Gleymist stundum að tala um aðstandendur

Hjalti Vigfússon er nú að skipuleggja sína fjórðu Druslugöngu, en hann ákvað að láta til sín taka eftir að kynferðisofbeldi snerti hann persónulega. Hann sökkti sér í málaflokkinn og var kominn með vott að áfallastreituröskun þegar hann leitaði sér sjálfur aðstoðar.

 

„Í grunninn er ég bara fótboltastrákur úr Kópavoginum og var örugglega jafn vitlaus unglingur og margir aðrir, en svo varð ákveðinn vendipunktur. Kynferðisofbeldi snerti mig persónulega,“ segir Hjalti Vigfússon, einn skipuleggjenda Druslugöngunnar, um hvernig það kom til að hann fór í þetta verkefni.

Hjalti kemur nú að skipulagningu göngunnar í fjórða sinn. Manneskja sem stendur honum nærri kærði þekktan einstakling fyrir kynferðisofbeldi og í kjölfarið reis stór hópur í samfélaginu upp á afturlappirnar honum til varnar. Þá gat Hjalti ekki lengur setið aðgerðarlaus. Hann vildi gera eitthvað og stuðla að breyttri og upplýstari umræðu í samfélaginu.

Heyrir miklu meira

Hjalti bendir á að fjöldinn sem verði fyrir kynferðisofbeldi einhvern tíma á lífsleiðinni sé svo mikill að flestir þekki einhvern í þeirri stöðu.
„Þegar maður byrjar að taka þátt í að skipuleggja svona viðburð heyrir maður svo miklu meira. Þá fer maður líka að hugsa um allt sem maður fær ekki að heyra. Allt fólkið sem hefur orðið fyrir ofbeldi, en hefur ekki sagt frá. Við fáum líka ótal skilaboð á hverju ári frá fólki sem vill segja sína sögu og hvaða áhrif gangan hefur haft á líf þess og það drífur mann áfram.“

Hann bendir á að þeir sem hafi verið að stíga fram á síðustu tveimur árum og segja sögu sína séu að mestu leyti ungar konur. En það þýði ekki að aðrir hafi ekki orðið fyrir ofbeldi líka. „Við höfum til dæmis hvatt fólk til að koma með ömmu sína í gönguna. Þessi þöggun, sem er sem betur fer að minnka, var svo ótrúlega mikil þegar þær voru ungar. Þessi mál voru bara ekki rædd og þær sem urðu fyrir kynferðisofbeldi á árum áður hafa þurft að bera harm sinn í hljóði. En það er aldrei of seint að segja frá og það er svo mikilvægt að fólk viti það.“

Þöggun innan samfélags samkynhneigðra

Hjalti ítrekar í því samhengi að Druslugangan sé fyrir alla. Ekki bara fyrir konur og ekki bara fyrir þolendur. „Það virðist hins vegar vera erfiðara fyrir karla að segja frá ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir. Það er tengt einhverri karlmennskuímynd sem er erfitt að yfirstíga. Þetta hefur samt verið að breytast síðustu ár og þegar karlar stíga fram er ótrúlega mikilvægt að við séum til staðar og tilbúin að hlusta,“ segir Hjalti og heldur áfram:

„Kynferðisofbeldi innan samfélags samkynhneigðra er líka miklu meira en maður heldur. Ég finn fyrir því af því ég þekki til þar. Það er vandamál sem ekki er verið að horfast í augu við. Það er gengin Gleðiganga á hverju ári og mikil réttindabarátta í gangi. Því þarf að fylgja gleði og þá er erfitt að tala um hluti sem eru bara alls ekki gleðilegir. Það er gríðarleg þöggun þar, líkt og annars staðar í samfélaginu, sem þarf að takast á við.“

„Ég hef fengið hendur inn á mig“

Hjalti segir mjög mikilvægt að setja meiri peninga í réttarvörslukerfið á Íslandi og auka það fjármagn sem sett er í fræðslu í grunnskólum.

„Við sem erum að skipuleggja Druslugönguna höfum setið nokkra fundi með ráðherrum undanfarin ár og höfum fundið fyrir mjög takmörkuðum skilningi á alvarleika málsins, til dæmis frá Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra,“ segir Hjalti sem tekur þó fram að viðbrögðin hafi verið misjöfn eftir ráðherrum. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, hafi til dæmis sýnt málinu mikinn skilning og strax viljað gera úrbætur.“

Aðspurður segist Hjalti sjálfur hafa orðið fyrir áreiti af ýmsu tagi, sérstaklega þegar hann hefur farið út að skemmta sér, en hann sé ekki þolandi kynferðisofbeldis. „Ég hef til dæmis fengið hendur inn á mig, sem er ógeðslegt og alveg óþolandi. Það eru staðir sem ég forðast því ég er brenndur af svona áreiti. Þess vegna er frábært að sjá hvað skemmtistaðirnir taka vel í plakötin sem við á vegum Druslugöngunnar höfum verið að setja upp.“ En hengd hafa verið plaköt þar sem fólk er minnt á að allir eigi rétt á að skemmta sér án þess að þurfa þola áreiti eða ofbeldi og jafnframt hvatt til að láta vita ef einhver sýnir slíka hegðun.

Erfitt að vera aðstandandi

En þó Hjalti sé sjálfur ekki þolandi kynferðisofbeldis þá er hann aðstandandi þolanda og það getur líka verið erfitt. Hann segir mikilvægt að hlúa líka að aðstandendum og ekki vanmeta áhrif ofbeldisins á þá sem standa þolanda næst.

„Að vera aðstandandi einhvers sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi getur tekið rosalega á. Fyrrverandi meðleigjandi minn varð fyrir mjög grófu ofbeldi og það að reyna að hjálpa og finna til fyrir hennar hönd tók ótrúlega mikið á. Maður vill gera allt fyrir viðkomandi í þessum aðstæðum en stundum getur maður það einfaldlega ekki. Það gleymist stundum að tala um aðstandendur, en það getur verið erfitt að vera í þeirri stöðu,“ segir Hjalti og bendir í því samhengi á að ekki sé kostnaðarsamt að leita sér sálfræðiaðstoðar. En hann hefur leitað sér aðstoðar vegna sinnar aðkomu að kynferðisbrotamálum, bæði sem aðstandandi og eftir að hafa sökkt sér djúpt í erfið mál í tengslum við starfið í Druslugöngunni.

Með vott af áfallastreituröskun

Hjalti segir það hafa hjálpað sér mikið að fá sálfræðiaðstoð og mælir með að aðstandendur leiti sér líka aðstoðar. „Fólk er svo fast í því að það sjálft eigi ekki bágt því það sé bara að reyna að koma fólki til hjálpar. Því finnst það ekki skipta máli í þessu samhengi. En auðvitað hefur svona lagað mikil áhrif á aðstandendur líka,“ segir Hjalti einlægur.

„Það er líka mjög erfitt að hugsa svona mikið um þessi mál, fara djúpt í inn í þennan heim og lesa sér til. Ég var kominn með vott af áfallastreituröskun þegar ég leitaði mér hjálpar. Í þeim aðstæðum er svo ótrúlega mikilvægt að finna fyrir kraftinum í Druslugöngunni og samstöðunni. Ég get í alvöru ekki lýst orkunni sem myndast.“

 

Þarf að þekkja sín mörk

Hjalti viðurkennir þó að hann hugsi stundum að nú sé nóg komið. Hann geti einfaldlega ekki heyrt eða lesið fleiri hræðilegar lýsingar af kynferðisofbeldi. „Þetta var orðið mjög erfitt á tímabili. Ég þarf að vita hvenær ég á að stoppa, ef ég er til dæmis að lesa einhverja grein. Stundum þarf maður ekki að vita allt. Maður fattar nefnilega ekki strax hvað þetta hefur mikil áhrif á mann. En á sama tíma er mikilvægt að vera meðvitaður um hversu stórt samfélagsvandamál kynferðisofbeldi er. Það er líka á okkar ábyrgð sem samfélag að uppræta það og þess vegna er þessi ganga svo ótrúlega mikilvæg,“ segir Hjalti sem hvetur að lokum alla til að mæta í Druslugönguna þann 23. júlí næstkomandi.

 

Mynd/Rut

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE