Ég held að alla tíð séum við að komast að því hverjir eru vinir okkar og hverjir eru það ekki.
Flestir eiga vin sem þeir vita að sé sannur vinur enda hefur hann staðið með okkur jafnvel í mörg ár.
Sagt er að við veljum okkur ekki fjölskyldu en við getum valið okkur vini, stundum fer þetta tvennt saman en þó ekki alltaf.
Vinátta fer algerlega eftir tilfinningum hvers og eins, það er enginn skildugur að vera vinur einhvers.
Ég held að það sé betra að eiga fáa en góða vini en eiga þá fleiri góða kunningja.

Vinurinn stendur með þér
Ef þú telur þig eiga góðan vin ætla ég að vona að hann standi með þér, sama í gegnum hvað þú ert að fara. Hann gefst ekki uppá þér.

Hlustar á þig
Góði vinur þinn hlustar á þig og þín mál, hann bablar ekki og vælir endalaust útaf sínum málum og er slétt sama hvað gengur á í þínu lífi.
Góð vinátta snýst nefnilega um að báðir aðilar taki þátt, vinátta þar sem annar þarf að vera ,,hlustarinn‘‘ verður leiðigjörn.

Tækifærisinni
Best vinur þinn ætti ekki að vera tækifærisinni, hann ætti s.s ekki að vera með þér af því ekkert annað skemmtilegra er í boði.
Ef upp kemur eitthvað sem mögulega gæti verið meira spennandi þá ,,beilar‘‘ hann á ykkar plönum.

Við þurfum hvíld frá öllu öðru hverju, jafnvel bestu vinum okkar.
Öll þurfum við að hvíla okkur á hvort öðru og það er nauðsynlegt að vinir skilji það og virði. Það er ekki þar með sagt að vináttu sé lokið þó eina vikuna hafi þið lítið heyrst en gamlir vinir vita þetta.

Kunninginn og vinurinn

Það er munur á kunningja og góðum vin.
Kunningjar eru þó mikilvægir eins og vinirnir, kunningi getur verið sessunautur þinn í skólanum, þessi sem vinnur með þér verkefnin og þú getur bjallað í ef þig vantar upplýsingar því þú misstir úr.
Kunningi getur verið manneskja sem þú ferð með í ræktina en þú ert kannski ekki að segja honum frá persónulegum málum
þínum.

Nokkuð sem skilgreinir mun á kunningja á vin

Kunninginn segir til nafns þegar hann hringir. Vinurinn þarf þess ekki.

Kunninginn byrjar á því að segja frá lífi sínu í smáatriðum. Vinurinn byrjar á því að spyrja hvernig þú hafir það.

Kunninginn heldur að umkvartanir þínar séu nýjar af nálinni. Vinurinn veit að þú hefur tönnlast á þessu í fjórtán ár og segir þér að gera nú eitthvað í málunum.

Kunninginn hefur aldrei séð þig fella tár. Vinurinn er með axlirnar blautar af tárum þínum.

Kunninginn veit ekki hvað foreldrar þínir heita fullu nafni. Vinurinn er með símanúmer foreldra þinna í símanum.

Kunninginn veit lítið um fjölskyldu þína. Vinurinn veit allt um heilsufar,matarræði og hjónabandserfiðleika hvers einasta ættingja þíns.

Kunninginn færir þér vínflösku þegar þú býður honum í mat. Vinurinn mætir snemma til að hjálpa þér að elda og verður eftir til að hjálpa þér með uppvaskið.

Kuninginn hringir í þig klukkan tíu að kvöldi, bara til að spjalla. Vinurinn veit að þér er illa við að fólk hringi eftir níu á kvöldin

Vinargjöf skulum við vel hirða, vinir eru nauðsyn í líf okkar en vöndum valið.
Vinur þinn á að láta þér líða vel. ekki draga þig niður á einhvern hátt.

Nýr vinur er silfur en gamall gull, pössum uppá silfrið og gullið ef það eru sannir vinir.

SHARE