Nú þegar jól eru yfirstaðinn og nýtt ár hafið og líkamsræktastöðvarnar fyllast af fólki með markmið í huga þá er gott að huga að ýmsu.

Hún Berglind hjá .lifandilif.is/ heldur úti síðu sem er stútfull af fróðleik og öðru. Þessi fróðleikur er fengin að láni hjá henni:

Hreyfing eftir markmiðum:

Það getur oft verið erfitt að ákveða hvort við ættum að sitja yfir tölvupóstinum okkar fram eftir kvöldi eða skella okkur út að hlaupa.  Í amstri dagsins er oft freistandi að sitja aðeins lengur við tölvuna og láta heilsu okkar bíða.  Oftar en ekki þurfum við ekki meira en smá hvatningu til að koma okkur í hlaupaskóna og þar getur markmiðasetning komið sér vel.  Rannsóknir hafa sýnt að ákveðnar hreyfingar / íþróttir henta betur en aðrar þegar ákveðin markmið eru sett og þegar árangur fer að sjást, þá verður alltaf auðveldara og auðveldara að koma sér af stað.  

Hvernig hreyfingar henta þér til að ná þínum markmiðum?

Ef þú vilt meiri orku, hreyfðu þig eins og þér finnst skemmtilegast 3-4 sinnum í viku.

Regluleg hreyfing eykur orku og minnkar þreytu hjá öllum fullorðnum, sama í hvers konar líkamsástandi einstaklingarnir eru í.  Vísindamenn við Háskólann í Georgiu í Bandaríkjunum árið 2006, tóku saman um 70 rannsóknir um hvernig fullorðnir einstaklingar gætu hámarkað orku sína.  Niðurstaðan sýndi fram á að einungis 20 mínútur af léttri / miðlungs hreyfingu nokkrum sinnum í viku (t.d. hjólreiðar, göngutúrar, styrktaræfingar og teygjur), aukst orka einstaklinganna strax eftir 4 vikur.  

Ef þú vilt lágmarka læknisheimsóknir, teldu sporin með skrefamæli.

Í dag er talið að eitt helsta heilsufarsvandamál okkar vesturlandabúa sé hversu lítið við hreyfum okkur (ásamt einstaklega stórum og næringasnauðum matarskömmtum).  Forfeður okkur eyddu deginum í líkamlegri vinnu en í dag sitjum við flest við tölvu allan daginn og svo kíkjum við á sjónvarpið þegar við komum heim.  Eftir því sem hreyfingin er minni, því mun meiri líkur eru á alls konar sjúkdómum og líkamlegum kvillum.  En það er ekki nauðsynlegt að stunda CrossFit fjórum sinnum í viku til að koma í veg fyrir læknisheimsóknir heldur sýndu vísindamenn fram í Preventive Medicine árið 2013, að um 7000 skref á dag nægðu til að koma í veg fyrir þá kvilla sem að kyrrsetjufólk þjáðist mest að.  

Ef þú vilt lækna langvarandi verki, leitaðu aðstoðar hjá fagaðila. 

Þegar langvarandi heilsufarsvandamál og verkir eru orðnir hluti af hinu daglega lífi þá getur reynst freistandi að forðast hreyfingu.  En það er einmitt þá sem mikilvægt er að hreyfa sig.  Hreyfing hefur góð áhrif á háan blóðþrýsting, bólgur, sykursýki 2 svo einhver dæmi séu tekin, ásamt því að koma blóðflæðinu af stað og láta okkur líða vel andlega.  Í mörgum tilfellum er þó mikilvægt að fara sér hægt í byrjun til að koma í veg fyrir frekari meiðsli og byggja styrkleika og úthald hægt og rólega upp.  Fagaðili eins og einkaþjálfari, sjúkraþjálfari eða læknir getur komið að miklu gagni við þessar aðstæður.  

Ef þú vilt léttast, blandaðu saman styrktaræfingum og þolæfingum.

Líkamsrækt ein og sér skilar sér yfirleitt ekki í þyngdarlosun.  Því er mikilvægt að blanda saman hreyfingu og hollu mataræði.  Þetta hafa margar rannsóknir sýnt fram á og meðal annars ein sem birt var árið 2015 í Journal of Strength and Conditioning Research.  Þar voru kyrrsetu konur rannsakaðar og látnar hlaupa á hlaupabretti þrisvar í viku, í 12 vikur.  Engin þeirra breytti um mataræði og engin þeirra léttist.   Hins vegar sýndi rannsókn frá National Weight Control Registry, eftir að hafa vigtað fjölda fólks reglulega yfir langt tímabil, að það voru einstaklingar sem að léttust mikið og náðu að halda þyngdinni af sér þrátt fyrir að taka ekkert sérstaklega til í mataræðinu.  En þeir einstaklingar tóku mjög krefjandi æfingar næstum daglega.  The American Council on Exercise hefur lagt mikið upp úr því að skoða hvers konar æfingar henta best við þyngdarlosun og er niðurstaðan sú að þolæfingar og styrktaræfingar vinna best saman.  Þolþjálfunin brennir hitaeiningum og styrktaræfingarnar byggja upp vöðvana og koma í veg fyrir vöðvarýrnum þegar við eldumst.  Þeir mæla með um 150 mínútum í þolæfingar á viku ásamt því að taka styrktaræfingar tvisvar í viku (eða jafnvel jóga eða pilates). 

Ef þú vilt minnka streitu eða þunglyndi, æfðu reglulega en alls ekki of mikið. 

Aðal ástæðan af hverju við verðum spennt yfir því að hreyfa okkur er vegna þess hversu vel okkur líður af því.  Vísindamenn við Oregon Háskólann í Bandaríkjunum hafa komist að því að þær konur sem að hreyfa sig þrátt fyrir miklar annir og tímaskort, finna minna fyrir streitu og kvíða en þær sem að sleppa því að hreyfa sig.  Einnig kom fram að þær sem hreyfa sig eru mun ánægðari með þær sjálfar og hafa því meira sjálftraust.  Hreyfing er einstaklega góð meðferð gegn þunglyndi en til að hún virki sem slík, er best að hafa hana létta og skemmtilega.    

SHARE