“Hommatittur” – Samkynhneigðir verða enn fyrir aðkasti á Íslandi í dag.

Af gefnu tilefni langaði mig að segja þér, kæri lesandi, frá miður fallegum atburðum sem áttu sér stað nýlega. Áður en ég byrja frásögnina langar mig að útskýra aðeins af hverju mér finnst mikilvægt að segja frá þessum atburðum.

Það er nefninlega þannig að nýlega var rætt um að áhugavert væri að gera ítarlega rannsókn á lífsgæðum hinsegin fólks. Þeirri spurningu var meðal annars varpað fram, af hverju fólk væri enn inn í skápnum? Það hlýtur að vera áhugavert að spá aðeins í því af hverju það er enn fólk sem treystir sér ekki til að koma út úr skápnum. Hér getur þú séð grein Mbl.is um málið.

Ég sá tvær bloggfærslur um málið og ummæli við þær færslur. Þessar bloggfærslur og ummælin við þær segja okkur í rauninni einmitt af hverju það er þörf á því, í velferðarríkinu sem við viljum búa í, að rannsaka þessi mál. Það eru enn samkynhneigðir einstaklingar sem lenda í árásum, niðurlægingu og hræðilegu misrétti einungis vegna kynhneigðar, þetta er staðreynd.

Nú kem ég aftur að atburðunum sem mig langaði að segja þér frá lesandi góður. Ég á nefninlega vin, að vísu nokkra vini, sem eru samkynhneigðir, sem er nú alls ekki frásögu færandi en kynhneigð þeirra virðist stundum vera eina ástæða aðkasts sem þeir verða fyrir. Vinur minn hefur lent í því að vera hótað líkamsmeiðingum, bara fyrir það að vera “hommatittur” sem er orð sem oftar en ekki er notað. Hann hefur lent í aðkasti einungis vegna kynhneigðar sem er með öllu óásættanlegt.

Hann hefur verið laminn, af sterkum og stæðilegum karlmanni oftar en einu sinni. Ég var bara viðstödd eitt skiptið en þá var hann laminn af því hann var hommi, það kom mjög skýrt fram. Svo hefur verið öskrað á eftir honum “hommi” þetta hef ég heyrt og séð sjálf. Hann varð einnig fyrir aðkasti þegar hann bjó úti á landi áður fyrr þegar hann var nýkominn út úr skápnum og fékk ýmis viðurnefni frá ákveðnum hópi. Þar var hann oftar en ekki niðurlægður í partýum af mun eldra fólki og lagður í einelti og einmitt vegna kynhneigðar. Oft var þá talað við hann með kvenmannsrödd og gert var grín af göngulagi hans og hvernig hann bar sig, talaði ofl. Hann lendir enn í aðkasti og hann er svo sannarlega ekki sá eini.

Fólkið sem mest stundaði þetta var á þeim tíma orðið fullorðið og komið yfir tvítugt svo að sú afsökun að fólk hafi verið börn og ekki vitað betur var ekki til staðar lengur og eftir því sem mínir vinir segja mér eru það afar sjaldan börn sem hreyta einhverju í þá, ef það gerist er það fullorðið fólk. Ég vil samt taka það fram að þó að ég þekki þessa tilteknu sögu þá eru þær mun fleiri. Ég þekki fullt af samkynhneigðu fólki sem flest hefur einhverntímann á lífsleiðinni orðið fyrir aðkasti einungis vegna kynhneigðar.

Ég vil þó meina að fólk sem stundar þetta og er með fordóma sem þessa sé í minnihluta. Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég sé rök eins og í ummælum við eina ofangreinda bloggfærslu. Ég nefninlega virðist ekki þekkja neitt fólk persónulega sem myndi haga sér svona. Ég þekki og umgengst ekki fólk sem lætur svona, enda vil ég meina að flest eðlilegt fólk kann ekki að meta svona hegðun.

Við eigum flest systkini, frændur, frænkur, foreldra og svo seinna börn sem okkur þykir vænt um og þetta eru ekki skilaboð sem við viljum senda til okkar ástvina sem gætu vel verið samkynhneigðir. Sá tími ætti að vera LIÐINN í okkar samfélagi að fólki sé mismunað vegna kynhneigðar, en það er ekki raunveruleikinn, þó að miklum framförum hafi verið náð.

Hér eru nokkur nýleg ummæli sem skrifuð voru við frétt um lífsgæði samkynhneigðra á Íslandi og dæmi nú hver fyrir sig.
Jóhannes nokkur skrifar:
Ég vona að núverandi ríkisstjórn hafi hugrekki til að segja nei við endalausu betli samkynhneigðra, bæði í formi peninga og lagalegs stuðnings. Það er skoðanakúgun á Íslandi varðandi mál samkynhneigðra. Ef maður vogar sér að vera á móti samkynhneigð þá er maður strax stimplaður fordómafullur og heimskur.

V.Jóhannsson skrifar:
Ég er á móti ættleiðingu barna til fólks með þennann lífsstíl.

Þetta fólk á að lifa sínu lífi í samfélaginu og á að þrífast á sinn besta veg, sem hentar þeim, án þess að þurfa að básúna það út um allar jarðir, öðrum til armæðu, og að láta uppeldi á ómótuðum einstalkingum í friði. Fáið ykkur hund!

Barnið á að hafa foreldri af sitt hvoru kyni, án undantekninga.

Jóhannes skrifar líka:
Ég ber virðingu fyrir öllu fólki, líka samkynhneigðu, en ég ber ekki virðingu fyrir ólifnaði þeirra. Samkynhneigð er og verður alltaf óeðlileg. Það vita hommar og lesbíur sjálfir en vilja ekki viðurkenna það.

Bloggfærslunar eru hér og hér og þar undir getur þú séð ummælin. Ég tók það sem sló mig mest og setti það hér. Það er eins og ég segi greinilegt að við eigum enn langt í land sem þjóðfélag þó svo að við höfum náð frábærum árangri og betri árangri en margar aðrar þjóðir í að minnka fordóma gagnvart samkynhneigðum. Það er hinsvegar mikilvægt að átta sig á því að á Íslandi í dag er samkynhneigt fólk enn að verða fyrir aðkasti og það er ekki ásættanlegt.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here