Hvað er liðagigt?

Liðagigt eða iktsýki einkennist af því að liðir líkamans bólgna upp en mismargir í einu og getur þetta bólguástand leitt til þess að liðbrjóskið eyðileggist. Sömuleiðis geta komið skemmdir í bæði beinið undir liðbrjóskinu og liðpokann í kring.

Helstu einkenni eru morgunstirðleiki, verkir, liðbólgur og minnkuð hreyfigeta. Iktsýki er svokallaður fjölkerfasjúkdómur, þ.e. sjúklingurinn fær oft einkenni frá öðrum líffærum og vefjum líkamans.

Um það bil 0.5-1% af öllum fullorðnum Íslendingum þjást af iktsýki þ.e. 1500-2500 Íslendingar eru með sjúkdóminn og um 150 manns veikjast af iktsýki árlega.

Þrisvar sinnum fleiri konur en karlar fá sjúkdóminn og þá oftast á aldrinum milli 30 og 50 ára. Oftast leiðir iktsýki til þess að viðkomandi liðir aflagast og stirðna og missa þannig hreyfigetu sína.

Sjúkdómurinn er ólæknanlegur en hægt er að seinka framgangi hans og halda honum svolítið í skefjum með þverfaglegri samvinnu sérfræðinga.

Sjá einnig: Gigtveikir fætur

Hver er orsök iktsýki?

Orsök iktsýki er óþekkt. Það er líklegt að ýmsir utanaðkomandi þættir eigi hér hlut að máli hjá fólki sem af einhverjum ástæðum er sérlega móttækilegt (t.d. sterk fjölskyldusaga, þ.e. erfðaþáttur).

Hlutverk litninganna hjá okkur er örugglega stórt og ákveðnir erfðaeiginleikar eru greinilegir og einkennandi hjá liðagigtarsjúklingum borið saman við annað fólk.

Nýlegar rannsóknir benda aftur á móti til að líkurnar á iktsýki séu ekki meiri hjá eineggja tvíburum (sem hafa sömu erfðaeiginleika) en hjá tvíeggja tvíburum (sem hafa svipaða erfðaeiginleika og systkini almennt). Þetta bendir aftur til þess að utanaðkomandi þættir gegni stærra hlutverki en áður var álitið varðandi hverjir fá sjúkdóminn og hverjir ekki. Eftirtaldir þættir eru einkum taldir ráða miklu um hvenær fólk fær sjúkdóminn og hvernig hann þróast.

  • Sýking:
  • Þrátt fyrir mikið rannsóknarstarf hefur ekki tekist að sýna fram á að veiru- eða bakteríusýking sé orsök iktsýkinnar. Hugsanlega eiga einhver niðurbrotsefni slíkra örvera þátt í að viðhalda liðbólgunni.
  • Sjálfsnæmi (Autoimmunity):
  • Sjálfsnæmi er það ástand þegar ónæmissvörun beinist gegn hluta af eigin líkama. Sýnt hefur verið fram á að hjá sumum liðagigtarsjúklingum bregðast frumur ónæmiskerfisins gegn liðbrjóski líkamans og hjá mörgum þessarra sjúklinga hefur sömuleiðis verið sýnt fram á mótefni gegn efnum sem mynda liðbrjóskið.
  • Hormónaáhrif:
  • Iktsýki er þrisvar sinnum algengari hjá konum en körlum. Sjúkdómseinkennin minnka iðulega í tengslum við þungun. Samt sem áður er ekkert sem bendir til að notkun P-pillunnar hafi einhver verndandi áhrif hvað varðar framgang sjúkdómsins.

Hver eru einkenni iktsýki?

Liðverkir:

  • Á fyrstu stigum sjúkdómsins eru hvíldarverkir þegar sjúkdómurinn er í virkum fasa. Síðar meir fer svo að bera meir á liðverkjum við allar hreyfingar sem má þá rekja til skemmda sem eru komnar í liðbrjóskið.

Stirðleiki:

  • Eitt aðaleinkenni iktsýki er morgunstirðleiki sem verður vegna vökvasöfnunar í og kringum liðina þegar þeir hafa verið í hvíld yfir nóttina. Þessi stirðleiki minnkar svo þegar líður á daginn þegar þessi vökvi rennur af við hreyfingar liðanna.

Hindruð hreyfigeta:

  • Orsakast bæði af verkjum og bólgu í liðunum sem og skemmdum sem hafa orðið á liðbrjóskinu og liðpokanum.

Almenn einkenni:

  • Margir liðagigtasjúklingar þjást af þreytu og slappleika. Stundum eru þeir með smáhitavellu einkum ef sjúkdómurinn er í virkum fasa.

Allir liðir líkamans geta orðið fyrir barðinu á iktsýki:

Þeir liðir sem verða samt helst fyrir barðinu á sjúkdómnum eru aftasta og miðkjúkan á fingrunum, úlnliðir, tær og hnjáliðir og af og til hálsliðirnir líka þó hryggjarliðir sleppi oftast. Það sem er líka einkennandi fyrir liðbólgur í iktsýki er að samhverfir liðir bólgna, þ.e. að sami liður líkamans bólgnar bæði hægra og vinstra megin.

Sjúkdómurinn fer oftast rólega af stað þar sem áðurnefnd einkenni þróast á vikum eða mánuðum í lið fyrir lið. Í færri tilfellum kemur sjúkdómurinn skyndilega og í enn öðrum byrja einkennin í aðeins einum lið.

Einkennin eru mismikil og ganga í bylgjum með góðum og slæmum tímabilum. Í einstaka tilfellum virðist sjúkdómurinn leggjast alveg í dvala.

Sjá einnig: Hvað er vefjagigt? – Hver eru einkennin?

Einkenni iktsýki utan stoðkerfisins

Oftast eru einkenni liðagigtar bundin við liðina. Þegar sjúkdómurinn er kominn á alvarlegt stig geta komið fram önnur einkenni frá hinum ýmsu líffærum og líffærakerfum, sbr. að neðan.

  • Gigtarbólga í sinum og sinabelgjum.
  • Hér er um að ræða sinaskeiðabólgu og bólgu í liðbelgjum sem er í tengslum við marga liði líkamans. Þessu fylgja töluverð eymsli og verkir við hreyfingar og ef þetta ástand varir lengi getur viðkomandi sin slitnað.
  • Húð:
  • Svokallaðir gigtarhnútar geta myndast undir húðinni hjá þessum sjúklingum. Þeir eru aumir viðkomu og geta verið allt frá nokkrum millimetrum upp í 3-4 sentimetra að stærð. Þeir myndast einkum á þeim stöðum líkamans sem mæðir mikið á t.d. á olnbogum.
  • Sár á húðinni geta komið nánast af tilefnislausu vegna bólgu í sjálfri húðinni eða í æðunum í húðinni.
  • Lungu/lungnahimnur (brjósthimnur):
  • Brjósthimnubólga er algengasta einkennið frá lungunum en einnig geta myndast þar gigtahnútar og sömuleiðis er lýst lungnabólgu sem er ekki vegna bakteríusmits.
  • Augun:
  • Gigtarhnútum og bólgum við augað er lýst í tengslum við iktsýki.
  • Taugakerfiseinkenni:
  • Algengasta einkenni frá taugakerfinu er dofatilfinning í fingrunum sem verður vegna bólgu sem aftur leiðir til þrýstings á taugarnar við úlnliðinn, einnig er lýst dofatilfinningu í tám en óviða annars staðar. Vöðvalamanir, þá eins vöðva eða fleiri saman er, mjög sjaldgæft einkenni, en er merki um alvarlega versnandi sjúkdómsástand.
  • Munnvatns- og tárakirtlar:
  • Gigtarbólguástand getur komið í þessa kirtla. Bólgan getur orsakað mikla minnkun á tára- og munnvatnsframleislu og jafnvel komið í veg fyrir hana. Um það bil 15-20% liðagigtarsjúklinga fá þessi einkenni og einnig getur þetta komið fram sem sérstakur sjúkdómur sem nefnist Sjögrens-sjúkdómur og hefur í för með sér slímhúðarþurrk annars staðar í líkamanum svo og einnig önnur einnkenni sem er að finna hjá sjúklingum með iktsýki enda sjúkdómarnir skyldir.
  • Hjarta:
  • Gollurshússbólga (bólga í himnunni sem umlykur hjartað) getur valdið verkjum vinstra megin í brjóstkassanum en stundum verður fyrst vart einkenna þegar vökvasöfnunin í gollurshúsinu er orðin það mikil að hún hefur áhrif á samdráttarkraft hjartans og leiðir til hjartabilunar.

Hvenær skal leita til læknis?

Ef vart verður við verki eða bólgur í einum eða fleirum liðum ætti að leita til læknis til að fá úr því skorið hvort um iktsýki eða einhvern annan gigtarsjúkdóm geti verið að ræða. Í byrjun getur verið mjög erfitt að sjúkdómsgreina iktsýki með vissu.

Sömuleiðis er rétt að leita til læknisins síns ef maður er með iktsýki en verður var við einhver ný einkenni eða aðrar óvæntar uppákomur. Læknirinn getur þá skorið úr um hvort um aukna virkni sjúkdómsins er að ræða eða einhverjar aukaverkanir komnar í ljós eða hvort einkenni um einhvern allt annan sjúkdóm sé að ræða.

Ef sjúkdómseinkennin ágerast ætti einnig að fara til læknis þar sem hugsanlega þarf að breyta meðferðinni.

Hvað getur sjúklingurinn gert sjálfur? – Hafa æfingar og mataræði þýðingu?

Fólk með iktsýki er oft þreyttara en almennt. Það er því ráðlegt að ákveða einhvern hvíldartíma að deginum og almennt að fara vel með sig og þekkja sín takmörk.

  • Skipulagður hvíldartími

Fasta slær eitthvað á einkennin. Aftur á móti er ekki vitað til að eitthvert ákveðið mataræði hafi áhrif á sjúkdóminn eða framgang hans. Almenna reglan er sú að borða fjölbreyttan kost og vítamín.

Margt bendir til að hæfileg líkamsrækt sé af hinu góða t.d. í hópþjálfun. Einnig eru æfingar í vatni mjög góðar, t.d. heitir pottar.

  • Líkamsrækt, þar sem tekið er tillit til sjúkdómsástandsins, eykur ekki hættuna á að liðirnir versni.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Ekkert eitt einkenni eða einhver ein rannsókn er til sem segir lækninum að sjúklingurinn hafi iktsýki. Búið er að þróa alþjóðlega staðlaða lýsingu á einkennum iktsýki sem komið hefur sér vel í sambandi við vísindalegar rannsóknir á iktsýki í mismunandi löndum. Þessir staðlar henta ekki sérlega vel þegar sjúkdómurinn er á allra fyrstu stigum.

Helstu einkenni sem lögð er áhersla á eru:

  • morgunstirðleiki í minnst 1 klst. í minnst 6 vikur
  • bólga í mjúkvefjum minnst 3 liða eða liðasvæða
  • mjúkpartabólga við úlnliði og fingurliði
  • liðbólga í samhverfum liðum, þ.e. í sama lið hægra og vinstra megin
  • tilvist gigtarhnúta
  • jákvæðar gigtarblóðprufur
  • einkennandi breytingar á röntgenmyndum.

Liðagigtarsjúklingur uppfyllir að minnsta kosti 4 atriði. Fyrstu 4 atriðin þurfa að vera til staðar í að minnsta kosti 6 vikur.

Hvaða meðferð er við iktsýki?

Sjúkdómurinn sem slíkur er ólæknandi, en margt er hægt að gera til að draga úr einkennunum og seinka framgangi sjúkdómsins svo og seinka tilkomu ýmissa aukaverkana. Meðhöndlun iktsýki byggir á þverfaglegri samvinnu ýmissa sérfræðinga eins og gigtlækna, gigtarskurðlækna, sjúkra- og iðjuþjálfara, hjúkrunarfræðinga, félagsfræðinga og e.t.v. sálfræðinga. Meðferðin er margþætt og hver þáttur gegnir sínu hlutverki. Þessir mismunandi meðferðarmöguleikar einir sér eða fleiri saman gera það að verkum að hægt er að seinka framgangi sjúkdómsins og þar með viðhalda starfsgetu sjúklinganna til hagsbóta fyrir alla.

Lestu fleiri greinar á doktor.is logo

 

SHARE