„Já, hvað starfar þú svo við?”

… og þannig, rétt sisvona, stigum við upp í flugvél. Tróðum okkur í dvergvaxin sæti RyanAir, blótuðum flugvellinum á Rygge í sand og ösku fyrir að hafa ekki opna veitingasölu næturlangt og blöðruðum þessi lifandis ósköp við ókunna Íslendinga sem sögðust á leið til Króatíu. Svo gaman var að ræða við samlanda mína á flugvellinum í Noregi að ég rak upp stór augu þegar þau ruku upp til handa og fóta í miðri setningu – ruku í innritun og kvöddu.

Það var eitthvað svo heimilislegt að heyra móðurmálið að mér fannst um stund að fólkið ætti hreinlega að borga breytingafargjald og gista bara hjá okkur í litla húsinu í Alicante. En því var víst ekki komið við og svo eru króatískar strendur víst líka ægifagrar á þessum árstíma. Svo.

Leigubílstjórinn sem ekur syni mínum til skóla alla morgna (… einmitt, í Noregi fá börnin far með leigubíl ef vegalengdin nemur meira en 6 kílómetrum …) ók okkur síðasta spölinn. Laumaði litlum 100 norskum krónum að drengnum í ferðaaur þegar við kvöddum gamla manninn við vængjahurðina og gott ef ég sá ekki tár á hvarmi þegar sá gamli sneri sér á hæl og kvaddi. Konurnar í matvöruversluninni urðu líka eilítið daprar þegar ég sagðist ekki kaupa meiri mjólk fyrr en að mánuði liðnum. Ægilega verða þær brúskaðar og glaðar þegar ég rek inn nefið, sólbrunnin og með gloss á vör, um miðjan ágúst. Maður er svona aðeins farinn að kannast við sig í norska frímerkjaþorpinu.

Auðvitað keypti ég svo flugmiða heilum sólarhring áður en ég hafði bókað gistingu og þannig þurfti ég að leita á náðir AirBnB í þeirri von að finna húsaskjól í ríflega 24 tíma. Svo við þyrftum ekki að híma á flugvellinum og veifa vongóð til ferðalanga, með orðunum: “Hæ, við erum heimilislaus þar til á morgun … ekki langar ykkur að bjóða mér og barni í ylvolgt te? Kannski lúr á sófa?”

Rassi fékk vægt hitaaðsvif við lendingu – hér geislar barnið af örvæntingu:

En allt er gott sem endar vel og þannig tók spænskt par á þrítugsaldri okkur undir verndarvæng sinn; stúlka sem kennir spænsku og starfar við þýðingar – ásamt eiginmanni sínum sem er frá Argentínu og vinnur sem forritari fyrir breskan hugbúnaðarrisa, sem er með höfuðstöðvar í London.

Einmitt. Við gistum í ofurlitlu herbergi hjá indælu pari eina nótt. Það er allt í kei að versla gistingu gegnum AirBnB. Hugsa örlítið út fyrir kassann. Taka bara sénsinn. Svona einu sinni. Nú, eða oftar.

Við erum nú búsett í gamla hverfinu í Alicante – hér eyðum við júlímánuði: 


Frískandi upplifun sem það var, ég þekki nefnilega fullt af Íslendingum sem starfa að heiman og það víða um heim – en aldrei hef ég rekist á útlendinga sem starfa við sambærilegar aðstæður og ég. Í Noregi reka nefnilega allir upp stór augu þegar ég segist starfa á ritvellinum og að ég fái greitt að heiman. Þiggi íslensk laun. Þetta þykir þeim norsku ægilega skrýtið og spyrja gjarna hvort ég sé þá að rita um flutningaferlið til Noregs og hvort ég muni ekki örugglega eftir að leggja fyrir í eftirlaunasjóð?

En spænska parinu þótti starfsfyrirkomulag mitt hæsta eðlilegt. Voða gott. Enda er ég orðin eilítið þreytt á að tíunda þetta nánar. Þið vitið – að finna hæfilegt svar við spurningunni: „Já, hvað starfar þú svo við?” Svo það var ægilegur léttir að rekast loks á einhvern sem vinnur líka heima. Og stendur sig vel í starfi.

Að þessu sögðu langar mig að bæta því við að allt er einstæðum foreldrum mögulegt, ef einungis hugrekki og skapandi hugsun er höfð að leiðarljósi. Ég tók stökkið. Með þriggja ára gamlan dreng sem á þeim tíma var talinn glíma við röskun á einhverfurófi. Pakkaði niður í ferðatöskur, yfirgaf Ísland íklædd götóttum strigaskóm fyrir ríflega þremur árum síðan, pakkaði búslóðinni á bretti og prúttaði við flutningateymið, skakklappaðist gegnum erlendan flugvöll með 10 kíló í yfirvigt og grenjaði örlítið þegar ég fann ekki útganginn.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég tók mín fyrstu spor á norskri grundu í átján gráðu frosti með þriggja ára gamlan dreng sem ekkert þráði heitar en Kókómjólk, íslenskar teiknimyndir og vinina sem eftir urðu heima í Reykjavík. Allt hefur gerst.

Allt er einstæðum foreldrum mögulegt, líka konum eins og mér – sem eru komnar hátt á fimmtugsaldur og fá aldrei barnapössun á kvöldin. Stelpum sem taka dagvinnu á útlenskum lager til að hafa ofan í og á börnin og stauta sig áfram á bjagaðri norsku. Allt er hægt ef einungis úthaldið er fyrir hendi. Það virðist – þegar upp er staðið – vera lykillinn að öllu. Úthaldið. Og svo tónlistin – já. Kallið mig bara bilaða. En þegar einsemdina ytra ætlaði að keyra um þverbak, þá spilaði ég feiknarinnar ósköp af tónlist. Dansaði í eldhúsinu við Sister Sledge og framreiddi kalkún á jólum með þá fimm ára gömlu barni – tróð döðlum í fyllinguna og fíraði upp í arninum. Klæddi mig í inniskó, tók upp íslenska jólapakka og sagði: „Iss, við þurfum ekki fleiri gesti í jólaboðið þetta árið.”

… því stundum þarf maður einfaldlega að vera sín eigin hetja.

Þrákelni mín hefur gert að verkum að mér dettur ekki til hugar að sneiða hjá sumarfríi í sparnaðarskyni, hef þjálfað grunnskólabarn til Evrópu-ferðalaga og harðneita að láta lífsins lúxus af hendi þrátt fyrir að stundum hrökkvi krónurnar varla til fyrir mjólkurpotti.

Það er þetta með úthaldið, elsku vinir, sem virðist skipta öllu. Að þrauka ísi lagðan veturinn, að leggja krónurnar til hliðar og að taka bankahólf á leigu ef engin leið er að láta sparireikninginn í friði. Að leggja á ráðin, fara í fjandans fríið og skammta sér tíu evrur á dag, ef ekki meira hrekkur til í það skiptið til gjaldeyris. Það getur líka verið gaman að ganga erlend stræti og leika ljósmyndara. Borða brauðhorn. Og brosa framan í ókunna barþjóna. Stundum – þarf ekki meira til að gleðja einfalda sál.

Það eina sem er bannað, elsku vinir, er að gefast upp.

Þetta er síðasti pistillinn sem ég rita fyrir HÚN, elsku vinir. Ég veifa ykkur því að hinsta sinni (í bókstaflegri merkingu) af sólríkum svölum alla leið frá Alicante, íklædd stutbuxum og vopnuð sólarvörn. Ástæðan er einföld; ég hverf til annarra starfa á næstu vikum og er ógerlegt að halda fleiri boltum á lofti. Samstarfsfólki mínu kann ég ómældar þakkir, lesendur mínir muni rekast á mig á öðrum vettvangi og einhver orðin læt ég falla til viðbótar. Sennilega verða þau flest um afrek einstæðrar móður sem hyggur á jasstónleika í París næsta haust, er staðráðin í að grandskoða Norður-Írland og ætlar að taka Hrekkjavökuna með stæl í Tívolíinu í Kaupmannahöfn þetta árið. Auðvitað með Rassa í eftirdragi. Hann er alltaf með, sá stutti og eignar sér sviðið hvert sem leiðin liggur það árið.

Viðkvæmnislegar árnaðarkveðjur frá sólríkri Alicante frá þeirri einstæðu sem neitar að gefa eftir. Fyrst ég gat – stendur ekkert í veginum fyrir ykkur heldur. Ást og friður. 

SHARE