Lést úr hjartaáfalli eftir að hafa verið sendur heim af bráðamóttöku

Vefsíðan Hjartalíf birta þessa grein fyrir skömmu.

Fréttablaðið segir frá því að maður sem lést á heimili sínu skömmu eftir að hann var útskrifaður af bráðamóttöku Landspítalans milli jóla og nýárs leitaði á móttökuna vegna verks fyrir hjarta. Dánarmein hans var hjartaáfall.

Andri Ólafsson, sem sér um fjölmiðlasamskipti fyrir Landspítalann, segir spítalanum óheimilt að tjá sig um einstök mál. Nánari upplýsingar en þegar hafi komið fram verði ekki gefnar út fyrr en að lokinni rannsókn. Málið hafi strax verið tilkynnt til Landlæknis og lögreglu í samræmi við verklagsreglur.

Heimildir Fréttablaðsins herma að ekki sé augljóst að samhengi hafi verið á milli afdrifa mannsins og álags á bráðamóttökuna þótt getum hafi verið leitt að slíku í fjölmiðlum. Ef andlát verður hjá sjúklingi skömmu eftir að hann er útskrifaður fer ákveðið rannsóknarferli sjálfkrafa af stað.

Einkenni brjóstverkja ekki léttvæg

„Annað hvort var allt gert sem hægt var að gera á bráðamóttökunni og óhappatilvik hafa ráðið för eða þá að um grafalvarlegt mál er að ræða,“ segir sérfræðingur sem kýs nafnleynd. „Það er vonlaust að spá fyrir um það á þessari stundu á hvorn bóginn niðurstaðan verður.“

Maðurinn var innan við sextugt er hann lést. Málið er rannsakað sem alvarlegt atvik. Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði fyrst frá og hefur komið fram að maðurinn hafi áður verið hraustur. Hann hafi gengist undir skoðun og rannsóknir áður en hann var sendur heim.

Hjartaáfall

Aðdragandinn að hjartaáfalli er yfirleitt langur en áfallið getur komið skyndilega og fyrivaralítið. En hvað er hjartaáfall nákvæmlega? hvað gerist? Eru einkenni karla og kvenna ólík? Hver eru helstu einkennin og hvernig á að bregðast við?

Hjartaáfall framkallast þegar blóðflæði til hjartavöðvans stöðvast. Ef blóðflæðið kemst ekki fljótlega af stað aftur kemur skemmd í vöðvann vegna súrefnisskorts og jafnvel drep.

Ef ekkert er að gert getur hjartaáfall valdið dauða.

Meðferð við hjartaáfalli ber mestan árangur ef hún hefst innan við 60-90 mínútum eftir að áfallið á sér stað og því er mikilvægt að koma einstaklingi sem hefur fengið hjartaáfall undir læknishendur hið snarasta.

Hjartaáfall á sér í flestum tilvikum stað í kjölfar bráðakransæðastíflu en hún er ein algengasta dánarorsök Íslendinga.

Orsök stíflunnar er oftast sú að fituskella rifnar inni í æð, eða blæðing verður inn í hana. Við það hleðst upp blóðsegi (blóðtappi) á staðnum sem getur stíflað æðina.

Ef blóðseginn er nógu stór til að stöðva flæði um æðina algjörlega fær viðkomandi hjartaáfall.

Rannsóknir sýna að fólk bíður oft of lengi áður en það hringir á sjúkrabíl, þessi bið getur valdið óbætanlegum skaða og getur jafnvel orðið banvæn.

Einkenni karla og kvenna

  • Óþægilegur þrýstingur, tak eða sársauki fyrir miðju brjóstinu, sem varir lengur en fáeinar mínútur eða kemur og fer
  • Verkur sem leiðir út í herðar, háls, kjálka, handleggi eða bak
  • Óþægindi fyrir brjósti, sem fylgja svimi, yfirlið, ógleði, sviti og mæði

Einkenni kvenna eru oft þau sömu og hér eru talin upp að ofan en ekki alltaf. Konur fá oft bakverki og meltingartruflanir eða óþægindi. Þessir verkir geta verið dulbúnir brjóstverkir.

Verkur af völdum hjartaáfalls getur komið fram jafnt í hvíld sem eftir hreyfingu. Hann varir lengur en 10 mínútur og hverfur ekki fyrir tilverknað lyfja.

Heimild: Fréttablaðið og hjartalif.is

Björn Ófeigs.

SHARE