Klamydía og aðrir kvillar

Frá því að ég var lítil snót í hvítum blúndukjól hef ég verið sólgin í fréttir. Barnabörnin grínast oft með að það megi ekki trufla ömmu á meðan hún les fréttirnar því þá fá þau ekki kandís. Á mínum síðari árum hef ég átt í basli með að skilja fréttir af ungu fólki sem virðist algerlega stjórnlaust og laust við virðingu gagnvart sjálfu sér. Ég tel að þetta fall sjálfsvirðingar hafi byrjað að gera vart við sig undir lok síðustu aldar með tilheyrandi kynsjúkdómum og óþrifnaði. Þetta fall ungdómsins virðist vera að kristallast í nýju Evrópumeti í klamydíu.

Ég var leikskólakennari í rúm 35 ár og og kalla því ekki allt ömmu mína þegar kemur að uppeldinu. Ég vil kenna kynfræðslunni um allar þessar hamslausu bólfarir. Hér í den var einkalíf fólks þeirra einkamál, elskan mín góða þetta var hreinlega ekki rætt. Nú er öllum unglingum kennt að veifa sínu allra heilagasta framan í hvern sem vill sjá í svokallaðri „kynfræðslu“. Þetta þarf ekki að vera svona. Hvers vegna er ekki hægt að fara með unglingana í sveitina að sjá hvernig hrútarnir gera þetta? Svo fá allir pönnukökur með sykri og maltöl á ettir.

Ég er ekki að segja að unga fólkið eigi að segja skilið við erótík og forvitni um mannslíkamann. Þegar ég var á mínum unglingsárum þá átti ég marga leikfélaga en við vorum nánast laus við þennan óþrifnað sem herjar á ungdóminn í dag. Það fengu allir lús en hana kembdi maður bara burt. Það er engu líkara en að ungt fólk í dag hafi ekki heyrt hvað svampur, vatn og sápa geta gert. Ég veit fyrir víst að fólk er að bjóða hættunni heim þegar það fjarlægir öll sín hár við kynfærin. Það er ástæða fyrir því að manni vex hár þarna niðri og verð ég vægast sagt hneyksluð þegar ég sé ungar stúlkur í sundi með krúsidúllu skapahár.

Höfundur: Guðrún Pétursdóttir

SHARE