Ég var dæmd til að vera feit

Alla mína ævi hef ég barist við fitufordóma. Ég hef verið beðin um að grenna mig, kölluð feit og sem krakka var mér mikið strítt vegna líkama míns.
Á unglingsárunum fannst mér ég vera að springa úr fitu. Ég var 55 kg og 13 ára var ég komin í megrun, át Herbalife og fór í sund á hverjum degi, stundum meira að segja tvisvar á dag. Það gekk samt ekkert að verða mjó því undirmeðvitundin mín trúði því statt og stöðugt að ég væri feit og reglulega gafst ég upp á Herbalife-inu og fékk hina svokölluðu átu. Þá át ég allt sem tönn á festi og helst kalóríubombur sem ég skolaði niður með glasi af kóki.

CurvychickaroundskinnygirlsFeiti unglingurinn ég. Þarna fannst mér ég vera að springa.

Á endanum gafst ég upp á að passa mig. Ég var bara dæmd til þess að vera feit allt mitt líf og ég hreinlega nennti ekki að hugsa stöðugt um þetta.
Ég fór að fitna meira og meira og eftir því sem árin liðu bættust kílóin á mig.

Svo gerðist það sem breytti öllu, ég varð ólétt og eignaðist litla dóttur.
Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir því að hún feita ég væri að deyja úr fitufordómum. Ég áttaði mig á því að ef ég myndi ekki breyta hugsunarhætti mínum myndi dóttir mín læra að hugsa eins og ég og það vildi ég alls ekki.

Ég ákvað að kenna  dóttur minni að elska sjálfa sig og til þess að ég gæti kennt henni það yrði ég að sættast við líkama minn, hætta að rífa sjálfa mig niður og sætta mig við hvernig ég lít út. Ég yrði að sjá til þess að hún hefði góða fyrirmynd hvað þetta varðaði og passa mig á því hvernig ég talaði fyrir framan hana og hvernig ég hegðaði mér.

Í staðinn fyrir að fara í stíft aðhald og komast í kjólinn fyrir jólinn keypti ég kjól í réttri stærð.
Í staðinn fyrir að klæðast pokalegum fötum til þess að fela líkamann minn fór ég að klæða mig eftir vexti.
Og í staðin fyrir að rífa sjálfa mig niður fór ég að hugsa um það hversu vel ég liti út í dag og hvað ég væri með töff hár eða flott augu.

heidrunfinns1Ég fór í myndatöku til þess að sýna sjálfri mér að ég gæti alveg verið falleg. Ég bað um að vera ekkert photoshoppuð – Mynd: Bragi Kort

Ég hætti að horfa á allt sem mér fannst gallað við sjálfa mig og fór að horfa á allt sem mér finnst gott við líkamann minn. Það var rosalega erfitt í fyrstu en nú get ég talið upp nokkra hluti sem ég er sátt við.

Eftir að ég tók þessa ákvörðun hef ég fundið hversu mikið betra sjálfsálitið mitt er . Ég veit að ég á enn langt í land en ég er allavega ekki lengur feit, ég er bara mjúk og kynferðislega kosý.

 

SHARE