Hraðfréttadrengir fara á sjóinn

„Benni segist aldrei hafa orðið sjóveikur en ég á eftir að sjá hann þola þetta. Þegar ég fór á sjóinn lá ég í koju í tvo daga og langaði að deyja,“ segir Fannar Sveinsson dagskrárgerðarmaður.

Fannar hefur getið sér gott orð sem umsjónarmaður Hraðfrétta ásamt félaga sínum Benedikt Valssyni síðustu ár en í vetur venda þeir kvæði sínu í kross. Þeir hafa ráðið sig sem háseta á frystitogarann Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 sem Þorbjörn í Grindavík gerir út.

„Við verðum ekki lengur Fannar og Benni í Hraðfréttum. Við verðum bara við sjálfir og kynnumst okkur sjálfum í þessu nýja ljósi,“ segir Fannar en þeir fara á sjó 25. október næstkomandi og róa í mánuð. Afraksturinn kemur landsmönnum fyrir sjónir á RÚV á nýju ári.

Fannar fór einn túr á sjó þegar hann var tvítugur og segir að það fari iðulega í taugarnar á Benna þegar hann rifjar upp þá tíma. Benni hafi í fyrstu ekki tekið vel í hugmyndir um að þeir færu á sjó en svo hafi hann látið til leiðast. Þeim gekk reyndar bölvanlega að verða sér úti um pláss á bát og það var ekki fyrr en framleiðslufyrirtækið Skot gekk í málið að skriður komst á.

Hvernig eiga sjómennirnir eftir að taka ykkur, vel til höfðum og greiddum drengjum úr borginni?
„Þetta verður skrautlegt. Við erum búnir að hitta áhöfnina og þeir voru svona flestir til í þetta. Skipstjórinn var nokkuð jákvæður. Ég held að þeir taki okkur ágætlega. Vonandi.“

SHARE