Með lífið í lúkunum

Ég skreið yfir markið skömmu áður en ný reglugerð um réttindi og skyldur innflytjenda skullu á og knúði fram kennitölu. Ég var hvoru tveggja; lánsöm og einnig illa að mér um réttindi mín og skyldur. Í raun hélt ég nefnilega að „það væri ekkert mál að flytja til útlanda, því Íslendingar væru svo vel liðnir“.

Í dag getur íslenskur ríkisborgari ekki óskað eftir kennitölu innan Oslóar án þess að leggja fram undirritaðan starfssamning. Það eitt skiptir máli að hafa vinnu. Að hafa eitthvað fyrir stafni. Og kennitala er gull í vasa innflytjanda. Ekkert er mögulegt án kennitölu. Það eitt að kaupa símanúmer í Osló er ekki einu sinni hægt. Nema lögð sé fram kennitala og í einhverjum tilfellum; undirritaður starfssamningur.

Reglugerðin small á í upphafi febrúar það sama ár og ég fluttist að heiman. Osló er í örum vexti. Borgin ilmar af alþjóðlegum áhrifum, straumur innflytjenda eykst með hverjum degi og kröfurnar hafa að sama skapi verið hertar til muna hér í höfuðborginni. Og gott ef starfsmenn Skattstofunnar (sem er þungamiðja okkar útlendinga við komu) eru ekki bara eilítið dónalegir þegar kennitöluþvaður ber á góma.

Að stíga fæti inn á Skatteetaten í miðborg Oslóar er örlítið eins og að ganga inn í alþjóðlegt ævintýri. Mér þótti sem öll þjóðerni jarðarkringlunnar hlytu að vera samankomin í einni kös inni á skattstofunni. Í leit að kennitölu. Með lífið í lúkunum. Dökkeygar konur í skósíðum búrkum, seiðandi suður-evrópskar stúlkur með sterka augnskugga og íklæddar stuttum pilsum, feimin börn á sandölum, ábúðarfullir miðaldra Norðurlandabúar í hraustlegum vetrarfatnaði, framandi orðaskak á nær öllum þjóðtungum heims og þreytulegir, slavneskir iðnaðarmenn í slitnum vinnufatnaði. Allt þetta og meira til má líta augum á skattstofunni í Osló á venjulegum eftirmiðdegi.

Ég mátti því húka ansi lengi með Rassa í kerrunni og þvælt eyðublað í höndum, áður en ég hlaut loks áheyrn hjá miðaldra þjónustufulltrúa sem horfði hvasseyg á mig yfir appelsínugult borðið og bjó sig undir að taka við gögnum. Að baki var þriggja klukkutíma bið eftir afgreiðslu, nokkrir sykraðir svaladrykkir og gengdarlaus leit eftir sæti. Ég er viss um að konan hafi talið fullvíst að ég væri að reyna að stela barninu, sem hékk eirðarlaust og aðframkomið af umframorku í buxnastrengnum á mér meðan ég fyllti út eyðublöð svo hægt yrði að verða okkur báðum út um nauðsynleg réttindi í okkar nýja heimalandi.

Ég lýg engu um það. Rassi litli reyndi að girða niður um mig á skattstofunni. Frammi fyrir fjölda fólks af fjölbreytilegu þjóðerni. Og það þó ég hafi illvíg á svip, skáskotið augunum að barninu meðan á buxnaglímunni yfir kennitölunni stóð og beðið þess hljóð sem verða vildi; að ég stæði að lokum á nærbuxunum einum fata frammi fyrir geðvondum, norskum þjónustufulltrúa á skattstofunni í Osló.

Það mátti engu muna að ég hefði staðið á efnislitlum nærbuxunum frammi fyrir norskum skattayfirvöldum í miðborg Oslóar umrætt eftirmiðdegi. Allt fyrir tilstilli Rassa litla. Sem eins og óður maður æpti á afþreyingu fyrstu dagana og var viðþolslaus þar til hans þörfum var sinnt. Í þá daga hafði hann nýverið uppgötvað að ekkert vopn var öflugra í baráttunni um athygli móður sinnar en einmitt buxnastrengurinn. Hið helga vé.

Ég minnist þess að hafa kinnroðalaust girt upp um mig (að minnsta kosti þrisvar) – sinnt barninu með hægri hendi, ritað umsóknina með þeirri vinstri, (ég er örvhent) sannfært þjónustufulltrúann (sem þá var komin hálf yfir borðið) að ekkert amaði að barninu (sem var kominn með þrjá blýanta í hendur og hló stórkarlalega í barnakerrunni) áður en ég loks komst til að leggja fram fæðingarvottorð okkar beggja, vegabréf og staðfestingu á forræði með orðunum: „Nei, auðvitað stal ég ekki barninu! Honum leiðist! Skattstofan er enginn staður fyrir börn! Ég ER mamma hans! Taktu fæðingarvottorðið og hirtu vegabréfin áður en barnið girðir niður um mig!“

Það var ekki örvæntingin sem knúði mig til að flytja. Það var ævintýraþráin. Sú löngun til að kryfja heiminn til mergjar. Með lítinn dreng í buxnastrengnum, þvælt fæðingarvottorð í vasanum og lífið í lúkunum. Þyrst eftir nýrri kennitölu og vandræðagangi á erlendri grundu. Með nokkrar krónur í vasanum og örfáa vinveitta einstaklinga sem lögðu okkur ómetanlegt lið á fyrstu metrunum ytra.

Það er ekki hægt að smygla börnum til Noregs. Skrifræðið er einfaldlega of mikið. Það lærðist mér á Skattinum þennan sama dag. Og hvaðan Rassi hefur allan hamaganginn hef ég enga hugmynd um.

Kennitölurnar komu svo í pósti tveimur vikum seinna.

En svona vildi til að ég endaði á nærbuxunum fyrir framan norska skattinn.

Hér má lesa nánar um reglugerð Folkregistreret og samnorræn réttindi íslenskra ríkisborgara.

SHARE