Cafe Paris málið – Frá hinni hliðinni

Nú hef ég rekist á umræðu um Cafe Paris á samfélagsmiðlum okkar. Það var nefninlega þannig að fólk, sem þannig vill til að var í AA samtökunum notaði Cafe Paris sem fundarstað. Þar var fólk að koma eftir fundi sem liggur vel við enda Cafe Paris nálægt fundarstað AA samtakana. Fólkið mætti á Cafe Paris í hópum í þeim tilgangi að halda áfram fundarhöldum og eftir því sem ég veit best færði stóla og borð til og settist svo og hélt fund. Það er spurning hvort að það sé í lagi að færa mikið af stólum og borðum til en annars finnst mér allt í lagi að koma margir saman og hittast. Hinsvegar þá eftir allnokkur skipti fór staðurinn að sjá það að þetta gengi ekki lengur þar sem fólkið var ekki að kaupa sér veitingar en taka borð og stólapláss frá öðrum viðskiptavinum sem ætluðu sér jafnvel að eiga viðskipti við staðinn.

Raunveruleikinn er nefninlega sá að fólkið sem á Cafe Paris er að reka veitingastað. Þeir leigja húsnæði, kaupa mat og borga fyrir starfsfólk. Veitingastaður lifir á viðskiptavinum sínum sem koma á staðinn og sitja, spjalla OG versla sér veitingar, en það er eðlilega skylda ef þú ætlar að sitja inni á staðnum að þú kaupir þér einhversslags veitingar. Í Bandaríkjunum er iðulega skilti utan á stöðunum þar sem segir “Engan inni nema viðskiptavini” og annað sem getur verið erfitt ef þú ert í spreng “Klósettið er aðeins fyrir viðskiptavini” en þetta stóð nánast utan á öllum stöðum í New York og það var erfitt fyrir óléttu konuna mig sem þarf alltaf að pissa. Ég hinsvegar fór þá bara og keypti mér gos til að geta pissað. Ég setti ekki út á þessa reglu vegna þess að þetta skil ég mætavel. Það gengur ekki að fá endalaust af fólki sem ekki eru viðskiptavinir sem bíða í röð eftir að pissa. En svo langt göngum við ekki á Íslandi vegna þess að við erum lítil þjóð og lítil hætta á að klósettröðin nái langt.

Framkvæmdastjóri Cafe Paris sá fram á það að þetta gengi ekki fyrir staðinn lengur og þá þurfti hún í samráði við eigendur staðarins að senda út bréf. Ég er viss um að enginn sem rekur veitingahús sendir út síkt bréf nema tilneyddur. Þetta er ekki gert af illkvittni, fordómum eða til skemmtunar. Cafe Paris þurfti á endanum að taka þá ákvörðun að vingjarnlega benda fólkinu sem notaði Cafe Paris sem fundarstað á það að þeir væru með fundarherbergi niðri á staðnum sem hópar almennt leigja á 25 þúsund kr og innifaldar eru veitingar. Það er nefninlega þannig að Cafe Paris býður hópum upp á að leigja fundarsal í húsnæðinu, mjög snyrtilegan fundarsal þar sem fólk getur hist og spjallað, óáreitt. Þeir töluðu um að þeir væru velkomnir þar eins og allir aðrir.

Út frá þessu varð allt brjálað. Bréfið var birt, svo sannarlega ekki í heild sinni og fréttamiðillinn virtist ekki hafa óskað eftir því að fá hlið konunnar sem um var talað og nefnd var á nafn, þeirrar sem sendi bréfið. Fólk tók þessu persónulega og fór að íja að því að eigendur Cafe Paris væru að reka fólkið út vegna þess að þeir væru í AA og einn aðili skrifaði meira að segja pistil þar sem hann talaði um að þeir myndu jafnvel gera slíkt hið sama við feitt fólk, samkynhneigða ofl. mér finnst þetta högg langt undir beltisstað og ekki eiga neinn rétt á sér. Enda tengist þetta ekkert því að þetta er fólk sem er í AA samtökunum, það hefði engu máli skipt hvaða hópur hefði átt í stað. Nú á ég fullt af góðum vinum sem eru í AA samtökunum  og meira að segja ættingjum og veit að það eru alls ekki allir sem taka þessu svona enda flestir sem skilja það að viðskipti snúast auðvitað um það að selja.

Ég fer oft á veitingastaði og kaffihús, oft er ég með vinahópi og eitt sumarið var ég fastagestur á Cafe Paris. Þá fórum við vinkonurnar reglulega þangað og það var æðislegt, við vorum stundum 7-10 manns og sátum og fengum okkur veitingar og spjölluðum. Þegar ég fer á veitingastað, eða kaffihús, sama hvort ég er með hópi fólks eða bara kærastanum kynni ég persónulega ekki við að sitja þar inni tímunum saman og fá mér ekkert nema vatnsglas. Mér finnst tími til kominn að einhver fjalli um þetta mál frá hinni hliðinni þar sem ég hef séð að fólk er almennt ósammála þeirri umræðu sem hefur verið í gangi í dag og í gær en hefur ekki enn skrifað um það.

Ég til dæmis þekki hópa einstaklinga, hvort sem þeir eru samkynhneigðir, gagnkynhneigðir, í AA, feitir eða mjóir eða af öðrum kynþætti sem eins og flestir aðrir bóka stað eða fundarherbergi þegar þeir ætla að halda fundi og borga fyrir það, þá er greidd einhver fyrirframgreidd upphæð fyrir salnum og veitingum. Það segir sig sjálft að þegar hópur fólks situr lengi á veitingastað og kaupir kannski bara nokkra kaffibolla eða fær sér vatnsglas borgar það sig ekki fyrir þann sem rekur veitingastaðinn.

Við skulum róa okkur aðeins í því að taka öllu sem persónulegum árásum vegna þess að þarna var einfaldlega verið að benda vingjarnlega á það að þau bjóða upp á fundarherbergi til leigu og að það gengi ekki lengur að fólk sæti þarna án þess að versla veitingar. Við skulum passa okkur á því að hlaupa ekki upp til handa og fóta vegna kjaftasögu sem gripin er úr samhengi og passa okkur að sjá báðar hliðar málsins.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here