Hver hefur ekki gaman af því að lesa fæðingasögur og ferlið í kringum það, allavega get ég legið yfir sögunum, tárast og hlegið.
Vona að þið hafið eins gaman af þeim en ég ætla að birta nýja fæðingasögu í hverri viku.
Mæli sérstaklega með ófrískum konum að lesa fæðingasögur annarra því engin fæðing er eins og við getum lært helling
og undirbúið okkur helling með því að lesa sögur annarra einnig er sniðugt fyrir verðandi feður og karlmenn almennt að kynna sér hvernig ferlið virkar.
Hvernig verkirnir geta verið og þess háttar.

Hér kemur fyrsta sagan sem er dásamlega falleg.

Meðgangan gekk eins og í sögu hjá mér, mér leið rosalega vel andlega og líkamlega og við hjúin að springa úr hamingju og tilhlökkun allan tímann.
Þegar ég var gengin 35 vikur fór ég að fá bjúg sem átti bara eftir að aukast, en það var ekkert sem háði mér.

Laugardagskvöldið 9. júní, á settum degi fór ég að finna fyrir reglulegum samdráttum með túrverkjaseiðingi og ákváðum við að skella í síðustu bumbumyndina.
Við fórum í rúmið um miðnætti og þar lágum við vakandi næstu 4 tímana, ég náði engan vegin að koma mér vel fyrir og fannst allar stellingar óþægilegar. Ég gafst upp á því að bylta mér og fór fram í stofu í klukkutíma þar sem ég tók tímann á milli samdrátta því þeir voru orðnir mjög reglulegir en án allra verkja svo ég ákvað að gera aðra tilraun og ná einhverjum svefni. Náði að sofna um 5:30 og vaknaði síðan á slaginu 7 við það að ég vera að missa vatnið!!

Ég pikkaði í Silla og vakti hann með nákvæmlega þessum orðum: Silli, ég er að missa vatnið. Afskaplega róleg og ekkert að stressa mig. Honum brá aðeins og stökk á fætur og aðstoðaði mig fram úr rúminu og ég rölti inn á bað með slóðina á eftir mér og sat ábyggilega á klósettinu í hálftíma á meðan vatni var að fara smátt og smátt. Síðan hringdi ég upp á fæðingardeild og lét vita af mér, að ég væri búin að missa vatnið en væri ekki komin með neina verki ennþá. Ljósmóðirin sem ég talaði við sagði mér að taka því bara rólega heima þangað til ég færi að finna einhverja verki og slaka vel á. Ég gerði það, og fór að finna fyrir verkjum um 8:30 og ákvað þá að fara upp á deild. Við vorum komin þangað um 9 leitið og tók á móti mér yndisleg ljósmóðir sem skoðaði mig bak og fyrir. Ég var þá komin með mjög reglulega samdrætti og allt leit rosalega vel út. Um klukkan 10:30 fórum við svo á fæðingarstofuna þar sem ég kom mér vel fyrir og fékk mér smá að borða. Klukkan 11 voru verkirnir orðnir óbærilegir og ég ákvað að skella mér ofan í baðið þar sem ég var búin að ákveða að fæða þar ofan í. Það var rosalega gott að vera í baðinu þegar hríðirnar voru sem verstar, ég gat hreyft mig vel um og slakað ágætlega á. Glaðloftið hjálpaði mér einnig rosalega í gegnum hríðarnar (svo var það líka bara svo skemmtilegt haha).
Kl. 14:30 var ég komin með nóg af baðinu og þurfti að komast uppúr. Silli leiddi mig um svo ég gæti labbað og hreyft mig aðeins. Svo ákváðum við ljósmóðirin að ég skildi prófa að leggjast á bekkinn þar sem ég vildi ekki fara aftur ofan í baðið. Ég var orðin rosalega þreytt og fannst ég gjörsamlega búin á því og ákvað að biðja um mænudeyfingu. (var búin að ákveða að fæða í baðinu og án verkjalyfja). Mænudeyfingin var komin í kl. 15 og farin að virka um 20 mín. seinna og þá leið mér svo miklu betur. Um 15:30 byrjaði svo rembingurinn og þá var deyfingin farin að virka, svo ég fann ekki mikla verki, nema bara rosalega þrýsting niður. Kl. 16 fékk ég dripp þar sem útvíkkunin stóð í stað. Eftir rúmlega einn og hálfan tíma í rembing þá tilkynnti ljósmóðirin mér það að hún þyrfti að klippa aðeins í spöngina til að koma hausnum út. Ég var með 9 í útvíkkun allan þennan tíma og rosalega lengi að koma hausnum út, svo hún ákvað að klippa þyrfti í spöngina. Kl. 16:37 kom svo litla daman í heiminn. Ljósmóðirin skellti henni beint í fangið á mér og sagði: Þarna er hún komin! Silli spurði hana þá til baka hvort þetta væri stelpa og þá hló hún og sagðist bara ekki vera viss, lyfti henni upp og staðfesti það.

Stúlkan fæddist fullkomlega heilbrigð, 3170 gr. 50 cm. og var því 12,5 merkur!
Ástin mín hann Silli hélt í höndina á mér hverja einustu mínútu af öllu ferlinu og var klárlega kletturinn minn þennan dag!
Við erum ótrúlega hamingjusöm með litlu dömuna okkar 🙂

Hér er Sara Rós stoltið okkar nokkurra sekúntu gamallt.


<3

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here