Með nef eins og Andrés Önd segir Malin Brand – Yfirheyrslan

Malin Brand sér mikið eftir Renault 5 Turbo, enda mikil bíladellukona.  Hún á það til „óvart“  að kaupa sér eða ættleiða ógangfæra bíla þegar hún skreppur út fyrir bæjarmörkin.  Malin er líka með bullandi áhuga á ljósmyndun og tekur fallegar myndir viðsvegar um landið þegar hún hefur tækifæri til.

Fullt nafn: Malín Brand
Aldur: 32 (ennþá…)
Hjúskaparstaða: Í sambúð með Gunnari Þór Hallgrímssyni. Heitir það þá ekki pottþétt sambúð þegar maður býr með einhverjum?
Atvinna: Blaðamaður á Morgunblaðinu.
Hver var fyrsta atvinna þín? Ætli það hafi ekki einmitt verið að bera út Morgunblaðið…?
Manstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum? Já, ég hef reynt að gleyma því en það er erfitt. Það var þegar ég mætti í Dr. Martens ofurbomsum, leðurbuxum (sem voru ekki úr leðri) og hippamussu. Var ógeðslega feimin á þessum tíma en mætti samt svona, eins og jólatré.
Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar? Nei, það er svona stefna hjá mér að halda sem allra fæstu leyndu. Hef burðast með of mörg leyndó í gegnum tíðina. Það er ekkert sniðugt.
Hefurðu farið hundóánægð úr klippingu og ekki sagt neitt við klipparann? Já, en samt er eftirminnilegast þegar ég lét klippa mig stutt og lita hárið rautt. Minn fyrrverandi fékk mikið sjokk og talaði ekki við mig í þrjá klukkutíma. En þetta var alveg töff hár samt, minnir mig.
Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá? Ég gerði það þegar ég var lítil en þegar mér var sagt að guð sæi allt steinhætti ég þessu. Það er nú samt ekki ástæðan fyrir því að ég geri þetta ekki í dag. Nú er ég bara svo hrikalega kurteis!
Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í? Akkúrat núna er ég að leita að lyklunum að bílnum mínum. Hann hefur staðið fyrir utan ónefnt fyrirtæki í þrjár vikur núna og ég er í bölvuðum vandræðum. Það er vandræðalegt – enda átti ég eitt sinn fimm aukalykla! Hlýt að hafa gleypt eitthvað af þessu.
Í hvernig klæðnaði líður þér best? Gallabuxum og hettupeysu.
Hefurðu komplexa? Já, ég fæ stundum hluti svona á heilann og þar veltast þeir um lengi lengi og enda oft sem komplexar. Þetta gerðist samt mun oftar þegar ég var krakki. Þá trúði ég því að ég væri með nef eins og Andrés Önd.
Hver er besta setning eða orðtak sem þú hefur heyrt? Sjaldan fellur Bubbi langt frá Eiríki.
Vefsíðan sem þú skoðar oftast? Mbl.is og ruv.is en svo ratar maður nú býsna oft inn á Facebook.
Seinasta sms sem þú fékkst? Já, mjög fínt. Má ég hringja?
Hundur eða köttur? Hundur.
Ertu ástfangin? Ójá!
Hefurðu brotið lög? Já, því miður. Hef ekið of hratt.
Hefurðu grátið í brúðkaupi? Já, en ég reyndi að sannfæra aðra um að ég væri með ofnæmi fyrir blómum eða einhverju.
Hefurðu stolið einhverju? Já, ég stal einhvern tíma skilti. Það var nú ekki fallegt enda geri ég ekki slíkt í dag.
Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það? Auðvitað ætti ég að segja eitthvað skynsamlegt eins og að hafa ekki trompast og sagt eitthvað ljótt en í staðinn segi ég að ég vildi að ég hefði ekki selt uppáhaldsbílinn minn árið 2000. Það var Renault 5 Turbo ´86 módel. Hann var alveg eins og nestisbox á blússsandi fart.
Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun? Ég hugsa að ég verði spengileg með ægilega margar broshrukkur því það er svo gaman að vera til!

 

SHARE