Makinn sem njósnar um þig.

Ég rakst á umræðu um daginn á facebook þar sem fólk var að tala um hvort eðlilegt væri að makar skoðuðu töluvpóst og facebookskilaboð hjá hvoru öðru. Fólk hafði misjafnar skoðanir á þessu og sumir voru alveg á því að þegar fólk væri í sambandi eða hjón myndi „mitt er þitt og þitt er mitt” reglan gilda og eðlilegt væri að fólk myndi bara deila öllu – líka prívat skilaboðum. Aðrir voru alveg á hinni línunni, fannst það brot á trausti að fara í einkaskilaboð maka.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir alla að eiga sitt einkalíf. Þó þú eigir maka sem þú deilir lífinu með er mikilvægt að geta átt eitthvað fyrir sjálfan sig. Ég væri ekki hrifin af því ef kærastinn minn krefðist þess að fá að skoða alla mína tölvupósta og facebook samræður, bæði fyndist mér það merki um að hann myndi ekki treysta mér, einnig eru bara samtöl þar inni sem eiga ekki að fara lengra. Ég er viss um að vinkonur mínar yrðu ekki sáttar með að maðurinn minn væri að skoða samtöl okkar á milli, þar sem þær eru að treysta mér fyrir einhverju sem á ekki að fara lengra. Hinsvegar finnst mér voðalega notalegt að við skiljum bæði tölvurnar okkar eftir opnar og oft facebook opið þó við skreppum frá. Við vitum bæði að við höfum ekkert að fela.

Auðvitað eru aðstæður fólks misjafnar. Þeir sem hafa þörf fyrir að skoða allt sem makinn gerir og treysta honum ekki, hafa líklega einhverja sögu að baki þar sem traust hefur verið brotið. En hver vill vera í sambandi þar sem þú ert alltaf á tauginni?

Ég hefði lítinn áhuga á að vera í sambandi með manni sem ég myndi ekki treysta til að eiga facebook eða tölvupóst án þess að ég hefði áhyggjur af því að hann væri að gera eitthvað sem hann ætti ekki að gera. Þá er betra að sleppa þessu bara.

Mér finnst ekki eðlilegt ef þú ætlar að fara að  „stjórna” því sem makinn þinn segir, gerir eða birtir á facebook.
Þó að við séum í „liði” saman sem makar hvors annars þá erum við ennþá einstaklingar.

SHARE