Ég er að koma heim!

Þegar þessi orð eru rituð eru liðnir heilir 777 dagar síðan ég fluttist frá Íslandi. Settist gleiðfeitt upp í flugvél á vegum Icelandair, vopnuð Rassa, sem þá var ekki orðinn heillra þriggja ára gamall og undraði mig á því að almenning virtist skipta þó ég væri að yfirgefa land og þjóð.

Á þessari stundu eru heilir 18.665 klukkutímar frá lendingu okkar Rassa í Osló og 1.119.343 mínútur frá því að við gengum út í 18 stiga gaddinn í Noregi, undrandi á svip, með fjórar ferðatöskur í eftirdragi og glitrandi tár á hvarmi.

Já, já. Þeir hafa verið litríkir þessir dagar sem við höfum eytt í útlandinu, við Rassi. Fótgangandi, vaðandi milli lesta, veiðandi bílferðir, höktandi með gotterí í poka og glott á vör. Ægilega uppnumin yfir því að vera loks komin á meginlandið og hlæjandi stórkarlalegum hlátri í ævintýraskóginum sem við höfum slegið ótvíræðu eignarhaldi á.

Og nú er stóra stundin runnin upp; við erum á leið í okkar alfyrstu heimsókn til föðurlandsins eftir að leiðir okkar og fóstjarðarinnar skildu. Tvær vikur í landi íss og elda eru að renna upp. Ég stíg brátt fæti á Keflavíkurflugvöll, geng galvösk gegnum Fríhöfnina og mæli á norskuskotinni íslensku við barnið, sem er við það að gleyma frumtungunni, íslensku máli; öllu sem heilagt er.

Framundan eru kaup á gjaldeyri, æsispennandi ferðalag út á Gardemoen flugvöll í skjóli nætur, taugaveiklunarkippir yfir troðfullri ferðatösku, síðasta kvöldmáltíðin heima fyrir og óyfirstíganlegur ótti við að missa af fluginu sem færir okkur veröldina að dyrum; leiðina sem liggur heim.

Auðvitað hef ég meðtekið öll varúðarorðin sem fráfluttir hafa látið falla undanfarnar vikur.

– Ekki gefa neinum upp komu- og brottfarardag.

– Settu fjölskylduna í forgang.

– Vertu vopnuð dagbók og notaðu hana viturlega.

– Taktu þér einn eða tvo daga í að gera nákvæmlega ekki neitt.

– Gættu þín á verðlaginu …

Svo varkár hef ég verið undanfarnar vikur að ég hef þagað þunnu hljóði, afneitað þeirri staðreynd með öllu að ég er á heimleið og gott ef ég gleymdi ekki stundarkorn að ég ætti ferðalagið framundan; svo einlæglega óttaðist ég að ferðafólk sem heimamenn myndu flykkjast í Leifsstöð og við Rassi yrðum jafnvel fótum troðin við komuhlið, kaffærð í blómvöndum og borin ofurliði af fjarskyldum ættingjum sem kunningjum sem ég hef ekki átt samtöl við um árabil.

Ég, magnþrungin á svip, myndi að sjálfsögðu stefna beint í Spakmannsspjarir og stúdera íslenska hátísku, húðskamma forsætisráðherra fyrir að leka gróðasjónarmiðum íslensku ríkisstjórnarinnar í heimspressuna og svo tæki ég stefnuna á LÍN: Ótrauð og svona af því bara. Vera í takt við tíðarandann.

*kvenlegir móðursýkiskippir*

En svona í fullri alvöru, gott fólk. Ég hef ekkert erindi til LÍN, hef voða lítinn áhuga á forsætisráðherra (Sorry, Sigmundur. Ég meina vel.) og er alltof efnalítil til að versla fatnað í íslenskum hátískuverslunum.

Í raun er það nefnilega bara eitt sem skiptir máli í þessu lífi. Og það eru þeir einstaklingar sem okkur standa næst. Börnin mín, báðir foreldrar, systkini og svo þeir litríku persónuleikar sem ég hef tengst órjúfanlegum vináttuböndum. Tvær litlar vikur, fjórtán fjaðurmagnaðir dagar, fliss og fáránlega skemmtilegt kaffibollaslúður. Ég og þú. Staðsett á litlu eyjunni í norðri. Falleg augnablik. Og nokkur þeirra fest á filmu.

Elsku mamma! Sjáumst í Leifsstöð! Ég er að koma heim!



SHARE