ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Ég hef lesið allskonar reynslusögur. Ég hef lesið ótal sögur kvenna af allskonar reynslu sem þær hafa átt, bæði góðar og slæmar. Margar konur skrifa um hversu „erfitt“ en vel launað starf það er að vera mamma og þrátt fyrir allt myndu þær aldrei vilja gera neitt annað og þær að sjálfsögðu elski börnin sín, til tunglsins og til baka. Þær myndu aldrei vilja skipta á neinu til þess að taka neitt af þessu til baka.

Þar kemur hængur málsins, og þetta hef ég aldrei sagt upphátt, en ég myndi gera það. Ég myndi vilja skipta þessu öllu út, því innst inni í hjartanum mínu, líður mér ekki eins og móður.

Ég elska auðvitað börnin mín, auðvitað! Ég skrifa þetta líka í nafnleynd því ég vil aldrei að þau viti hversu hræðilega ég hugsa, en ég varð að létta þessu af mér því þetta hefur hvílt þungt á mér. Alveg síðan ég varð mamma fyrir 12 árum síðan og alla daga síðan hef ég haft þessa sterku tilfinningu að mig langi ekki að vera mamma.

Þetta er ekki eitthvað sem ég er að skrifa bara af því ég er þreytt akkúrat núna, því það er staðreynd að ég kunni betur við líf mitt áður en ég varð foreldri. Ég kunni betur við mig sem persónu og ég hugsa mjög mikið til þeirra daga. 

Ég hugsa vel um börnin mín og þau eiga ástríkann pabba, ömmur og afa, frænkur og frændur. Börnin mín eru öll vel upp alin, hamingjusamar manneskjur. Þeim líður vel. Það er ég sem er vandamálið. Ég er sú sem er að leika hlutverk alla daga, allan daginn af því það hefur eitthvað klúðrast í uppröðuninni á DNA-inu mínu, því það vantar í mig það sem allar mömmur hafa.

Ég veit ekki af hverju ég er að skrifa þetta hérna.

Ég verð örugglega kölluð slæm móðir og fólk mun hvetja mig til þess að fara bara að heiman, börnin séu bara betur sett án mín. En ég mun ekki gera það því ég held að ég muni aldrei vera innilega hamingjusöm aftur, hvort sem ég er heima með börnunum eða flutt eitthvert í burtu ein. Samviskubitið mun éta mig upp, á hvorn veginn sem þetta færi, svo það er alveg eins gott bara að ég sé sú eina sem þarf að líða vítiskvalir, frekar en ég dragi alla fjölskylduna niður með mér.

Svo hef ég jú alltaf næturnar, eins og núna, þar sem börnin mín steinsofa og ég læt mig dreyma um dagana fyrir barnsburð, dagana sem hefðu aldrei átt að enda.

SHARE