Fæðingasaga – Elín Rut

Fæðing Elínar Rutar:

Meðgangan gekk mjög vel fyrir utan mikinn kvíða og ótta sem ég upplifði.
Ég var alltaf hrædd um að eitthvað myndi koma fyrir litla barnið mitt, það myndi deyja eða eða eitthvað mikið yrði að því. En það leit alltaf allt vel út í öllum mæðraskoðunum.
Í janúar fór blóðþrýstingurinn að hækka og föstudaginn 20.janúar fór ég upp á kvennadeild á Dagönn þar sem ég þurfti að vera í mónítor og láta mæla blóðþrýstinginn með reglulegu millibili í 2 klukkutíma. Þegar ég var laus úr mónótornum kom Sigrún fæðingarlæknir og vildi fá að skoða mig aðeins. Þarna var ég gengin 38v og 4d, var sett 30.janúar. Þegar Sigrún þreifaði leghálsinn en varð hún frekar hissa og sagði að ég væri komin með 3 í útvíkkun. Hún hreyfði við belgnum og sagði að ef ekkert myndi gerast yfir helgina þá ætti ég að koma aftur á mánudagsmorgun í skoðun og fengi sennilega tíma í þeirri viku í gangsetningu. Ég var eiginlega mjög fegin þar sem ég var orðin mjög þreytt og þjáð. Ég fór heim og var í hvíld alla helgina.
Slímtappinn fór á föstudagskvöldinu og samdrættirnir og verkirnir jukust yfir helgina en ekkert meira gerðist. Ég hafði verið með mikla verki og samdrætti síðan á aðfangadag.
Ég mætti svo upp á kvennadeild á mánudag í mónítor og smá skoðun og fékk að vita að ég ætti að koma á miðvikudagskvöldið kl 20 og fá stíla til að fara af stað.
Fæðingarlæknum og ljósmæðrum bar saman um að það væri bara best að setja mig af stað í staðinn fyrir að setja mig á blóðþrýstingslyf í nokkra daga. Ég og maðurinn minn mættum svo upp á fæðingardeild á miðvikudagskvöldinu 25.janúar. Þegar ljósan ætlaði svo að fara að setja stílana upp ákvað hún að skoða mig fyrst. Hún varð frekar hissa og sagði að ég væri komin með 4 í útvíkkun og orðin hagstæð fyrir belgrof. Hún sagði okkur að fara bara heim og hvíla okkur vel og koma svo upp á deild kl 8 um morguninn og þá yrði belgurinn sprengdur.
Við vorum komin rétt fyrir kl 8 upp á fæðingardeild fimmtudaginn 26.janúar.
Guðríður ljósmóðir tók á móti okkur og vísaði okkur inn á fæðingarstofuna okkar.
Stuttu seinna kom besta vinkona mín sem var með okkur í gegnum þetta dásamlega ferli. Ég skipti um föt, fór í hlýrabol og flottustu netanærbuxur sem ég hef séð (eða þannig) og fékk bindi. Svo kom Guðríður og sprengdi belginn. Hún sagði okkur að það gætu liðið alveg tveir tímar þangað til eitthvað færi að gerast.
Kl 8:40 komu fyrstu verkirnir, þeir voru ekkert svo slæmir og ég nýtti mér haföndunina, hossaði mér á bolta og hékk á manninum mínum til að komast í gegnum þetta. En fljótlega fóru hríðarnar að versna. Ég ákvað þá að prófa nálastungur, það virkaði ekki nógu vel svo ég bað um að fá að fara í bað.
Það sló örlítið á verkina. En fljótlega urðu hríðarnar mjög sárar og samdrættirnir svo harðir svo ég dreif mig upp úr. Ég lét ljósuna taka nálarnar úr og lét manninn minn nudda mig.
Hann ýtti svo á mjóbakið á mér og ég kreisti hendurnar á vinkonu minni í hríðunum.
Verkirnir héldu áfram að versna og versna. Ég svitnaði heilann helling af sársauka, rúmið var gjörsamlega á floti og það var ekki þurr þráður á mér. Nú var ég farin að fá einungis 30 sekúnda pásu í mesta lagi milli hríða. Ég var að missa tökin á önduninni og hvernig sem Robbi reyndi að hjálpa mér til baka þá tókst það ekki. Kl 10:30 gafst ég upp og bað um mænudeyfingu.
Fyrst kom ungur svæfingalæknir og reyndi að setja upp legginn fyrir mænudeyfinguna. Þegar hann var búinn að stinga mig þrisvar sinnum gargaði ég á hann að ég vildi fá annan og bað hann að flýta sér. Stuttu seinna kom sérfræðingur/svæfingalæknir, eldri maður, sem gerði þetta á núll einni. HALLELÚJA þegar deyfingin fór loks að virka. Hefði getað kysst svæfingalækninn. Hann var sko klárlega besti vinur minn á þeirri stundu.
Ég var orðin svo þreytt og Guðríður ljósmóðir sagði að það væri vegna þess hversu harðar hríðarnar væri og hversu stutta hvíld ég fengi á milli þeirra.
Kl 12:20 skoðaði ljósan mig og þá var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja að rembast. Maðurinn minn og vinkona mín hvöttu mig óspart áfram. En eitthvað gekk illa að koma blessuðu barninu út, kollurinn gægðist alltaf en seig svo aftur til baka. Ég prófaði ýmsar stellingar.
Prófaði að fara á fjórar fætur, liggja á hliðinni, sitja á hækjum mér, en ekkert gekk.
Kl 13:15 kallaði ljósan til sérfræðing sem kom og skoðið mig. Hún tók blóðprufu úr kollinum og þá kom í ljós að það voru farin að koma fram streitumerki hjá barninu.
Þarna var maðurinn minn orðinn ansi pirraður því hann sá að ég var orðin uppgefin og fjólublá í framan eftir rembinginn. Hann sagði við ljósuna að hann væri handviss um að barnið væri svona höfuðstórt. Hann hefði sjálfur verið höfuðstór, ég hefði verið höfuðstór og sonur hans hefði verið höfuðstór og hefði verið tekin með sogklukku. Hann sagði að þær yrðu að hjálpa mér við þetta því ég gæti bara ekki meir. Það varð úr að sérfræðingurinn fór og sótti létta sogklukku og fæðingarlæknir var kallaður til.
Þær ákváðu að klippa mig til að koma í veg fyrir að ég rifnaði. Þegar kollurinn gægðist næst skellti sérfræðingurinn sogklukkunni á, sagði við mig að grípa fast í hendurnar á manninum mínum og vinkonu og spyrna duglega í mjöðmina á ljósunni og gefa allt í næsta rembing. Ég gerði mig klára, dró andann djúpt og greip svo fast í manninn minn og vinkonu mína, að ég var handviss um að ég hefði brákað hendurnar á þeim, og setti þá litlu orku sem ég átti eftir í rembinginn.
Sérfræðingurinn pumpaði sogklukkuna og togaði aðeins í og þá loksins kl 13:46 skaust lítil yndisleg dama í heiminn. Falleg og algjörlega fullkomin.
Ég fékk hana strax upp á magann og þegar það var hætt að púlsa í naflastrengnum klippti maðurinn minn á hann. Þá færði ljósan litlu dömuna alveg upp á brjóstið og hún tók brjóstið strax og saug ákaft. Svona lágum við saman meðan sérfræðingurinn saumaði mig saman.
Allt ferlið tók 5 klst og 3 korter, frá því að belgurinn var sprengdur og þangað til litla yndislega daman okkar fæddist. Hún mældist 3650gr og 50cm og höfuðmálið var 38cm. Við fórum svo yfir í Hreiðrið á eftir og sváfum þar um nóttina.
Ég var mjög sátt við allt fæðingarferlið og ánægð að hafa þó getað fætt hana þó ég hafi þurft smá aðstoð. Var líka afskaplega ánægð með alla þjónustu á fæðingardeildinni og ljósan okkar hún Guðríður var yndisleg og virti allar okkar óskir og þarfir.


Hérna er fallega daman í ömmufangi.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here