Nöfn: Callista og Jason Puchmeyer
Aldur: 31 og 32
Hæð: 182cm og 190 cm
Þyngd áður: 162 kg og 136 kg

Svona fitnuðum við: Við höfðum bæði átt í basli með þyngdina frá því við vorum í mennta- og háskóla. Callista stundaði lögfræðinám og  Jason vann fulla launavinnu með sínu námi. Hann var að taka meistaragráðu í fyrirtækjastjórnun. Við hugsuðum hvorugt mikið um heilsuna.  Callista varð ólétt að fyrstu dóttur okkar í júlí 2006, annari dóttur okkar í júní 2008 og þeirri þriðju í janúar 2010. Á þessu tímabili fór þyngd okkar alveg úr böndunum. Við borðuðum ekki hollan mat og hreyfðum okkur mjög lítið. Við borðuðum bara það sem okkur datt í hug að borða, borðuðum mjög oft úti og tróðum okkur út af tilbúnum mat, gosi, djúpsteiktum mat og skyndibitum. Callista var farin að vinna hjá stórri lögfræðiskrifstofu sem var mjög krefjandi. Hún borðaði sér til hugarhægðar því að álagið að vera útivinnandi móðir í fullu starfi var mjög mikið. Jason var enginn eftirbátur hennar í átinu.  Þegar þau voru að taka saman umbúðirnar af því sem þau höfðu innbyrt – tóma poka utan af kartöfluflögum, bréf utan af súkkulaði og sækgæti, kassa utan af pizzum – hugsuðu þau stundum:“Höfum við virkilega étið þetta allt?”

Mælirinn var fullur: Við fundum auðvitað hvað við vorum orkulaus og gátum í rauninni lítið sinnt dætrum okkar því að við vorum alltaf þreytt. Ekkert og enginn var okkur meira virði en dætur okkar og við ákváðum því að svona vildum við ekki hafa þetta lengur. Callista var afar slæm í baki og andlega ástandið var mjög bágborið. Henni var sagt að hún yrði að fara í bakskurð en auðvitað myndi það hjálpa henni ef hún gæti létt sig.  Hér var kominn hvati til að létta sig til viðbótar því að hún myndi geta sinnt börnunum sínum betur.

Langaði að geta leikið við börnin okkar

Okkur langaði til að leika við börnin okkar án þess að standa á öndinni. Það yrði dásamlegt að geta lagt barnið sitt í vögguna án þess að sárfinna til í bakinu. Okkur langaði að verða heilbrigð og í góðu formi. Við ákváðum að vera ábyrgir foreldrar og huga að mataræði fjölskyldunnar og heilsu. Okkur langaði að kenna dætrum okkar meðan þær voru enn ungar að hollar matarvenjur og góð hreyfing eru forsendur heilbrigðis og langra lífdaga.  Auðvitað þótti okkur verkefnið yfirþyrmandi en við tókum ákvörðun að reyna strax og síðasta barnið væri ekki lengur á brjósti.

Svona léttumst við: Við byrjuðum saman í des. 2011 í níu vikna æfingaprógrami en það tók okkur fimm mánuði að ljúka því.  Æfingarnar voru þannig samansettar að þrjá daga vikunnar áttum við að hlaupa og hina dagana voru ýmsar æfingar eins og að hjóla, ganga upp lítinn halla og gera margs konar styrkingaræfingar.  Callista fékk ágætan stuðning á vinnustað sínum og gat farið þar í æfingarsal. Við nýttum okkur bæði forrit í símanum okkar (  iPhone App sem heitir  MyFitnessPal) og  gátum með hjálp þess fylgst nákvæmlega með hvað  margar  hitaeiningar voru í mat okkar. Markmið okkar var að draga svo úr hitaeiningunum að við myndum léttast um 1 kíló á viku.
Hlupum maraþon
Það kom aldrei að okkur að gefast upp. Við jukum við æfingarnar og settum okkur það markmið að hlaupa hálft maraþon. Callista hljóp hálft maraþon í janúar 2013 og saman hlupum við í síðastliðum maímánuði. Við höfðum sett okkur það markmið að hlaupa vegalengdina á innan við tveim klukkustundum og við lukum hlaupinu á  1:59:15. Við vorum bæði með tár í augunum þegar við komum í mark. Fyrir ári gátum við ekki einu sinni hlaupið 5 km.

Við öfluðum okkur upplýsinga um hollt mataræði ásamt því að æfa okkur og smám saman tókum við út ýmislegt sem við höfðum verið að borða eins og t.d. gos, hvítt brauð og tilbúinn rusl mat. Nú heyrir það til undantekninga að við borðum skyndibita. Við borðum fimm sinnum á dag.

Við erum bæði byrjuð að lyfta og ætlum í haust í líkamsræktarkeppni sem verður okkur hvati til að æfa og sjá hvað við getum gert.

Það er alveg ótrúlegt hvað manni getur liðið vel þegar maður er ekki að basla við heilsuvandamál sem maður getur ráðið við. Við förum ekki í málamiðlanir. Bæði erum við í  krefjandi störfum og hliðrum til fyrir hvort öðru svo að við getum bæði æft okkur. Fólk spyr okkur stundum hvernig  við höfum tíma í allt þetta. Þegar maður forgangsraðar finnur maður tíma. Við hættum að sitja tímunum saman við sjónvarpið á kvöldin, sötrandi vín eins og hver önnur letidýr. Við ákváðum að eignast líf. Eftir að  Callista léttist er hún orðin svo til alveg góð af gigtinni og bakverkjunum.

Það skiptir okkur afar miklu máli  að börnin okkar tileinki sér hollar venjur. Bellu, elstu dóttur okkar, langar að hlaupa 5 kílómetra með okkur og við styðjum hana auðvitað í því. Stelpurnar okkar biðja okkur oft að æfa með sér eftir kvöldmat og það er dásamlegt að geta haft gaman af að æfa saman.

Við erum satt að segja annað fólk en við vorum og höfum aldrei verið betri til heilsunnar. Það er góð tilfinning að vita að breytingin varð vegna þess að við breyttum um matarvenjur og fórum að æfa.

Þyngdin núna: um 79 kg og um 90 kg.

SHARE