Jólastress eða jólakyrrð

Ertu búin að öllu?

Algeng spurning fyrir jól, búin að hverju?

Eru einhverjar reglur sem við þurfum að fara eftir eða megum við hafa jólin eins og við viljum.

Nei ég er ekki búin að neinu svona umfram þetta hefðbundna og já það er kominn 13 des og mér og mínum líður bara fínt.

Þegar ég var lítil stúlka þá einkenndist desember að undirbúningi jólanna. Það var verið að þrífa í drep alla daga, pússa silfrið, bara smákökur og setja í dollur sem voru svo kyrfilega límdar svo enginn gæti stolist í boxið, það urðu allir að fá ný nærföt og jólaföt.

Svo þegar kom að þessum blessuðu jólum horfði maður á sjónvarpið á meðan mamma var hlekkjuð við eldavélina og yfirstressuð eftir öll þrifin og baksturinn og nú yfir matseldinni, jú það var alger regla að matur yrði klár á borðum kl 18 og þegar kirkjuklukkurnar hringdu í útvarpinu áttu allir að kyssa alla gleðileg jól og svo var borðað.

Borðhaldið var rafmagnað eftir heilan mánuð af stressi auk þess sem jólastellið var ofur viðkvæmt og rándýrt svo það var nánast dauðadómur ef eitthvað brotnaði. Mamma var úrvinda en átti samt eftir að ganga frá eftir matin og bera konfekt á borð áður en ráðist var á pakkahrúguna.

Svo bara var aðaldagurinn aðfangadagur búin og púff enginn hafði lyst á öllum 20 tegundunum af smákökum svo þær voru í frystinum fram að páskum en það var ósköp ljúft og langbest að komast í náttföt leggjast í rúmið eða á gólfið með nýja bók sem kom úr jólapakka.

Gleðileg jól eða hvað?

Í dag eru þetta ekki mín jól, NEI, mamma mín gerði sitt besta en þannig var þetta bara í þá daga.

Í dag er ég miðaldra á mín 3 börn og eitt barnabarn og tók allt sem heitir streita og reglur út vegna jólanna.

við njótum aðventunnar á þann hátt að við gerum betur við okkur kíkjum á tónleika og tökum bara tjillið á þetta eins og unglingarnir segja.

Ég baka bara ekki eina einustu sort enda mitt fólk ekki mikið fyrir smákökur og við þrífum ekki í drep, nei alls ekki. Það er ekkert allt á hvolfi en bara heimilislegt rétt eins og aðra daga. Við leggjum upp úr góðum mat og góðri samveru á aðfangadag og maturinn er bara klukkan það sem hann er tilbúin á. Við hlæjum og spilum og erum þægilega klædd.

Jólin eru tími til þess að njóta og vera hjá okkur.

Fyrir mér eru það Gleðileg jól!

Þetta eru jólahefðirnar sem við hjónin sköpuðum fyrir okkar fjölskyldu og það er dásamlegt að sjá börnin sín sem fullorðna einstaklinga taka þessum tíma bara með hæfilegu kæruleysi.

Jólin koma og þau snúast um kærleiksstundir.

Megið þið eiga stresslausa aðventu og stresslaus jól….. Ekki láta auglýsingar og markaðsetningu taka ykkur á taugum. Það fer svo allt á útsölu í byrjun janúar….

Í ár gefum við eingöngu upplifanir í jólagjöf þar sem allir eiga allt of mikið af öllu!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here