Í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli Ástgeirs Ólafssonar, Ása í Bæ, 27. febrúar næstkomandi, er blásið til sannkallaðrar gleði- og tónlistarveislu í Eldborgarsal Hörpu, 8. febrúar 2014.  Ása í Bæ þarf ekki að kynna fyrir nokkrum Eyjamanni, enda fer þar eitt þekktasta skáld Eyjanna fyrr og síðar.  En hann var ekki bara frábær textasmiður, heldur einnig nokkuð lunkinn lagasmiður og sum laga Ása eru landsþekkt.  Þessi lög og nokkur önnur, sem hann gerði texta við, verða flutt í Hörpu og rifjaðar upp skemmtilegar sögur af þessum mikla listamanni og lífskúnstner.

Árið 2014 verða einnig 140 ár liðin frá fyrstu Þjóðhátíð Vestmannaeyja.  Við rifjum upp söguna og flytjum mörg af þekktustu lögunum sem við kennum við þessa stærstu og flottustu fjölskylduhátíð landsins og þá langstærstu í heiminum miðað við höfðatölu.
Fjöldi listamanna kemur að þessum gleðitónleikum:  Pálmi Gunnarsson, Guðrún Gunnars, Sigga  Beinteins, Eyþór Ingi, Ingó, Kristján Gísla, Sólveig Unnur Ragnarsdóttir, Silja Elsabet Brynjarsdóttir, Sunna Guðaugsdóttir, Alexander Jarl Þorsteinsson, Alma Rut og Ína Valgerður, ásamt Blítt og létt hópnum úr Eyjum og Lúðrasveit Vestmannaeyja.  Hljómsveitin Heimaslóð mun sjá um undirleikinn og hana skipa Birgir Nielsen Þórsson, Eiður Arnarsson, Jón Elvar Hafsteinsson, Matti Kallio, Sigurður Flosason, Kjartan Hákonarson og hljómsveitarstjórinn Þórir Úlfarsson.

Það verður því mikið líf og mikil stemning á sviði Eldborgar þegar lög Ása í Bæ og úrval Þjóðhátíðarlaga Vestmannaeyja verða flutt þar þann 8.febrúar næstkomandi.

Miðasala er hafin á harpa.is og midi.is og um að gera að tryggja þér besta sætið í salnum.

SHARE