Hvaða lag fer alla leið í kvöld? Siggi Gunnars fer yfir Söngvakeppnina 2014

Siggi Gunnars hefur verið okkar sérlegur Eurovision ráðgjafi hér á Hún.is  Hann reynist nú sjaldan sannspár en hann hefur nú meira vit af þessu en við allar til samans sem skrifum pistla hér á hún.is  En Siggi Gunnars er tónlistarstjóri á útvarpssviði Skjásins sem rekur K100 og Retro 89.5  Siggi stjórnar einnig  Seinniparturinn á milli kl. 15 – 18 alla virka daga á K100

Gefum Sigga Gunnars orðið:
Þá er stóri dagurinn runninn upp, í kvöld veljum við framlag okkar til Eurovision 2014. Keppnin í ár er mjög spennandi, vegna þess að það er ekkert eitt lag sem stendur upp úr sem 100% sigurvegari, þó svo að flestir virðast ætla að setja peninga á að Pollapönkið taki þetta í ár.

Ég verð seint talinn góður spámaður

Ég því ekki að reyna spá fyrir um hvaða lag fer fyrir okkar hönd út, en ég ætla að reyna að meta hvert og eitt lag út með Eurovision gleraugunum mínum.

F.U.N.K. – Þangað til ég dey
Það kom mér virkilega á óvart að þessir ungu og efnilegu tónlistarmenn kæmust áfram um síðustu helgi. Þeir eru, eins og ég sagði, ungir og efnilegir en standardinn á sviðsframkomunni á laugardaginn var ekki upp á marga fiska. Söngvarinn hefur ágæta rödd en gaf ekki mikið af sér og virtist stressaður. Þetta var svolítið eins og framlag í Söngkeppni Framhaldsskólanna, sem er ekki slæmt per sé, en standarinn í þessari keppni er bara annar. En þeir eiga klárlega framtíðina fyrir sér og gaman fyrir þá að taka þátt í þessari keppni og læra meira. Ég tel líkurnar á því að þetta lag geri eitthvað mjög litlar. Ef lagið fer alla leið þá er þetta ekki lag sem á eftir að valda usla í Evrópu.

Ásdís María – Amour
Þessu lagi náði ég ekki við fyrstu hlustun, fannst þetta eiginlega frekar asnalegt. En eftir að hafa hlustað meira og meira á það verð ég að viðurkenna að það er bara nokkuð gott. Rosalega indý og kannski ekki alveg beint Eurovision lag samt. Flott flautið í byrjun og bassalínan er töff. Söngkonan er alveg frábær, hefur kraftmikla rödd en hana skortir auðvitað reynslu á sviði, sem hún er að ná sér í núna. Þetta lag fór áfram á dómnefndaratkvæði og því er ansi ólíklegt að það geri stóra hluti í kvöld, Indý hefur stundum átt upp á pallborðið í henni Evrópu, þannig að ef þetta lag færi alla leið, þá já, hmmm gæti það gert eitthvað, kannski?

Sigga Eyrún – Lífið kviknar á ný
Það kom mér á óvart að þetta lag hefði ekki farið áfram síðustu helgi nema bara sem Wild Card. Mér finnst þetta lag reglulega skemmtilegt og höfum við á skrifstofunni á K100 dansað við það alla vikuna og sungið hástöfum með. Reyndar verður það að viðurkennast að flutningurinn á laginu síðustu helgi var ekki nógu góður, mér fannst mixið vont og sviðssetningin ekki nógu góð, sem gæti haft eitthvað með það að gera að lagið fór ekki áfram um liðna helgi. Ef flutningurinn á laginu verður öruggari en síðustu helgi þá hugsanlega getur það átt möguleika á að gera eitthvað í kvöld.

Von – Gissur Páll
Þá er ítalska lagið sem Björgvin Halldórsson gæti hæglega gert jólalag úr næst á dagskrá. Ef þetta væri keppni í söng þá væri Gissur Páll klár sigurvegari en hér er keppt í söngvum, þ.e. lögum, og því veit ég ekki með þetta. Melódían er svosem auðveld og ég hef staðið mig af því að garga þetta lag við misjafnar vinsældir fólksins í kringum mig. Það flaug áfram úr fyrri undankeppninni og kannski taka eldri húsmæður yfir símana í kvöld og kjósa þetta alla leið. Tenorar hafa nú ekki átt neinu svakalegu gengi að fagna í stóru keppninni og ég held að þetta sé ekki lag sem sé að fara að sigra Evrópu.

Eftir eitt lag – Gréta Mjöll
Mér finnst einhvernvegin allir vera að tala um þetta lag. Ég tók ekkert eftir því í undankeppninni og það kom mér á óvart að það færi áfram. En eftir að hafa hlustað meira og horft á flutninginn aftur verð ég bara að viðurkenna að þetta lag er alveg skothelt. Fallegur flutningur og skemmtileg sviðsframkoma. Lagið er einfalt en samt grípandi. Það er vel staðsett í keppninni, næst síðast, og ég tel að Gréta Mjöll fari upp í topp tvo með þetta í kvöld, ef flutningurinn verður í lagi.

Enga fordóma – Pollapönk
Lagið sem flestir telja að fari alla leið í ár. Það hefur verið mikið markaðssett enda eru þeir með mjög reynslu mikinn mann í því verki, Valla Sport. Það verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að svona lög, svona smá flipp úr heimlandinu, hafa yfirleitt ekki gert mikinn usla út í stóru keppninni. En ef mönnum tekst að færa conceptið út og gera einfaldan en áhrifamikinn enskan texta við lagið þá hef ég trú á þessu! Ég held að það verði að teljast nokkuð pottþétt að þetta lag komist í topp tvo og svo er bara spurning hvort Pollapönkarnir frumsýni nýjan enskan texta við það tilefni.

Semsagt, ég ætlaði ekki að spá, en fór ósjálfrátt að spá og segi því að Gréta Mjöll og Pollapönk fari í topp tvo í kvöld. Ég persónulega vil sjá Lífið kviknar á ný fara ofarlega en er hræddur um að það gerist. Ef Gréta Mjöll fer ekki í topp tvo verða það eldri húsmæðurnar sem taka yfir og koma Von þangað.

Ef Pollapönk frumsýna flottan og einfaldan texta í kvöld, þegar í topp tvo er komið, og sýna fram á að þeir geti fært þetta concept út fyrir landssteinana fara þeir alla leið.

Að lokum segi ég bara gleðilega Eurovision, verum jákvæð í kvöld og pössum hvað við segjum á samfélagsmiðlunum!

SHARE