Íslandsmeistarakeppni í förðun og naglaásetningu verður haldin á morgun, fimmtudaginn 29 maí í salarkynnum Snyrtiakademíunnar sem rekur Snyrtiskólann, Fótaaðgerðaskóla Íslands og Förðunarskólann.

Keppnin sjálf hefst klukkan 10.00, en keppt verður til verðlauna í kvöldförðun annars vegar og svo naglaásetningu (French Manicure) ásamt því sem tveir keppendur farða og handsnyrta sama módelið fyrir fantasíuförðun. Sigríður Þóra Ívarsdóttir, skólastjóri Förðunarskólans og förðunarkennari við Snyrtiskólann segir mikla eftirvæntingu liggja í loftinu.

Fantasíuförðun, kvöldförðun og “french” meðal greina

“Íslandsmeistarakeppni í förðun hefur legið niðri í nokkur ár og var haldin síðast árið 2008, þó reglulega sé keppt í naglaásetningu og handsnyrtingu. Okkur fannst alveg kominn tími á að endurvekja Íslandsmeistarakeppnina og í samráði við Naglaskólann settum við keppnina á í ár. Það er mikil tilhlökkun í okkur öllum,” segir Sigríður Þóra – eða Sigga Dóra – sem jafnframt situr í dómnefnd og bætir því við að sigurvegari hljóti ekki einungis titilinn sjálfan að launum, heldur glæstan bikar til eignar ásamt gullfallegri gjafaöskju frá Maybelline sem inniheldur snyrtivörur fyrir fagfólk.

Opið hús Snyrtiakademíunnar haldið samhliða Íslandsmeistarakeppni

Sem áður sagði verður keppnin haldin í salarkynnum Snyrtiakademíunnar en samhliða því er útskrifaðir nemendur keppa um hinn eftirsótta Íslandsmeistaratitil verður haldin viðamikil kynning á ólíkum námsleiðum innan akademíunnar og munu nemendur leiða gesti í allan sannleikann um þær meðferðir sem boðið er upp á og kenndar eru í skólanum.

“Já, samhliða Íslandsmeistarakeppni morgundagsins verðum við í Snyrtiakademíunni með opið hús frá klukkan 11.00 til 17.00, en þar eru allir skólarnir okkar og við tökum vel á móti gestum,” segir Thelma Hansen, framkvæmdarstjóri Snyrtiakademíunnar. “Fótaaðgerðaskólinn og Snyrtiskólinn verða með sýningu á meðferðum og í Förðunarskólanum sjálfum verður keppnin haldin.”

 Ljúft handanudd, naglalökkun og ráðgjöf um meðhöndlun húðar

Meðal þess sem gestir mega eiga von á í fyrramálið utan sjálfrar keppninnar er sýning á andlitsmeðferðum, en gestum verður boðið upp á ljúft handanudd og lökkun nagla ásamt því sem snyrtifræðingar veita ýmsar ráðleggingar fyrir meðhöndlun hörunds og meðferð ólíkra húðgerða.

Þá munu nemendur Fótaaðgerðaskóla Íslands sýna fótaaðgerðir, freistandi kynning á nagla- og snyrtivörum verður haldin og botninn verður svo sleginn úr með krýningu sigurvegara í lok dags.

Nálgast má frekari upplýsingar um keppnina HÉR en boð á kynningardag Snyrtiakademíunnar má nálgast HÉR

SHARE