ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

———————— 

Fæðumst við sem karl eða kona eða mótar samfélagið í kringum okkur sem karl eða konu? Þetta er spurning sem margir spyrja sig.

Ákveðin samsetning svokallaðra kynlitninga ákvarðar í flestum tilfellum hvort við erum líffræðilega karl eða kona. XX kynlitningapar fyrir konur og XY kynlitningapar fyrir karlana. Þessir litningar móta á og í líkama okkar kynfæri og hafa áhrif á samsetningu hormóna sem svo hafa áhrif á kynþroska og að sumra mati ráða þessi litningapör hegðun okkar þegar við verðum eldri.

En hafa þessir litningar áhrif á hvað okkur þykir gaman af í lífinu? Ef karlar eru með XY litningapar þýðir það þá að þeim finnst gaman að vinna úti, fara út á sjó, spila fótbolta eða tölvuleiki og kveikir litningaparið áhuga á bílum? Ef konur eru með XX litningapar þýðir það þá að þeim finnst gaman að vinna inni, elda, þrífa, sjá um börn og er það XX litningaparið sem fær konur til að greiða á sér hárið og nota farða?
Þar sem þessir litningar skilgreina okkur sem karl eða konu, skilgreina þeir þá líka hvað við viljum gera í lífinu? Ef kyn væri eingöngu líffræðilegt væru þá ekki allar konur eins í öllum samfélögum? Hvers vegna eru þá sumir samkynhneigðir, telja sig fædda í röngum líkama eða vilja vera kynlausir? Er þá kannski samfélagið áhrifaþáttur og kannski stærri áhrifaþáttur en litningaparið sem ákvarðar líffræðilegt kyn okkar? Hver sýnir okkur hvernig á að hegða sér og hvaðan koma hugmyndir um hvað er viðeigandi fyrir kvenkyns eða karlkyns manneskju?

Að vera strákur eða stelpa er kennt, leynt og ljóst, alveg frá því að við fæðumst. Komið er fram við kynin á ólíkan hátt og það er búist við mismunandi hlutum frá þeim. Kynjamisrétti sprettur úr þeirri mótun á kynhlutverkum sem er byggð á kynjuðum væntingum og kynjaðri framkomu. Sumir halda að bleikt og blátt fataval sé vandamálið en það er rangt. Framkoma okkar við bleikt og blátt og hegðum okkar í kringum þau er vandamálið. Gott dæmi er fólk á eyju sem tilheyrir Nýju-Gíneu en þar eru ekki til þessir tveir litir til að sundurgreina kynin. Þar eru samt strákar og stelpur sem eru mótuð í og kennd þau kynhlutverk sem fylgja því að vera strákur eða stelpa. Pælið í þessu næst þegar þið hrósið litlum strák fyrir að vera sterkur og hraustur og lítilli stelpu fyrir að vera sæt og fín, að þrátt fyrir allt er eini munurinn á okkur þessi litningapör.

SHARE