Ég brást barninu mínu – Þjóðarsálin

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

———————–

Það eru blendnar tilfinningar að skrifa niður á blað að mér líði eins og ég sé að bregðast barninu mínu.
Ég var 19 ára þegar ég varð ólétt og það var mikil gleði, það var ekki slys og ég vissi að þetta var eitthvað sem mig langaði að gera. Að verða mamma var eitthvað sem mig dreymdi um að verða og ég hafði alltaf verið voðalega mikil mamma í mér.

Nú 5 árum seinna stend ég frammi fyrir því að ráða ekkert við litla barnið mitt.

Ég eignaðist yndislegan strák eftir góða meðgöngu og fyrstu mánuðirnir voru alveg æðislegir. Hann fór svo að sína smá hegðunarvandamál þegar hann byrjar á leikskóla.  Við foreldrarnir ákváðum að fá aðstoð leikskólans og óskuðum eftir að drengurinn yrði sendur í greiningu vegna ADHD og ofvirkni. Hann hefur farið hratt versnandi í hegðun síðustu mánuði og kom í ljós nýlega að hann er bæði með ADHD og ofvirkni.

Breyttar aðstæður

Það eru mikið breyttar aðstæður hjá okkur öllum í dag.  Ég og pabbi hans ákváðum að fara í sitthvora áttina og þar að leiðandi flutti ég út af okkar gamla heimili. Ég og pabbi hans gerðum þetta í sátt og samlyndi og ekki nein kergja okkar á milli.  Við ákváðum að drengurinn væri aðra hverja viku til skiptis hjá okkur.  Það er því miður ekki að leggjast nægilega vel í litla strákinn okkar og virðist sem hann sé ekki að ráða almennilega við aðstæðurnar. Honum finnst eins og mamma sín hafi yfirgefið sig. Hann skilur ekkert í því að mamma skuli ekki vera heim hjá honum og pabba alla daga alltaf.  Hann þverneitar að koma til mín þegar mín vika er.

Hvað gerir maður þegar að barnið manns segist vilja drepa?

Í gær þegar ég var að koma honum í háttinn og lá við hliðina á honum að strjúka honum, þá argaði hann og gargaði á mig hvað hann vildi drepa mig og að mamma ætti að fara, mamma væri vond, mamma væri ljót og að hann vildi ekki eiga mömmu. Bara við það að skrifa þetta fæ ég tár í augun. Hvað varð um litla strákinn minn sem sagðist elska mig og vildi að mamma svæfi í sínu rúmi og að mamma væri besti vinur sinn?
Ég er svo uppfull af fordómum gagnvart mæðrum sem skilja við börnin sín og mæðrum sem virðast ekki geta hugsað um börnin sín að mér finnst mér vera að mistakast í einu af mikilvægasta hlutverki sem mér hefur verið falið.  Barnið mitt er að afneita mér, barnið mitt vill mig ekki, barnið mitt sem ég gekk með og passaði í 9 mánuði inn í mér er búið að snúa bakinu við mér.

Draumurinn um að eiga barn varð skyndilega að minni verstu martröð.

SHARE