„Ég var orðin virkilega örvæntingarfull“ – Af hverju virkar OA?

Photo by Kittikun

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Áður en ég kom í OA var ég alveg með það á hreinu hvernig ég þurfti og vildi breyta mínu mataræði. En af hverju í ósköpunum var ég búin að vera með það á hreinu í öll þessi ár, án þess að nokkuð gerðist? (nema kannski í mjög stuttan tíma)

– Ég ætlaði alltaf að byrja á morgun.
Svo á morgun mundi ég að það var veisla á komandi helgi, þar sem ég vissi að það yrði rosa gott kaffimeðlæti í boði.

– Best að byrja á mánudaginn.
Á mánudaginn kom svo samstarfsmaður úr utanlandsferð og fyllti allar skálar á vinnustaðnum af uppáhalds namminu mínu úr fríhöfninni.

– Best að byrja á morgunn.
Daginn eftir mundi ég eftir krefjandi verkefni sem ég þurfti að skila af mér á laugardaginn, – og mér hafði tekist að fullvissa sjálfa mig um að krefjandi verkefni gæti ég ekki unnið nema með 200 gr af súkkulaði með hverjum kaffibolla.

– Best að byrja næsta mánudag.

Þannig liður vikurnar, mánuðirnir, árin. Og öll þessi kvöld – kvöldin áður en fögru fyrirheitin áttu að smella í gírinn – gúffaði ég í mig eins og brjálæðingur, því þetta átti að vera í síðasta sinn.
Þessi sömu kvöld reif ég sjálfa mig niður fyrir að vera ekki að tækla þetta. Af hverju þurfti ég að vera svona ferlega ferleg?

Ég var því orðin virkilega örvæntingarfull þegar ég mætti á minn fyrsta OA-fund.
En af því ég þóttist viss um að þetta væri „Síðasti bærinn í dalnum“, eini möguleikinn sem ég átti eftir í lífinu til að hætta að borða sætindi, hætta að narta stöðugt milli mála o.s.frv., þá held ég hreinlega að það hafi verið eitthvað innra með mér sem ÁKVAÐ að þetta mundi virka.

Og það virkaði – og virkar enn, þónokkrum árum seinna. Enn þann dag í dag get ég ekki útskýrt vísindalega hvernig OA virkar. Ég get heldur ekki útskýrt hvernig farsíminn minn virkar. Í raun og veru finnst mér það alveg fáránlegt að ég skuli geta borið þetta litla tæki að eyranu og heyrt hvað þeir sem ég vil heyra í eru að segja nákvæmlega núna, hvar sem þeir eru á hnettinum. Þ.e. EF ÉG ÝTI Á RÉTTU TAKKANA. Þess vegna nota ég farsímann minn, mér til þæginda og aukinna lífsgæða og nenni ekkert að pæla í því hvernig í ósköpunum hann fer að því að virka. Ég bara nota hann.

Ég nota líka OA.
Af því ég veit að það virkar, ef ég „ýti á réttu takkana“.

En hverjir eru þá þessir réttu takkar?
Jú, aðaltakkinn er sá að ég þarf að vera tilbúin til að leggja mínar eigin hugmyndir til hliðar – ekki síst hugmyndina um að ég geti þetta ein og sjálf, ákveða að taka mark á því sem mér er ráðlagt og trúa því að þetta virki.

Það eru ekki allir jafn heppnir og ég, að geta ákveðið strax á fyrsta fundi að í OA felist einhver meiri háttar leyndardómur sem fær þig til að hætta sætindaáti og narti um leið og þessum fyrsta fundi lýkur. Sumir samt.

Hjá flestum er ferlið nokkurn vegin svona:
* Þú mætir á þinn fyrsta fund, vonar að þú þekkir engan, vilt helst hverfa undir stól eða út um glugga og finnst við hálf-skrýtin. Tengir samt við ótrúlega margt af því sem við segjum og ákveður að koma aftur, af því einhver okkar sagði að það væri þess virði að gefa þessu séns í 5-6 fundi og ákveða svo hvort þetta hentar þér.
* Á 5.-7. fundi spottarðu út ákveðna manneskju (af sama kyni) sem þú ert búin að tengja dáldið mikið við. Þú skráir símanúmerið hennar upp úr númerabókinni sem gengur hringinn, hringir í hana og biður hana að vera trúnaðarmaðurinn þinn.
* Þið farið í 12 spora vinnuna og á ákveðnum stað í henni fattarðu að þó þú sért kannski áhugalaus um öll trúarbrögð og jafnvel virkilega andsnúinn öllu guðatali, þá geturðu ákveðið að það sé til einhver æðri máttur, sem getur sitthvað sem þú getur ekki. Stundum er þetta bara spurning um ákvörðun, eða „fake it till you make it“.
* Fljótlega, – jafnvel strax á fyrsta fundi – finnurðu fyrir löngun til að fara í fráhald.
– Fráhald þýðir að þú ákveður að halda þér frá fæðutegundum og neysluvenjum sem æsa upp í þér matarfíknina. Hvað þú ætlar að borða, hvenær og hversu mikið ákveður þú algjörlega sjálf eða í samráði við trúnaðarmann.
– Og ef þú sendir trúnaðarmanni matarplan, einn dag í einu – og skuldbindur þig til að fara eftir þessu plani, þá gengur það upp.

Hvers vegna ætti það svo sem að ganga upp, fyrst öll matarplönin sem þú gerðir fyrir OA gengu ekki upp? Jú, vegna þess að við matarfíklar ráðum ekki við þetta hjálparlaust. Við þurfum að blanda æðri mætti og öðrum OA-félaga í málið. En þá líka svínvirkar þetta. Eins og farsíminn.

Og erum við þar með útskrifuð? Nei reyndar ekki. Þetta er ævilangur sjúkdómur, sem ekki er hægt að lækna, en hægt er að halda algjörlega í skefjum með kerfi OA. Einn dag í einu.

Og lifa glöð, hamingjusöm og frjáls.
Ég hefði ekki getað trúað því fyrr en ég tók á því, en þegar ég skuldbind mig til að fara eftir matarplani, þá upplifi ég mig ótrúlega frjálsa. Kannski af því að þá er ég ekkert að hugsa um mat og kannski af því þá vantar mig sektarkenndina, niðurrifsstarfsemina og ömurlega sjálfsálitið. Og það sem meira er; ég hef alveg ótrúlega góða orku og einbeitingu.

Ég sem var þess fullviss að ég gæti ekki einbeitt mér að neinu, ekki einu sinni sjónvarpinu eða dagblöðunum, nema ég væri stöðugt með eitthvað í munninum. Enda er það fáránlegur misskilningur að mikill eða orkuríkur (hitaeiningaríkur) matur gefi okkur extra orku.
Ég þarf sko ekki að sjá eftir þessum litla og góða tíma sem fer í OA-prógrammið. Því tíminn sem ég græði við að vera í prógrammi og þar með talið fráhaldi, er svo miklu meiri.

Já, það er erfitt að rökstyðja hvernig OA-prógrammið virkar. En þú kemst að því ef þú mætir á fundi og lærir að „ýta á réttu takkana“.Ég VEIT að það virkar – og mig langar svo sannarlega að sem flestir matarfíklar finni gleðina, frelsið og hamingjuna sem prógrammið gefur. – Og ekki sakar að losna við uppsöfnuð aukakíló í leiðinni. Við leggjum okkur fram um að taka vel á móti nýliðum og gestum. Reynum að vera elskuleg en ekki uppáþrengjandi.

Skrá yfir fundartíma og fundarstaði finnurðu á oa.is

—————

OA sjálfsprófið

Eftirfarandi spurningar gætu hjálpað þér að finna út úr því hvort þú eigir við matarfíkn að stríða.

  1. Borðar þú þegar þú ert ekki svangur/svöng?
  2. Heldur þú áfram að borða óhóflega án þess að kunna á því skýringar?
  3. Finnur þú til sektar og eftirsjár þegar þú hefur borðað yfir þig?
  4. Eyðir þú miklum tíma og hugsun í mat?
  5. Hugsar þú með ánægju og tilhökkun til þeirrar stundar þegar þú getur borðað ein/n?
  6. Skipuleggur þú þetta leynilega át þitt fyrirfram?
  7. Borðar þú í hófi innan um fólk; en bætir þér það upp eftir á?
  8. Hefur þyngd þín áhrif á það hvernig þú lifir lífinu?
  9. Hefur þú reynt megrun í viku eða lengur á þess að ná tilsettu marki?
  10. Gremst þér það þegar aðrir segja við þig: “Sýndu nú svolítinn viljastyrk til að hætta að borða yfir þig?”
  11. Ertu enn á þeirri skoðun, þrátt fyrir að dæmin sýni annað, að þú getir farið í megrun “..á eigin spýtur..” hvenær sem þú vilt?
  12. Finnur þú sterka löngun til að borða mat á einhverjum tilteknum tíma sólarhringsins sem ekki er matmálstími?
  13. Borðar þú til að flýja áhyggjur og vandræði?
  14. Hefur þú leitað meðferðar vegna ofáts eða vanda sem tengist mat?
  15. Valda átsiðir þínir þér eða öðrum óhamingju?

Svaraðir þú þremur eða fleirum af þessum spurningum játandi?
Ef svo er, eru líkur á að þú sért á góðri leið með að eiga í vanda með matarfíkn (eða hömlulaust át). Við höfum komist að því að hægt er að ná bata við þessum sjúkdómi með því að stunda 12 spora kerfi OA samtakanna.

SHARE