svikin.

Einn daginn, í byrjun sumars fékk ég svo fréttirnar, og man enn í dag stinginn í hjartanu og hræðilegu vanlíðanina og vanmáttinn sem ég fann til, þar sem ég hafði ekki sjálfræði, annað fólk gat skikkað mig til að gera eitthvað sem ég vildi alls ekki. Mikið er ég fegin að sá tími er liðinn. Jæja.. mér var sagt að ég þyrfti að fara á BUGL, og búa þar í einhvern tíma! ég heyrði bara nafnið barna og unglingageðdeild og fannst versta martröð mín vera að rætast. Í mínum huga var orðið geðdeild eittthvað alveg hræðilegt, ég vissi ekki að þó geðdeild heiti geðdeild væru ekki endilega bara þeir sem væru geðveikir þar, enda á þessum aldri vissi ég ekki almennilega hvað geðveiki væri, ég hélt að það að vera geðveikur þýddi bara að vera með úfið hár og í spennitreyju. Auðvitað veit fólk í dag að þannig er það ekki og eftir því sem ég best veit flokkast þunglyndi t.d. undir geðröskun og við íslendingar eigum líklega met í þunglyndissjúklingum. Ég gat bara ekki hugsað mér að láta loka mig inni á einhverjum spítala, enda var ekki þörf á þvi heldur hefði verið réttara að ég færi í viðtöl jafnvel og fengi svo lyf meðan þetta tímabil gekk yfir, seinna meir fékk ég svo lyf sem hjálpuðu mér og þetta háði mér ekki lengur, í dag hinsvegar tek ég engin lyf og OCD háir mér ekki í dag, ég held þetta hafi minnkað með aldrinum og ég hafi bara verið að ganga í gegnum slæmt tímabil þarna. Ég er stundum sérvitur en það er bara karaktereinkenni hjá mér í dag myndi ég segja.

Ég grét stanslaust þar til að þessu kom og reyndi allt til að fá foreldra mína af þessu, lofaði ýmsu en allt kom fyrir ekki og þau stóðu föst á sínu, enda hafði þeim verið sagt af læknum sem unnu á deildinni að þetta væri það allra besta og þarna fengi ég góða hjálp. Mikið leið mér illa og þetta gerði allt svo sannarlega mun verra, ég sá fram á, að langþráða sumarfríið sem ég hafði hlakkað svo til myndi vera þannig að ég væri lokuð inni, frá öllum mínum vinum og öllu því sem ég þekkti,  þar sem þessir kækir mínir tengdust mikið álagi og skóla og á sumrin leið mér betur vegna þess að þá minnkaði álagið. Ég var líka hrædd um að mínir vinir og samnemendur fréttu af þessu því það hefði gert aðstæður mínar í skólanum óbærilegar, enda hafði ég passað mig alla tíð að láta engan taka eftir neinu með mig og engum hefði dottið í hug að ég þyrfti eitthvað svona, sem er að vísu rétt því enn þann dag í dag tel ég að þetta hafi röng og virkilega slæm ákvörðun og ekki gert mér neitt nema slæmt. Ég var sett á unglingadeildina, þó ég væri bara 11 ára vegna þess að þeim fannst það ekki rétt að setja mig á barnadeildina þar sem ég var alltaf frekar þroskuð miðað við aldur.

Ég kom þangað og mér fannst þetta hræðilegt, þetta var spítali, auðvitað. Ég fékk mitt herbergi, kalt og lítið spítalarúm og eitt skrifborð. Ég mátti ekki taka neitt dót með mér til að byrja með og þurfti alltaf að vinna mér það inn að fá að hafa dót eða fá einhver fríðindi. Ég gat ekki læst að mér á nóttunni sem mér fannst virkilega erfitt þar sem ég var hreinlega hrædd við suma vistmenn deildarinnar sem áttu við mikla erfiðleika að stríða, mun eldri en ég og hræddu mig.

Þarna var ég innan um sprautufíkla og fólk í neyslu. Hálffullorðið fólk með alvarlega sjúkdóma, ég man að einn strákur á deildinni áreitti mig reglulega og ég var alveg skíthrædd við hann. Hann var veikur og var meðal annars með Asperger og einhverskonar geðsjúkdóm. En nóg um það. Þessi staður átti að vera staður sem hjálpaði mér (mér fannst ég svo sannarlega ekki þurfa að vera lokuð inni einhversstaðar, og er enn á því í dag að það var fráleitt)  og ég velti því fyrir mér hvort að staður sem börn eru neydd á geti nokkurntímann verið þeim til hjálpar eða góð reynsla í reynslubankann fyrir unga krakka. Þarna eyddi ég nánast öllu sumrinum eða 2 mánuðum og ég fékk viðtal hjá sálfræðingi tvisvar á þessum tveimur mánuðum og foreldrar mínir einu sinni. Ég man að ég hugsaði að best væri bara að haga sér sem best til að komast sem fyrst þaðan út, því út vildi ég og það strax.

Eftir á að hyggja eru margar spurningar sem ég velti upp, meðal annars af hverju barn er látið vera þarna í tvo mánuði en talar við sálfræðing aðeins tvisvar á þeim tíma? alla daga var fólk þarna að vinna í sumarafleysingum, þá á aldri við mig í dag, nýskriðið úr menntaskóla og jafnvel byrjað í háskólanum. Fólkið vann þarna við að reyna að hafa ofan af fyrir unglingunum á deildinni og eftir á að hyggja finnst mér að þarna sé börnum bara komið fyrir til að gefa foreldrum frí. Þarna kynntist ég stelpum sem voru í neyslu og ég, 11 ára á þessum tíma fannst þær rosalega “töff” og ef ég hefði verið áhrifagjarnari en ég var hefði ég líklega komið út með það markmið að prófa eins mikið af eiturlyfjum og ég gæti því þarna var mér sagt að þau væru alveg frábær af fólki sem var þarna í meðferð. Ég set líka út á það að strax og ég kom þangað fékk ég ekki að hafa neitt inn í herberginu mínu, það var algjörlega tómt svo að þetta var eins og verið væri að refsa mér, fyrir að segja foreldrum mínum frá því hvað væri að angra mig fékk ég eins og ég leit á það alvarlega refsingu.

Það er hinsvegar nú sem ég kem að alvarlega kaflanum sem enn í dag hefur mikil áhrif á mig í ákveðnum aðstæðum.

Ég hef alltaf verið með fóbíu fyrir því að láta taka úr mér blóð og það hefur þurft að fara varlega að mér vegna þess og það var byrjað þarna, fyrir fólk sem ekki skilur fóbíur eru þær mjög alvarlegar oft á tíðum og geta skapað raunverulega, virkilega mikla hræðslu hjá fólki, svo ég tali nú ekki um hjá börnum. Ef ég þurfti að fara í blóðprufur kveið ég því og fékk plástur og hafði foreldra mína með mér (sem barn) sem hjálpuðu mér og þetta tók oft sinn tíma. Mömmu minni var sagt að þau vildu taka blóð úr mér og hún útskýrði fóbíu mína fyrir yfirmönnum á deildinni vel og vandlega og krafðist þess að ekkert yrði gert fyrr en hún væri komin á staðinn og hún myndi segja mér það og ræða við mig og svo myndum við gera þetta saman. Hún var fullvissuð um að það yrði gert og hún þyrfti engar áhyggjur að hafa af því.

Svo var það einn morguninn um 6 leitið að ég var vakin og inn kom kona með plástur sem hún ætlaði að setja á mig, ég spurði hana hvað væri í gangi og af hverju hún væri að setja á mig plástur. Hún sagði mér þá að ég væri á leið í blóðprufu eftir smástund. Ég fékk áfall og sagði henni að það gæti nú ekki verið því að það hefði verið búið að láta mig vita af því ef svo væri. Hún sagði bara jú og fór út, ég sagði að það vildi ég ekki. Eftir kannski hálftíma kemur svo meinatæknir eða hjúkrunarkona inn ásamt einhverju af fólkinu í sumarafleysingum. Ég sagði að ég vildi þetta ekki og ég vildi fá að tala við mömmu og hafa hana hjá mér, ath að ég var bara 11 ára gömul. Þá var mér sagt “mamma þín veit sko vel af þessu!!” og svo héldu þau mér niðri og tekið var úr mér blóð, það hafa nokkrir þurft að halda mér niðri því að mér fannst þetta alveg hræðilegt og fannst svo mikið brotið á mér. Ég man þetta enn eins og þetta hafi gerst í gær enda hefur þetta alltaf setið í mér og enn þann dag í dag á ég erfitt með að treysta heilbrigðisstarfsfólki og er alltaf hrædd um að völdin verði tekin svona af mér aftur. Þetta finnst mér gjörsamlega óviðunandi vinnubrögð og efast um að svona hegðun hefði verið beitt á fullorðna manneskju. Hefði virkilega verið svona mikið mál að gera þetta á annan hátt? myndir þú ekki verða reið/ur ef þetta yrði gert við þig? ég veit það til dæmis að aldrei myndi fólk koma svona fram við mig í dag, og eina ástæðan fyrir því er að ég er fullorðin og myndi aldrei taka það í mál. Þarna hafði ég ekki val, ég reyndi að nota þá litlu rödd sem ég hafði en á henni var ekkert mark tekið og tilfinningar mínar algjörlega gerðar marklausar.

Mamma hringdi svo um 11 leitið eins og hún var vön að gera og spurði hvernig ég hefði það. Hún fékk það svar að ég væri að hvíla mig núna en hefði “orðið alveg brjáluð” í morgun vegna þess að ég hefði farið í blóðprufu. Mamma vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og hringdi strax í yfirstarfsmann á deildinni og spurði hvað hefði verið í gangi, hún hefði sko aldeilis ekki skrifað undir að þetta yrði gert svona. Sá starfsmaður virtist ekkert vita og virðist vera að skilaboðin hefðu ekki farið þar á milli. Mamma segir mér í dag að það hafi tekið mig mörg ár að treysta henni aftur og það er alveg rétt.

Ég bara næ ekki enn í dag að skilja þessi vinnubrögð. Er í lagi að brjóta svona á manneskju bara af því hún er barn? það held ég aldeilis ekki. Væri þessum aðferðum beitt alla jafna á fullorðið fólk? þeim haldið niðri, ekkert hlustað á óskir þeirra og úr þeim tekið blóð, sem hefði alveg örugglega mátt bíða í nokkra tíma, það var ekki eins og lægi á þessu, heldur var þetta eitthvað rútínu tjékk þarna á þessari stofnun.

Eftir að ég “útskrifaðist” af þessari blessuðu stofnun sem átti að vera svo góð hafði lítið breyst nema það að ég hafði ör á sálinni, ég átti upp frá þessu erfitt með að treysta fólki og á enn í dag og upplifði vanmáttartilfinningu, svo auðvitað vissi ég ýmislegt um eiturlyf sem 11 ára krakki hefði ekki átt að vita. Eftir dvöl mína þarna var engu fylgt eftir, þeir höfðu þvegið hendur sínar á mér og that was it. Ekki það að þeir þyrftu neitt að fylgja mér eftir, en ég hef hinsvegar heyrt um þessa stofnun enn í dag eftir að ég fór að skoða aðeins hvernig vinnubrögðin væru í dag og hef séð að þeir fylggja málunum ekki eftir oft á tíðum en það er eitthvað samt sem áður sem þeir státa sig af að gera. Þeir fá börn úr skólunum til sín, svo útskrifast þau og fundur er haldinn með kennurum og aðstandendum þar sem gefin er skýrsla um meðferð og framför barna ef einhver er. Svo koma börnin í skólann aftur og oft er allt nákvæmlega eins og ekkert hefur breyst.

Ég persónulega er mikið á móti sjúkdómsvæðingu okkar íslendinga á öllu. Stundum líður börnum illa já, það geta verið margar ástæður fyrir því. Heimilislifið getur verið erfitt, stríðni í skóla og annað en mér finnst að virkilega alvarlegar ástæður þurfi að vera að baki þess að loka barn inni nauðugt. Það er varla að mér finnist það nokkurntímann réttlætanlegt og þá sér í lagi ekki til þess að gefa foreldrunum “frí” frá barninu sínu sem því finnst óþekkt. Það er í það minnsta svo sannarlega engin lausn að loka börn inni í vernduðu umhverfi gegn vilja þeirra, því alltaf þurfa þau svo að koma út aftur í sitt umhverfi. Við þurfum að virða tilfinningar barna og virða þeirra óskir. Hér var ég að segja frá minni reynslu og hún hefur stundum áhrif á mig enn í dag, mér fannst ekki auðvelt að rifja þetta upp og ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum vegna reiði minnar. Mig langaði samt að gera það og fá að tala um þessi mál þar sem mér finnst mitt mál til að mynda til skammar af hálfu BUGL. Foreldrar mínir eru enn í dag reiðir yfir þessu og hafa beðið mig afsökunar oft á þessari ákvörðun, þau héldu að þau væru að gera gott fyrir mig og hlustuðu á læknana, sem unnu fyrir þessa stofnun þá. Þau eru á því í dag að það hafi ekki verið rétt fyrir mig að vera lokuð þarna inni og að það hafi ekki verið það besta í stöðunni.

Ég er nokkuð vel heppnuð, hef aldrei verið í fíkniefnum eða neins konar neyslu, þó að foreldrum mínum hefði verið sagt af læknum á deildinni að ég væri í miklum áhættuhóp fyrir það og að þau gætu allt eins búist við því, þessvegna höfðu þau alltaf óþarfa áhyggjur af mér öll mín unglingsár. Mér datt aldrei í hug að skemma líf mitt með eiturlyfjum því að ég stefndi alltaf langt í lífinu og þau eru mjög ánægð með mig í dag og sjá að allar þessar áhyggjur voru óþarfi. Ég tel það hinsvegar bara vera vegna míns persónuleika og hugsana að ekki fór verr. Vegna þess að mörg börn hefðu orðið svo reið (sem ég var) að þau hefðu farið í það mikla  uppreisn að þau hefðu gert allt til að gera foreldrum sínum óleik. Ég var oft alveg brjáluð yfir þessu og langaði að refsa þeim en hinsvegar áttaði ég mig á þvi að ef ég færi að “refsa þeim” með því að eyðileggja mitt líf og setja ofan í mig eiturlyf hefði það bara komið illa út fyrir einn aðila.. MIG. Þá áhættu ætlaði ég aldrei að taka og það er svo sannarlega ekki starfsmönnum BUGL að þakka, enda bjuggust þau við öllu slæmu af mér í það minnsta miðað við hvað foreldrum mínum var sagt.

Mér fannst gott að skrifa um þessa reynslu og segja einhverjum frá henni því ég hef lítið gert af því og vonast til að skrif mín birtist og kannski eru aðrir sem eiga svipaða reynslu að baki. Ég er foreldri í dag og mig langar bara að benda foreldrum á að þetta er ekki fyrsti kostur og ætti að vera neyðarúrræði. Ég gæti aldrei hugsað mér að gera barninu mínu þetta og myndi sko leggja ýmislegt á mig til að koma í veg fyrir að barnið mitt yrði lokað inni gegn þess vilja. Ég held að mikilvægast af öllu sé að eiga í góðum samskiptum við börnin sín, tala við þau þannig þau geti leitað til okkar þegar þau eiga erfitt. Ég þekki nokkra foreldra sem alltaf hafa lagt mikið upp úr því að ræða við börnin og ekki alltaf rjúka til og hundskamma þau fyrir alla hluti, heldur ræða málin, og það er rosalega mikill munur á þeim börnum en t.d. þeim sem öskrað er á. Uppeldi skiptir miklu máli og ég kenni mér ekki einni um hvernig mér leið í æsku stundum, það var heldur ekki alltaf auðvelt að búa á heimilinu mínu, það var oft öskrað á mig og það er við því að búast að þegar barn er vanið á það að það er öskrað á það, þá öskrar barnið á móti. Börnin læra og gera það sem fyrir þeim er haft og ef foreldrar öskra á börn sín geta þau ekki skammað þau þegar þau gera slíkt hið sama. Að öskra á börn skapar kvíða og vanlíðan og ekki misskilja mig, ég átti góða foreldra sem standa alltaf við bakið á mér og sérstaklega i dag og vildu alltaf gera allt vel eins og allir aðrir foreldrar og ég er mjög ánægð með þau í dag, en auðvitað  hefði margt mátt fara betur en það er bara eins og með svo marga, enginn er fullkominn, alls ekki ég.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here