Mig hefur langað til að tjá mig um þessi mál í einhvern tíma núna og fann mér góðan vettvang til þess. Ég hef oftar en mér líkar lent í dónalegu fólki í þjónustustörfum og núna síðast í gær sá ég kassadömu í búð vera virkilega dónalega við konu sem augljóslega var fötluð eða með einhverskonar heilabilun.

Ég stóð í röðinni eins og allir aðrir og þá var kallað “næsti”. Næst í röðinni var kona sem stóð mjög nálægt kassanum en var greinilega ekki alveg að átta sig á því að hún væri næst eða var lengi að koma sér alveg að afgreiðsluborðinu. Í staðinn fyrir að segja við konuna “þú ert næst” hélt stúlkan á kassanum áfram að öskra “næsti” alveg þónokkrum sinnum þar til hún öskraði á konuna beint þannig að hún hrökklaðist að kassanum. Við sáum þá og áttuðum okkur á því, þrátt fyrir að standa í þónokkurri fjarlægð að konan sem var næst í röðinni átti við eitthvað vandamál að stríða. Hún var greinilega heyrnaskert vegna þess að hún talaði mjög hátt og svo var líklega eitthvað að líka, þetta var eldri kona.

Konan segir við afgreiðslustúlkuna sem var nú þegar farin að ranghvolfa augunum að hún ætli að fá kók í gleri (Við heyrðum ekki hvað það var sem hun vildi en föttuðum það þegar afgreiðslustúlkan loks náði í það). Afgreiðslustúlkan hreitir í gömlu konuna að hún geti bara náð í það sjálf, það sé í kælinum. Konan virtist ekki ná því og segir aftur að hún ætli að fá kók í gleri. Við í röðinni vorum farin að segja bara “hvað er í gangi” þannig að afgreiðslustúlkan heyrði líklega og fór loksins af stað, ranghvolfandi augunum og MJÖG pirruð að þurfa að labba nokkur skref og aðstoða konuna með kókið.

Konan var greinilega veik, líklega með heilabilun og þurfti aðstoð til að geta keypt sér kók í gleri, það var greinilega mikið mál fyrir konuna að ná í það en lítið mál fyrir afgreiðsludömuna og það tók hana nokkrar sekúndur. Hún var mjög pirruð og dónaleg við konuna og kom fram við hana eins og vitleysing. Við vitum ekkert af hverju það var erfitt fyrir konuna að sækja kókið sjálf, hvort það var vegna þess að hún einfaldlega skildi ekki að kókið var ekki sótt bakvið kassann eins og í gamla daga eða af því hún treysti sér ekki til að ná í það veit ég ekki en það er líklega einhver ástæða fyrir því að hún rölti ekki og sótti það sjálf og ég efast um að það sé leti.

Mér er í raun alveg sama hver á í hlut, mér finnst það bara ekki í lagi þegar afgreiðslufólk er dónalegt við fólk og það skín í gegn að það nennir svo sannarlega ekki að vera í vinnunni. Þetta er í þriðja skiptið síðustu daga sem ég hef séð eða lent í þessu. Ef þú getur ekki sýnt lágmarks kurteisi og finnst starfið þitt svona hræðilega leiðinlegt, finndu þér þá eitthvað annað að gera. Ég vorkenni fólki ekki neitt. Þetta er vinnan þeirra og það er alveg hægt að sinna henni vel.

Sýnum kurteisi og smá kærleika af og til, sérstaklega þegar um veikt fólk er að ræða. Það getur verið að fólkið biðji okkur um að gera hlut sem er virkilega erfiður fyrir þau að gera en auðvelt fyrir okkur. Það kostar engan að vera kurteis!

 

Reynslusögur má senda nafnlaust á thjodarsalin@hun.is

SHARE