Það er tilvalið að grilla á sumrin. Grillaður kjúklingur er ótrúlega góður og hægt er að matreiða hann á ýmsan hátt. Það þarf ekki að leggja mikla fyrirhöfn í að gera eitthvað sérstakt úr kjúklingnum.
Þú gætir t.d. tekið svolítið pesto, bætt sítrónusafa út í og smurt á kjúklinginn. Þessu geturðu stungið í ofninn ef þú hefur ekki útigrill. Svo er gott að sjóða kúskús með tómötum og þá er dýrindis matur tilbúinn.
Efni
• 2 kjúklingabringur
• 2 matsk. pesto
• 2 tesk. sítrónusafi
• 1 tesk. sítrónubörkur (rifinn)
• 1 matsk. ólívuolía
• 1 bolli kúskús
• 1 bolli kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
Aðferð
1. Blandið saman í skál pestó, sítrónusafa og sítrónuberki. Smyrjið blöndunni á kjúklinginn.
2. Hitið ólívuolíuna á grillpönnu, steikið kjötið 5-6 mín. á hvorri hlið eða þar til það er gegnsteikt.
3. Sjóðið kúskús (og farið eftir fyrirmælum á pakka). Látið kúskúsið í skál þegar það er soðið og setjið tómatana út í.
4. Berið kjúkling og kúskús fram og njótið vel!