Íslensk móðir getur ekki meira, sonurinn fíkill

Ég fékk þessar línur sendar frá móður sem er örmagna!

Frá móður:

Ég get ekki haldið svona áfram, ég er bara móðir sem vinnur við ræstingar en þar sem samfélagið bíður ekki upp á neina hjálp fyrir verst setta hópinn í neyslu vímuefna. Þá er ég líka hjúkrunarkona, læknir og burðadýr. Það er enga hjálp að fá og sonur minn er alveg að deyja.

Sonur minn er orðin fullorðin maður 27 ára en hann er mjög veikur af fíknisjúkdóm svo veikur að hann notar hvað sem er.

Núna er staðan þannig að hann er orðin svo veikur líkamlega og andlega að ég veit ekki hvort ég er hræddari við að hann deyji í krampaflogi eða taki of stóran skammt þar sem hann er alveg stjórnlaus.

Ég er orðin svo þreytt og ég er búin að gera allt og meira til. Búin að gera allt frá því að kaupa dóp fyrir hann til að fá frið í að þrífa upp blóðið eftir að hann sprautar sig.

Við komum allstaðar að lokuðum dyrum og læknar hafa skrifað upp á fráhvarfslyf og kennt mér hvernig ég á að trappa hann niður. Áfengisráðgjafar hafa bent mér á hvernig ég get bara passað upp á hann með því að sitja yfir honum á meðan hann sprautar sig og passa að hann borði og drekki.

Ég er algerlega örmagna, ég skil ekki þetta kerfi. Það er skýrt í lögum og stjórnarskrá að allir eiga rétt á heilbrigðisþjónustu en staðreyndin er sú að fíklar eru frávik frá þessum lögum og við foreldrar endum sem örmagna Kleppsmatur sem kostar samfélagið enn meiri peninga.

Ég er ekki hjúkka, læknir, áfengisráðgjafi, ég er mamma sem óttast um líf barnsins míns á sama tíma og ég held að það væri best fyrir hann að fá að fara því hann lifir svo einstaklega vondu og ljótu lífi.

Frá mér:

Úff, ég skal alveg viðurkenna að það komu tár þegar ég las þetta en því miður er þetta sönn saga og bara ein af mörgum.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here