Ég á mér draum – Hjúkrunarfræðingur vill mannsæmandi laun

Harpa Þöll skrifar grein á facebook síðu sína í dag sem hefur farið hratt á milli manna en hún óskar sér þess að fá mannsæmandi laun fyrir starf sitt sem hjúkrunarfræðingur.

Ég á mér draum. Reyndar er hann ekki svo óraunsær né það stórtækur að ég sé ekki fram á að uppfylla hann. Ég hef hingað til verið svo heppin að geta uppfyllt marga drauma mína en einn af þeim stærstu er enn óuppfylltur.
Ég hef alltaf átt mér stóra drauma, eins og flestir. Ég hafði tök á og getu til að fara í draumanámið mitt með draumafólkinu og dreymdi um að vinna draumavinnuna mína – hjúkrun. Af alúð og einlægni vildi ég aðstoða og leggja mitt af mörkum í samfélaginu, mennta mig, koma undir mig fótunum og stofna fjölskyldu. Í dag vinn ég við að lina þjáningar annarra og hlúa að og hjúkra veikum einstaklingum. Í starfi mínu tekst ég á við margar áskoranir. Ég ber ávallt hag sjúklinga minna fyrir brjósti, hjúkra þeim eftir bestu getu sama hvað á dynur, nótt sem dag og ég tel mig standa vaktina ágætlega.
Ég vinn á meðan aðrir sofa. Ég kemst ekki heim til fjölskyldu minnar fyrr en ég er fullviss um að ég skili skjólstæðingum mínum í öruggar hendur. Ég nærist ekki í 8 klukkutíma ef einhver þarfnast aðstoð mína. Ég sit við hlið deyjandi 3ja barna föðurs á meðan þú borðar hamborgarahrygg á aðfangadagskvöld. Ég kem of seint að sækja börnin mín á leikskólann því að bróðir þinn var að greinast með krabbamein og þurfti á mér að halda. Komin 36 vikur á leið stóð ég enn vaktina að nóttu til og aðstoðaði systur þína við að raka af sér hárið sem hún var byrjuð að missa vegna lyfjameðferðar. Ég stend ávallt vaktina ef þú eða þínir nánustu þurfa á mér að halda.
Ég elska vinnuna mína og nýt þess að gera það sem ég geri. Það eina sem ég fer fram á og dreymi um er að vera metin af verðleikum og að fá greidd mannsæmandi laun. Að ég hafi efni á kaupa kuldagalla handa börnunum mínum yfir veturinn, að ég geti sett bensín á bílinn minn, borgað húsaleigu og keypt góða kaffið með súkkulaði-möndlu bragðinu. Ekki fer ég til útlanda. Ég kaupi heldur ekki áskrift af Stöð 2 og ég á ekki iPhone. Ég hreinlega þarf þess ekki, en eftir að hafa lokið 4 árum í háskóla tel ég mig eiga rétt á því að geta staðið á eigin fótum um hver mánaðarmót án þess að bogna. Það að vera ekki öðrum háður fjárhagslega eiga ekki að vera forréttindi né óraunsær draumur hjá mér. Að þurfa að vinna 100% vaktavinnu, dag – kvöld og nótt, ásamt því að grípa eins margar aukavaktir og ég get til að geta staðið upprétt hver mánaðarmót finnst mér niðurlægjandi.

Í dag skilaði ég inn uppsagnarbréfi á Landspítalanum. Það var heldur ekki hluti af draumi mínum en nú er ég loksins vöknuð upp úr honum og ætla að vera samkvæm sjálfri mér og hafa trú á sjálfri mér. Ég er vel menntuð, góður starfskraftur og ég veit að ég er meira virði en þetta. Það að ég þurfi að bæta við mig sérmenntun og helst á öðrum vettvangi til að geta séð fyrir börnum mínum gerir mig sorgmædda. Því ég elska vinnuna mína. Hinsvegar er mér nóg boðið og set nú sjálfa mig í fyrsta sæti.
Mig dreymir enn um að geta staðið vaktina fyrir Íslendinga og verið til staðar fyrir þig þegar þú þarft á mér að halda. En fyrst ég er nánast að vinna sjálfboðavinnu á annað borð get ég alveg eins farið út fyrir landssteinana þar sem ég veit fyrir víst að ég verð metin að verðleikum og get skoðað heiminn í leiðinni.

Þá kæmist ég kannski líka á bak á fíl – sem er annar og minni draumur.

– Harpa Þöll Gísladóttir
Hjúkrunarfræðingur

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here