Guðrún Veiga og guli sófinn

Ég keypti mér gulan sófa í síðustu viku. Sem er kannski ekki í frásögur færandi. Svona fyrir utan þá staðreynd að ég virðist hafa steingleymt því að ég á sjö ára barn. Sjö ára barn með fingurgóma sem framleiða fitu. Og klístur. Og blek. Jafnvel súkkulaði. Sjö ára barn sem kemur til með að þurfa að sitja í fallega sófanum mínum. Sem er gulur eins og sólin. Og sumarið. Og allt sem er fallegt og gott.

Sófinn flutti inn á mánudagskvöld. Kvöldið sem slíkt gekk áfallalaust fyrir sig, enda barnið farið að sofa þegar að sófinn kom í hús. Þriðjudagurinn var síðri. Eftir langan dag komum við heim og ég gerði þau mistök að skilja barnið eftir eftirlitslaust í návist sófans. Þar gríp ég hann stuttu eftir heimkomu, sokkalausan að týna tásuló eins og hann kallar það. Hann er orðinn sjö ára, það þýðir lítið fyrir hann að reyna að fegra fótakropp með einhverjum krúttlegheitum. Það virkar að minnsta kosti ekki á mig. Og hvað þá þegar hann er staðsettur í heiðgula sófanum mínum.

Eftir langan fyrirlestur um afleiðingar þess að setja býfurnar í sófann minn, drjúga stund með límrúlluna að vopni og tárin í augunum, varð sófinn eins og nýr úr kassanum. Barnið fór að sofa og ég prísaði mig sæla. Svona á meðan ég sat á gólfinu með rauðvínsglasið mitt. Sem nota bene er bannað að drekka í innan við þriggja metra fjarlægð við títtnefndan sófa.

Upp rennur miðvikudagur. Við mæðginin rúllum að venju inn um dyrnar síðla dags. Barninu er hent í sturtu, honum þurrkað og sagt að skottast inn í herbergi til þess að klæða sig. Ég fer að bauka með Bónuspokana inni í eldhúsi, hakka í mig súkkulaði í laumi og dunda mér við að laga kaffi. Skyndilega heyri ég að sjónvarpið er á fullu blasti, gjói augunum inn í stofu og sé mér til mikillar skelfingar að þarna situr hann. Í sófanum gula. Í sínum mestu makindum. Berrassaður. Ég horfi lömuð inn í stofuna – líkt og þar séu staddir 11 vopnaðir glæpamenn. Þegar blóð mitt byrjar aftur að renna reyni ég að halda ró minni. Upp að því marki sem mögulegt er, svona þegar berrassað barn situr á gula sófanum manns. Ég útskýri gaumgæfilega fyrir strípalingnum hvernig hann verður að standa beint upp úr sófanum. Alls ekki að renna berum rassinum eftir áklæðinu. Almáttugur minn.

1503420_598228950277889_4358316321444856021_n

Fimmtudagurinn gekk nokkuð blíðlega fyrir sig hjá mér og sófanum. Ég og barnið vorum blessunarlega boðin í mat þannig að fáklæddi hryðjuverkamaðurinn komst hvergi nærri sófanum þann daginn.

Svo var það föstudagurinn. Bölvaður föstudagurinn. Kósýkvöld og tilheyrandi. Barnið valdi sér Snickers í Hagkaupum fyrr um daginn. Ég var að sjálfsögðu búin að gera viðeigandi varúðarráðstafanir og fjárfesta í ruslapokarúllu. Barnið skyldi snæða súkkulaðið sitjandi á ruslapoka. Helst íklæddur einum líka. Að loknum kvöldmatnum liggur hann friðsæll og flatmagandi á gólfinu. Að pára einhverja stafi á blað. Ég er að gjamma í símann og lítið að skipta mér af honum.

Í óleyfi valsar hann í eldhússkápinn og nælir sér í Snickersið. Færir sig með blaðið, pennann og helvítis súkkulaðið í sófann. Sófann minn fagra. Eitt Snickersstykki er sirka 55 grömm. En hvernig þessi 55 grömm enduðu í 15 flennistórum súkkulaðiblettum á sófanum mínum er mér fyrirmunað að skilja. Ennþá erfiðara er fyrir mig að skilja hvernig barninu datt í hug að ná í gulan túss til þess að reyna að hylja blettina. Jæja, hann fær þó plús fyrir viðleitni.

Fyrrum gulur sófi fæst gefins gegn því að vera sóttur. 7 ára barn getur fylgt.

SHARE